Neðanjarðarlestin í Duvbo í Stokkhólmi birtist við enda ganganna í þann mund sem sænski forsætisráðherrann slítur blaðamannafundi um nýjustu aðgerðaráætlun landsins varðandi COVID-19, sem ég horfði á í beinni í snjallsímanum. Loksins á að grípa til sams konar ráðstafana til að vernda lýðinn og grannlönd okkar tóku upp fyrir mörgum dögum síðan, og það er engu líkara en að fólkið í kringum mig á brautarpallinum andi léttar.
Allir standa með örugga fjarlægð á milli sín og næsta manns, sem er reyndar í eðli félagslega bældra Svía og alls ekki afleiðing af kórónaveirunni. Líkurnar á að hér safnist fólk saman úti á svölum til að taka þátt í fjöldasöng að hætti Ítala er jafn ólíkleg og að Skatteverket sendi inn framlag í næsta Eurovision. Ég er vopnuð kaffimáli í annarri hendinni og lófastórri sprittflösku í úlpuvasanum, sem veitir mér notalega öryggiskennd. Ég er farin að tengja sterkt við óeirðalöggur, sem sækja sér öryggi í vitneskjuna um piparúðann í beltinu. Það er kaldur gustur í göngunum og ég er fegin því að vera með þykka, beige-litaða hringtrefilinn minn um hálsinn.
Vetrarfölvi og svefnleysi
Það eru mun færri en venjulega í lestinni, enda hefur töluvert verið rætt um að veiran lifi í marga sólarhringa á hörðu yfirborði eins og handriðum og gleri. Ég er meðvituð um að koma ekki við neitt þegar ég stíg inn í lestina, þar sem fyrir eru maður um sextugt með lítinn hund, ungt par í samstæðum úlpum sem talar saman í lágum hljóðum, móðir með barn í kerru, unglingsdrengur sem talar í símann og kasólétt kona með höfuðslæðu, sem horfir íhugul út um gluggann. Þótt ég sé við hestaheilsu er vetrarfölvinn í hámarki eftir marga sólarlausa mánuði og verandi tvíburamamma hef ég sofið slitrótt í háa herrans tíð, sem sést á dökkum baugum undir augunum. Flensulegri einstaklingur er vandfundinn, svo ég legg mig fram um að senda hresst og sannfærandi bros til förunauta minna í lestinni.
Ég tek sopa af kaffinu í þann mund sem lestin leggur af stað með rykk, sem veldur því að mér svelgist á. Ósjálfrátt byrja ég að hósta til að ná þessum villuráfandi vökva upp úr lungunum á mér, en man samstundis eftir því að á Covid-19 tímum er hósti í lokuðu almannarými ekki vænlegur til vinsælda, auk þess sem ég gæti verið einkennalaus smitberi, svo ég reyni mitt besta til að stramma mig af. Allir sem hafa einhvern tíma fengið hóstakast í jarðarför vita að það er auðveldara að hneppa buxnaklaufinni sinni í boxhönskum en að halda aftur af hósta. Engu að síður reyni ég að rökræða við óstjórnlega kláðann í brjóstkassanum, sem er jafn árangursríkt og að reyna að hnerra með opin augu. Tárin eru farin að streyma niður vanga mína því kláðinn er orðinn óbærilegur og innra með mér er rödd sem öskrar SVONA HLÝTUR ÞAÐ AÐ VERA AÐ FÁ FLATLÚS Í HÁLSINN. Parið í samstæðu úlpunum gjóir augunum á mig og ég sendi þeim annað, örlítið minna sannfærandi bros í gegnum tárin og titrandi munnvikin.
