Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 5 árum.

Útfararstjóri hvetur til að allar útfarir fari fram í kyrrþey

Rún­ar Geir­munds­son, formað­ur Fé­lags ís­lenskra út­far­ar­stjóra, tel­ur að best sé að út­för­um sé flýtt sem kost­ur sé, að þær fari fram í kyrr­þey en kveðju­at­hafn­ir fari fram þeg­ar Covid-19 far­ald­ur­inn verði geng­inn yf­ir.

Útfararstjóri hvetur til að allar útfarir fari fram í kyrrþey
Mælist til að útförum sé flýtt Rúnar segir að aðstandendur hafi áhyggjur af því að smit komi upp í útförum.

Jarðarförum hefur verið frestað vegna þess að aðstandendur hinna látnu hafa verið fastir í sóttkví vegna Covid-19 faraldursins. Aðstandendur sem hafa rætt við útfararstjóra lýsa áhyggjum af því að í jarðarförum sé hætta á smiti. Verði sett á samkomubann mun það valda vandræðum og hætta er á að líkhús fyllist ef ekki verður brugðist við. Rúnar Geirmundsson útfararstjóri hvetur til þess að útfarir fari allar fram svo fljótt sem verða má, í kyrrþey, til að koma í veg fyrir að slíkar aðstæður skapist. Minningar- og kveðjuathafnir verði haldnar síðar.

Rúnar segir að til vandræða horfi, ef sett verður á samkomubann og fólk vilji draga að halda jarðarfarir.  Ekki sé pláss í líkhúsum bæjarins til að geyma þar lík í langan tíma. „Við höfum af þessu nokkrar áhyggjur. Það sem við höfum gert er að flýta athöfnum, að þær fari fram í kyrrþey og bálför fari fram eftir mjög stutta athöfn við kistulagningu. Útförinni sjálfri, á duftkerinu, er þá frestað og mun fara fram síðar. Fólk er bara farið að hafa áhyggjur af því að stefna saman fullt af fólki í útfarir og erfidrykkjur. Þetta hefur verið gert í nokkru mæli og við höfum reynt að ýta frekar undir þetta en hitt, við útfararstjórarnir. Aðstandendur hafa tekið þessum hugmyndum okkar vel því flestir sem við höfum veitt þjónustu hafa talað við okkur útfararstjórana um áhyggjur sínar af því að hugsanlega muni smit eiga sér stað við útförina. Að einhver sem er sýktur muni þá kannski smita allt fullorðna fólkið sem svo oft er stór hluti þeirra sem koma að jarðarförum.“

Má ekki mikið útaf bera

En ekki allir vilja að ættingjar þeirra séu brenndir og sömuleiðis eru ekki allir tilbúnir til að halda útfarir í kyrrþey.  Rúnar segir að ekki séu nein tök á því að geyma lík um langa hríð verði sett á samkomubann. „Ef af því verður þá erum við í verulegum vandræðum því það er ekki pláss, hvorki í líkhúsum bæjarins né annars staðar. Það er bara ekki hægt. Það var mjög mikið um andlát í janúarmánuði, þegar vond veður geisuðu, og þá urðum við að hætta við greftranir. Það var bara ekki hægt að taka grafir sökum veðurs. Þá lentum við í vandræðum strax. Það þarf ekki mikið út af að bera til að við lendum í vandræðum með þetta.“

„Það hefur verið rætt að koma upp kæligámi við Fossvogskapellu“

Rúnar segir að rætt hafi verið að koma upp kæligámum til að hægt sé að geyma lík lengur. „Það hefur verið rætt að koma upp kæligámi við Fossvogskapellu ef að af einhverjum ástæðum verður ekki hægt að koma bálförum við strax, svo að líkhús fyllist ekki af óbrenndum kistum.“

Aðeins ein líkbrennsla er starfrækt á Íslandi. Hún er í Fossvogi og í henni eru tveir brennsluofnar sem komnir eru til ára sinna en brennslan er síðan 1948. Um sextíu prósent útfara á höfuðborgarsvæðinu eru bálfarir og eru allt að eitt þúsund bálfarir á ári. Rúnar segir að ofnarnir anni ekki miklu meiru en svo, en ef að þörf krefji sé hægt að bregðast við. „Það væri hægt að fá færanlega bálstofu, í gám. Herir hafa notað slíkar bálstofur þar sem þörf hefur krafist. Við erum ekki að velta þessu fyrir okkur vegna dauðsfalla af völdum veirunnar, heldur ef bálförum fer fjölgandi almennt.

Hafa áhyggjur af öðrum en sjálfum sér

Rúnar segir að útfararstjórar hafi ekki áhyggjur af því að þeir eða starfsmenn þeirra muni veikjast eða að þeir geti ekki sinnt sínum störfum. „Það sem við höfum áhyggjur af eru allir aðrir starfsmenn. Starfsmenn heilbrigðisþjónustu og starfsmenn kirkna, prestar, kórfólk og svo framvegis. Ef mikill fjöldi þeirra mun veikjast þá getum við tæplega haldið jarðarfarir.“

Rúnar segir að hann mælist til þess almennt við þessar aðstæður sem nú eru uppi að útförum verði flýtt sem kostur er, þær fari fram í kyrrþey en síðar, þegar betur árar, fari fram kveðjuathafnir og minningarstundir um þá látnu. „Ég held að það væri það gáfulegasta í stöðunni.“

 

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Covid-19

Mest lesið

Guðfaðir plokksins: „Þú brennir meira með því að plokka en skokka“
6
Fréttir

Guð­fað­ir plokks­ins: „Þú brenn­ir meira með því að plokka en skokka“

„Þetta er ekki rusl­ið þitt en þetta er plán­et­an okk­ar,“ seg­ir Erik Ahlström, guð­fað­ir plokks­ins. Ekki bara felst heilsu­bót í plokk­inu held­ur seg­ir Erik það líka gott fyr­ir um­hverf­ið og kom­andi kyn­slóð­ir. Hann tel­ur mik­il­vægt fyr­ir sjáv­ar­þjóð eins og Ís­land að koma í veg fyr­ir að rusl fari í sjó­inn en 85 pró­sent þess kem­ur frá landi. Blaða­mað­ur Heim­ild­ar­inn­ar fylgdi Erik út að plokka.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

„Ég er mjög stolt af því að hafa tekið þennan slag“
5
Fréttir

„Ég er mjög stolt af því að hafa tek­ið þenn­an slag“

Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu komst í dag að þeirri nið­ur­stöðu að ís­lenska rík­ið hefði ekki brot­ið á Bryn­dísi Ásmunds­dótt­ur. Hún seg­ir skrít­ið að tala um tap þeg­ar Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu veitti henni áheyrn. Nú geti hún loks náð and­an­um. Mark­mið­um um að vekja máls á brota­löm­um í ís­lensku rétt­ar­kerfi hafi náðst, ekki síst þeg­ar sig­ur vannst í öðru mál­inu.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár