Formenn stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi fengu engar upplýsingar um „risapakka“ ríkisstjórnarinnar sem boðaður hefur verið í fjölmiðlum þegar formenn allra flokka funduðu um stöðu mála vegna Cocid-19 og framhald þingstarfa í dag.
Kjarninn og Mannlíf greindu frá því nú um eftirmiðdaginn að íslensk stjórnvöld ynnu að „risapakka til að bjarga íslensku atvinnulífi“ sem kynntur yrði síðar í vikunni. Samkvæmt upplýsingum Stundarinnar kom þetta fulltrúum stjórnarandstöðuflokka á óvart, enda hafði ekki verið sagt frá því á fundinum að von væri á stórtækum aðgerðum á næstu dögum.
Hefur ríkisstjórnin sætt nokkurri gagnrýni undanfarna sólarhringa fyrir að hafa enn sem komið er gengið miklu skemur en nágrannaríki á borð við Noreg og Danmörku í glímunni við efnahagslegar afleiðingar Covid-19 faraldursins:
„Það væri auðvitað óskandi að ríkisstjórnin hefði betra samráð við okkur í stjórnarandstöðunni,“ segir Halldóra Mogensen, þingkona Pírata, í samtali við Stundina. „Upplýsti okkur áður en farið er með það í fjölmiðla hvað þau hyggjast gera. Ég hefði haldið að það væri lykillinn að góðu samstarfi.“
Athugasemdir