Ógn við þjóðaröryggi
Munnvatnskirtlarnir grípa til þess ráðs að offramleiða munnvatn í von um að stríði straumurinn muni lina ertinguna í öndunarveginum, sem veldur því að ég neyðist til að kyngja í sífellu eins og ég sé að svolgra í mig ósýnilegan bjórkút. Með hverri kyngingu slæðist gúlpur af lofti, svo innan skamms er ég farin að ropa eins og tárvotur sigurvegari í pulsuátskeppni. Hundurinn er farinn að taka ropunum persónulega og hvessir á mig augun með lágværu urri. Nú er munnvatnssöfnunin orðin slík að ég finn hvernig það þrýstist út í munnvikin og ég gríp um munninn á mér. Móðirin með smábarnakerruna lítur áhyggjulaus upp frá símanum og krossbregður við að sjá hágrátandi, slefandi, skælbrosandi konu sem ropar í lófann á sér eins og hún eigi lífið að leysa. Hún snýr við og rúllar kerrunni laumulega eins langt frá mér og hún mögulega kemst, en barnið snýr sig næstum úr hálsliðnum við að horfa. Mér líður eins og einhver hafi blásið heilli biðukollu beint ofan í lungnablöðrurnar á mér og er hætt að geta andað almennilega. Til viðbótar við tárin, slefið og ropana er ég núna farin að anda með undarlegu hvæsi, sem fær hundinn til að missa þolinmæðina og gelta á mig með látum. Allir í lestinni snúa sér að mér og ég reyni að brosa enn breiðar til að koma í veg fyrir að vera skriðtækluð og sett í bráðasóttkví sem ógn við þjóðaröryggi, en finn hvernig æðarnar eru farnar að tútna út á sveittu enni mínu og afleiðingarnar eru þær að unglingsstrákurinn byrjar að taka vídeó af mér með símanum sínum, heillaður af niðurbrotinu sem er að eiga sér stað fyrir augum hans. Ólétta konan ber þess merki að vera orðin bílveik af líkamshljóðunum og vessunum sem ég er fullkomlega búin að missa stjórn á. Í stað þess að hníga niður í fósturstellingu gríp ég í næstu sætaröð og halla mér yfir hana. Við það sígur hringtrefillinn fram og umlykur höfuðið á mér eins og beige-lituð forhúð á æðaberum, rauðþrútnum lim. Háleitar fyrirætlanir mínar um að snerta ekkert verða að engu þegar ég græt, slefa og hvæsi eins og reiður fressköttur ofan í sætisáklæðið. Unga parið horfir á mig skelfingaraugum og heldur þéttingsfast um hvort annað, ég gæti trúað því að ólétta konan sé búin að missa legvatnið, hundurinn er orðinn hás af gelti og eigandi hans lítur út fyrir að vilja lóga mér í þágu almannahagsmuna.
Dó úr meðvirkni
Fyrir hugskotssjónum mínum birtist grafskriftin: DÓ ÚR MEÐVIRKNI Í NEÐANJARÐARLEST. Með erfiðismunum tekst mér að fiska handsprittið úr vasanum og gluða því í ríkulegum mæli yfir lífsýnahlaðborðið sem ég er búin skilja eftir mig í sætinu. Útundan mér sé ég glitta í ljós við endann á lestargöngunum, en í þann mund sem sálin ætlar að yfirgefa jarðneskar leifar mínar fyllist ég þeirri vissu að tími minn sé ekki kominn.
„Á ég að hringja í einhvern fyrir þig?“
Sú vonarglæta gefur mér kraftinn til að staulast út á brautarpallinn þegar lestin staðnæmist. Ég skreiðist út í horn þar sem ég hósta í hringtrefilinn þangað til ég gubba smávegis í hann. Svo hósta ég aðeins meira og dreg að lokum fyrsta langþráða, kaffilausa andardráttinn. Ég fyllist óstjórnlegum létti yfir því að örlög mín hafi ekki verið þau að kafna úr kurteisi í almenningssamgöngum. Skyndilega heyri ég einhvern spyrja: „Er allt í lagi með þig?“ Í öruggri fjarlægð stendur kona með samúðarfullan spurnarsvip. „Vantar þig hjálp? Á ég að hringja í einhvern fyrir þig?“
Af þessari sögu má læra þrennt: 1) Að hósta er líkamleg þörf sem fólk þarf að sinna af ólíkum ástæðum og mun halda því áfram þrátt fyrir Covid-19. Ef þú þarft að hósta, haltu fyrir munninn eða hóstaðu í olnbogabótina. Heimurinn mun ekki farast.
2) Þegar neyðin kallar getur þú annaðhvort brugðist við með því að taka vídeó af nauðstöddum samborgara þínum, eða boðið fram hjálp þína. Verum í síðarnefnda hópnum.
3) Það er ekki hægt að fá flatlús í hálsinn. Guði sé lof.
Athugasemdir