Hagfræðingar eru ekki á einu máli um það hvað veldur verðbólgu. Reyndar eru þeir ekki einu sinni allir sammála um hvernig sé best að mæla hana! Þegar kemur að verðbólguorsökum einblínir einn hópur fræðimanna á ríkisfjármál, annar hópur á framkvæmd peningastefnu seðlabanka og sá þriðji horfir til utanríkisviðskipta og gjaldeyrismála. Það sem flestir eru þó sammála um er að hófleg verðbólga sé eftirsóknarverð, mikil verðbólga skaðleg og verðlagsstöðugleiki af hinu góða.
Í gegnum tíðina höfum við keppst við að halda verðlagi stöðugu án árangurs. Lítið opið hagkerfi með fjölbreyttan innflutning og einhæfan útflutning er sérstaklega berskjaldað fyrir ytri þáttum eða forsendubrestum útflutningssgeira. Nú blasir við kreppa og verðbólguhræðsla á það til að draga tennurnar úr viðbrögðum bæði seðlabanka og ríkisstjórna.
Annars vegar er látið að því liggja að í framkvæmd peningastefnu seðlabankans séu prentaðir peningar sem hljóti að hækka verðlag. Í öðru lagi er fjárlagahalli sagður stuðla að verðbólgu.
Framkvæmd peningastefnunnar
Seðlabankinn lækkaði vexti og stefnir á að auka svigrúm banka til að auka útlán. Einfaldað líkan af þessum aðgerðum sem er því miður enn notast við í kennslu felur í sér „peningaprentun“ þar sem grunnfé er dælt úr seðlabanka sem bankarnir lána út í gegnum innlánakerfið þaðan sem það margfaldast með dularfullum hætti eftir því sem það færist á milli handa í hagkerfinu. Þetta líkan er rangt og engan vegin réttmæt einföldun á því sem á sér stað í raunveruleikanum.
Bankar eru í dag fyrst og fremst bundnir af hlutfalli eigin fjár af útlánum — hlutfalli sem er ennþá allt að tvöfalt hærra en það var fyrir hrun. Þetta þýðir að bankar þurfa aukið eigið fé áður en þeir geta efnt til aukinna útlána, þ.e.a.s. nema eiginfjárhlutfallskröfum sé létt. Með digran „buffer“ af eigin fé er hægt að taka á sig meiri afskriftir og því líklegra að bankinn standist áföll.
Með því að seðlabankinn losi beltið um eitt gat og bæti kjör lántaka með vaxtalækkunum vantar þó einn þátt enn til að útlán aukist; það að bankar treysti því að lántakar standist afborganir. Þar eiga seðlabankar erfiðara með að hafa bein áhrif, heldur veltur það á rekstrarskilyrðum fyrirtækja og heimila. En hefur þetta ferli, þegar það gengur upp, áhrif á verðlag?
Margir hugsa enn um verðlag í samhengi við peningamagn í umferð. Í lokuðu hagkerfi með fimm epli og tíu krónur hlýtur verð á eplum að ná jafnvægi í tveimur krónum — a.m.k. samkvæmt einhverri hagfræðikenningunni. Með þessari einföldun hafa hagfræðingar fært rök fyrir því að útlán séu verðbólguhvetjandi.
Ef allar ofangreindar forsendur eru fyrir hendi og banki bætir við útlán eykst peningamagn í umferð. En í kreppu endar það á að viðhalda eftirspurn og framboði fremur en auka það, þ.e.a.s komið er í veg fyrir verðhjöðnun. Í uppsveiflum er aftur á móti margreyntað síaukning á framboði húsnæðislána kemur til hækkunar á húsnæðisliði verðlags, svo dæmi sé tekið. Í niðursveiflu þarf öll tiltæk ráð til að vinna á móti verðhjöðnun sem kemur í kjölfar minni ráðstöfunartekna heimila og samdráttar.
Niðurstaða:
Myndlíkingin um prentun peninga á sér ekki neina hliðstæðu í raunveruleikanum.
Aðgerðum seðlabankans í dag er ætlað að stemma stigu við verðhjöðnun og hvetja banka til að bjarga því sem bjargað verður.
Það er gert með útlánaaukningu til skamms tíma ef bankar eru reiðubúnir til að nýta svigrúmið sem þeim er veitt.
Nýtt fjármagn sem myndast greiðist niður að lokum og brýtur engar bókhaldsreglur.
Fjárlagahalli
Ríkisstjórnin undirbýr það sem vænta má að verði nokkurra ára fjárlagahalli. Enn er unnið að aðgerðapakka og sjálfvirkir sveiflujafnarar á borð við atvinnuleysisbætur gætu hrannast upp meðfram rýrnandi skattstofni.
Samkvæmt úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 2003 er marktæk fylgni á milli halla ríkissjóða og verðbólgu. Þegar þróuð hagkerfi með lága verðbólgu eru hinsvegar skoðuð sérstaklega þá er þetta samband mun veikara. Japan og Bandaríkin eru tvö dæmi. Hvort landið um sig er með gríðarlega miklar og vaxandi ríkisskuldir miðað viðf önnur lönd og bæði berjast þau við að hækka verðlag með lágvaxtastefnu (AGS, 2003).
