„Veiran er orðin sjálfsagður hluti af leik barna í leikskólanum hjá mér.“ Þetta skrifaði Guðrún Alda Harðardóttir, doktor í leikskólafræðum sem starfar á leikskólanum Aðalþingi í Kópavogi, til Kristínar Dýrfjörð leikskólakennara 5. febrúar síðastliðinn. Á þeim tíma voru daglegar fréttir frá hörmungum í Kína. „En kannski áttum við ekki von á að kórónaveiran bærist svona fljótt til Íslands og yrði hluti af daglegu lífi og ógn barna.“
Nú um stundir stendur heimsbyggðin öll frammi fyrir sínu stærsta áfalli sennilega frá síðari heimsstyrjöldinni, nokkuð sem fræðafólk nefnir fjöláfall (mass trauma). Á hverjum degi berast fréttir af veikindum og mannfalli um gjörvallan heim. Þann 13. mars kom Boris Johnson, forsætisráherra Breta í fjölmiðla og sagði að við stæðum öll frammi fyrir því að missa einhvern nákominn á næstunni vegna COVID-19. Síðasta hálfan mánuð hafa fulltrúar almannavarna mætt daglega inn á hvert einasta heimili og vinnustað í formi blaðamannafunda og farið yfir stöðuna, kynnt próf og niðurstöður. Þeir hafa verið alvaran uppmáluð og með upplýsingar sem við öll fullorðna fólkið höfum verið slegin yfir.
Börn leika það sem þau eru að takast á við í lífi sínu, bæði heima og í leikskólum og fræðin segja að það sé þeim lífsnauðynlegt að fá til þess tækifæri. Börnin þurfa að fá öruggan stað til að leika og takast á við hræðslu og ógnanir sem þau standa frammi fyrir. Það er vegna þess að leikurinn er verkfæri barnsins til að skilja og vinna úr upplýsingum um sjálft sig og umhverfi sitt, úr fjöláföllum eins og heimsbyggðin stendur frammi fyrir núna.
Áhrif áfalla á börn
Eins og fram kom hér í upphafi fylgjast börn vel með umhverfi sínu og þau skynja sterkt það sem skiptir fullorðna máli, jafnvel það sem fullorðnir telja þeim falið. Börnin ræða ekki alltaf upplifun sína en hún birtist gjarnan í leik þeirra og atferli. Þeir sem fylgjast með, sjá að þau eru að brjóta með sér hugmyndir, hafa áhyggjur og velta vöngum. Börnin fyllast kvíða og jafnvel hræðslu. Dyregrov og félagar (2015) hafa bent á að það sé allt of algengt að ekki sé rætt við börn um það sem er efst á baugi í samfélaginu á hverjum tíma, líkt og að börn heyri hvorki né ígrundi það sem þau skynja. Það, að ekki sé rætt við börn, gerir þeim erfiðara fyrir en ella að vinna úr öllu því sem þau upplifa. Dyregrov og félagar benda jafnframt á að fullorðnir verða að gefa sér tíma til að hlusta á vangaveltur og áhyggjur barna sem geta birst á mismunandi hátt. Og þeir þurfa að átta sig á það er einstakt hvernig hvert barn upplifir áfall og áhyggjur sem getur verið áskorun fyrir hina fullorðnu.
Það að missa náinn ættingja, eins og margir standa mögulega frammi fyrir vegna veirunnar, er talið geta haft lífsálfélagsleg áhrif á börn - en með því er átt við áhrif sem byggja á samverkan milli líffræðilegra, sálrænna og félagslegra þátta, bæði til lengri og skemmri tíma. Slíkt getur birst, allt frá hegðunarvanda, kvíða og þunglyndi til áfallastreituröskunar hjá börnum. Allt eru þetta þættir sem kalla á fjölbreyttar nálganir og aðferðir til að hjálpa börnum að komast yfir og vinna úr. Þar gegnir leikskólinn stóru hlutverki.
„Það, að ekki sé rætt við börn, gerir þeim erfiðara fyrir en ella að vinna úr öllu því sem þau upplifa“
Það má benda á að á tímum þegar samfélög standa frammi fyrir fjöláföllum skiptir máli að halda ró sinni og að börnin upplifi sem minnst rask í sínu daglega lífi. Þá er mikilvægt að halda í rútínur og að leikskóladagurinn sé sem líkastur því sem börnin þekkja. Fræðafólk hefur ennfremur bent á mikilvægi þess að fullorðnir láti ekki bugast vegna þess hversu aðstæður barna sem hafa orðið fyrir áfalli eru flóknar, heldur skipuleggi þeir hugsun sína og aðgerðir (Perry og félagar, 1995).
Leikskólafólk þarf að standa saman
Á tímum COVID-19 þarf leikskólafólk að standa saman og huga að andlegu heilbrigði og vellíðan barna sem aldrei fyrr. Hér setjum við fram mögulegar leiðir og hugleiðingar um leikskólastarfið á þessum fordæmalausu tímum. Við gerum það í ljósi þeirra fræða sem hér hefur verið fjallað um. Við teljum þetta geta verið innlegg í umræðu sem hlýtur að eiga sér stað í leikskólum landsins, í dag og næstu vikur. Það er að segja ef halda á leikskólum landsins opnum fyrir sem flest börn, en forgangsraða ekki börnum þeirra sem eru í framlínu.
En þessari grein er fyrst og fremst ætlað að vera innlegg í umræðuna um hvernig hægt er að gera leikskólabörnum lífið sem bærilegast og draga úr mögulegum áföllum. Að minna á að þrátt fyrir allt þarf lífið að halda áfram sinn vanagang.
Athugasemdir