Ljósin í hagkerfinu eru að slokkna eitt af öðru. Nú bætast við hundruðir fyrirtækja sem verða beðin um að draga verulega úr sinni starfsemi; rakarastofur, nuddstofur og annar rekstur sem krefst nándar í þjónustu. Þegar hafa íþróttir, menning og skemmtanahald lagst niður. Fregnir berast af fyrstu gjaldþrotum í ferðamannageira. Líklegt er að aðgerðir sem draga úr smiti vari a.m.k. út apríl og vel inn í maí. Þegar smit tilfellum fer aftur að fækka tekur við óvissa um opnun landamæra og eftir það tekur við enn annar þátturinn sem snýr að flugi og neysluvenjum ferðamanna.
Ísland er sérstaklega berskjaldað fyrir efnahagsáhrifum veirunnar. Ferðamannageiri er 9,4% af þjóðarframleiðslu Íslendinga — til samanburðar; 3,9% hjá Frökkum og 5,7% hjá Ítölum. Hátt í 30.000 störfum er ógnað í bókunum, veitingum, gistingu, flugi og öðrum tengdum greinum. Að minnsta kosti 30% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar má rekja til ferðamannageira.
Því miður vantar drifkraft í sögulegar aðgerðir stjórnvalda sem voru kynntar 21. mars. Þegar björgunarhringnum er varpað er eins gott að hann drífi. Of stór hluti aðgerðanna eru óbeinar; ríkistrygging bankalána, frestun gjalddaga og úttekt séreignarsparnaðar. Bein innspýting úr fjárlögum er ekki nema 50-60 milljarðar, eða um 2% af landsframleiðslu.
Til að gæta sanngirnis skal tekið fram að forsætisráðherra væntir fleiri aðgerða þegar áhrif veirunnar á efnahaginn hafa komið fram. Ennfremur er aðgerðin sem snýr að 25% starfshlutfalli fram að maí rausnarleg útaf fyrir sig. Þúsundir fyrirtækja munu nýta sér þennan valkost, en eftir situr 25% launaskrárinnar, afborganir af lánum, húsaleiga, bílatryggingar og kostnaðarliðir eins og hiti og rafmagn. Mörg fyrirtæki hafa verið beðin um að leggja alfarið niður sína starfsemi útaf veirunni.
Fjármálaráðherra varaði við 100-200 milljarða halla ríkissjóðs í svörum sínum á Alþingi. Ómögulegt er að spá fyrir um halla vegna þess að mikið af honum ræðst af skuldbindingum ríkissjóðs sem gengið er á í kreppu. Gera má ráð fyrir tekjutapi ríkissjóðs vegna landamæralokana og frosts í ferðamannageira ásamt ótal óvissuþáttum sem hrannast upp á hverjum degi. Aukið álag á heilbrigðiskerfið kallar á aukin útgjöld.
Og óveðurskýjunum fjölgar enn. Verðbólguskot frá gengisfalli gæti sett afborganir verðtryggra lána í uppnám. Mikill fjöldi ferðamanna hefur stóraukið flóruna í staðbundinni þjónustu og blásið lífi í landsbyggðina. Sú fjölbreytni er nú í uppnámi.
Ríkisstjórnin stendur frammi fyrir ógnvænlegri áskorun: Að bjarga þúsundum fyrirtækja þar sem tekjustreymi þurrkast upp með engum fyrirvara og erfitt er að spá fyrir um framhaldið. Þessi skellur kallar á aðgerðir af óþekktri stærðargráðu sem hafa engar skírskotanir í efnahagssögu landa nema hugsanlega þegar litið er til varnarmál og stríðsreksturs.
Ógnvænleg spurning sem við þurfum að spurja okkur er þessi: Er raunhæft að ríkið haldi uppi 30 þúsund stöðugildum og 10% af landsframleiðslu með lántöku ríkisins til lengri tíma — og það án gjaldeyristekna sem halda krónunni sterkri? Til skamms tíma verður svarið að vera já, ef ekki nema bara til að mýkja höggið.
Þjóðverjar eru þekktir fyrir aðhald í ríkisfjármálum og fylgja sambærilegum skuldareglum og hafa verið við lýði á Íslandi síðan 2015. Skuldareglur hafa verið mölbrotnar og risastór björgunarpakki kynntur nokkrum klukkutímum áður en íslenska ríkisstjórnin afhjúpaði sínar tillögur. Þar á bæ verður 600 milljarða evra varið ýmist í ríkistryggingar á lánum, eignarhluti og fjármögnun á fjárfestingarbankanum KfW. Hrein ný lántaka mun nema 10% af landsframleiðslu þegar pakkinn er samþykktur.
Við erum enn berskjaldaðri en Þýskaland út af hlut ferðamannageira. Án frekari aðgerða liggur fyrir að fjöldi fyrirtækja fara í þrot með tilheyrandi keðjuverkun á tengdan rekstur og heimili þeirra sem hafa sitt lífsviðurværi af geiranum.
Þetta er meira en bara skafl. Þetta er óveður og aðeins stórtækar björgunaraðgerðir af hálfu hins opinbera – stærri en þær sem kynntar voru á laugardaginn – geta veitt hagkerfinu skjól til skamms tíma. Eins og forsætisráðherra komst svo vel að orði hefur veirufaraldurinn líklega breytt heiminum varanlega. Ef til vill er óumflýjanleg aðlögun að nýrri samsetningu efnahags landsins hafin.
Athugasemdir