Margt bendir til þess að Ísland hafi færst úr fyrrnefndum áhættuhóp og þurfi ekki að varast spíral ríkisskulda og verðbólgu lengur. Hvað hefur breyst?
Fyrst og fremst hefur markaður fyrir ríkisskuldabréf dýpkað. Lífeyrissjóðirnir mynda gríðarlega eftirspurn í örugga ávöxtun í krónum. Þótt lífeyrissjóðir hafi sótt á erlenda markaði undanfarin ár þá eykur það áhættu og vaxtastig er lægra. Þegar talað er um að ríkissjóðir „prenti peninga“ gleymist oft að samsvarandi skuldabréfaútgáfa bindur peninga í fjárfestingar. Í dag ratar mikið af sparnaðarþörf lífeyrissjóða á húsnæðismarkaðinn þar sem það er líklegt til að hækka íbúðaverð.
Þegar kemur að verðlagsáhrifum aðgerða hins opinbera þá er fyrst og fremst verið að brúa bil atvinnulífs og heimili til skamms tíma. Ýmsar fjárfestingar geta líka skilað þjóðhagslegum bata og hækkað þjóðarframleiðslu til langs tíma, sérstaklega þegar vextir eru lægri en vöxtur þjóðarframleiðslu. Rétt eins og í tilfelli aðgerða Seðlabankans þá er ætlunin að koma í veg fyrir verðhjöðnun. Sé þessum tækjum beitt óhóflega í uppsveiflu má vænta verðbólgu en það hefur alls ekki verið gert á síðustu árum.
Það skiptir máli hvort ríkið sé að auka samkeppni um takmarkaða framleiðsluþætti eða taka við þeim þegar þeir losna. Í fyrra tilfellinu þarf einkageiri að keppa við ríkið sem leiðir til verðhækkunar t.a.m. á sérmenntuðum vinnuafla eða um takmarkaðar auðlindir. Í seinna tilfellinu gætir ekki sömu verðlagsáhrifa ef ríkið lætur þessa framleiðsluþætti af hendi þegar einkageiri er aftur tilbúinn til að taka við keflinu. Stjórnmálin mega gjarnan vera meðvituð um þessi áhrif og velja frekar aðgerðir sem eru til þess fallnar að verja verðlagsstöðugleika.
Niðurstaða:
Skyldusparnaður lífeyris og aldursdreifing þjóðarinnar býr til mikla eftirspurn eftir ríkisskuldabréfum. Ríkisskuldir eru sögulega mjög lágar.
Það er óhætt að auka verulega á halla í því skyni að brúa rekstur og mæta heimilum með rausnarlegum stuðningi án þess að verðlagi sé ógnað.
Hættan á verðhjöðnun er veruleg ef ríkið grípur ekki til viðeigandi ráðstafana.
Verðbólgudraugurinn er í eignabólum og misræmi útflutnings og innflutnings
Það eru margir þættir sem geta leitt til óstöðugs verðlags. Margt bendir til þess að framboð á fjármagni og skuldsetning einkageira hækki verð húsnæðis og verðbréfa. Í tilfelli húsnæðis þá hafa bankar aukið gríðarlega við hlut húsnæðis í útlánum sínum á undanförnum 40 árum, langt umfram raunverulegt virði húsnæðis, eins og dæmin hafa sýnt. Í kjölfar efnahagskreppunnar 2008 þegar húsnæðisbólan sprakk í Bandaríkjunum tók við önnur bóla á eignamarkaði sem rekja má til magnbundinnar íhlutunar seðlabanka um allan heim. Trump gaf svo lítið eftir og bætir í með skattalækkunum sem eignastéttir högnuðust á.
Þegar kemur að niðursveiflu er alltaf hætt við að svona eignabólur springi með hvelli. Verðlagsstöðugleikinn fæst ekki nema stemma stigu við þenslu eignaverðs á góðærisárunum. Það er hlutverk stjórnmálamanna og þeirra sem stýra peningamálum.
Að þessu sögðu þá ber að nefna einn þátt verðbólgu að lokum. Hann hefur að gera með breytingar á viðskiptajöfnuði sem rekja má annars vegar til röskunar á stoðum útflutnings eða heimsmarkaðsverðs framleiðsluþátta sem við erum háð, þá sérstaklega olíu sem er ennþá allt að 15% okkar innflutnings.
Ef ferðamannageirinn tekur aftur við sér í lok kreppunnar, stjórnvöldum hefur tekist að halda fyrirtækjum á lífi og ferðamenn sýna landinu sama áhuga og áður má vel færa rök fyrir því að varanlegt högg á digran gjaldeyrisvaraforða landsins sé þess virði til að tryggja verðlagsstöðugleika í gegnum snarpa niðursveiflu.
Aftur a móti, ef ferðamönnum fækkar til lengri tíma gæti þurft aðlögun í gegnum gengi krónunnar. Seðlabankanum er falið það hlutverk að vega það og meta hvar jafnvægisgengið er hverju sinni. Ef útflutningur dregst saman til langs tíma verður kaupmáttur að víkja fyrir raunveruleikanum.
Athugasemdir