Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, segir 226.000 króna styrk Reykjavíkurborgar til Báru Halldórsdóttur, uppljóstrara í Klaustursmálinu svokallaða, vegna málþingsins „Klausturgate – ári síðar“, vera hápólitíska og herfilega misnotkun á almannafé.
Í nóvember 2018 upplýsti Bára um samtal sex þingmanna, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, Gunnars Braga Sveinssonar, Bergþórs Ólasonar, Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, Karls Gauta Hjaltasonar og Ólafs Ísleifssonar, sem öll eru nú í Miðflokknum. Fóru þingmennirnir grófum orðum um konur, samkynhneigða og fatlaða og ræddu hrossakaup í tengslum við veitingu á stöðu sendiherra.
Á fundi borgarráðs í gær voru samþykktir styrkir frá Reykjavíkurborg til fjölda málefna, verkefna og viðburða. Vigdís sagði á fundinum að styrkveitingar Reykjavíkurborgar væru mjög ógagnsæjar. Nefndi hún sérstaklega styrk til Báru í nóvember 2019 vegna málþingsins „Klausturgate – ári síðar“, þar sem framganga flokkssystkina hennar í Miðflokknum var til umfjöllunar. „Var þar um gríðarlega pólitíska ákvörðun að ræða á kostnað skattgreiðenda sem er ráðinu algjörlega til skammar,“ sagði hún í bókun á fundinum. „Þetta dæmi sannar að styrktarfé er notað í þeim tilgangi að ná höggi á pólitíska andstæðinga.“
„Hér er auglýst eftir aðila sem vill sækja um styrk til að halda ráðstefnu um káfkarlana á vinstri væng stjórnmálanna“
Sagði hún úthlutunina herfilega misnotkun á almannafé. „Hér er upplýst að 226.000 kr. af útsvarsgreiðslum Reykvíkinga fóru í hápólitískan styrk. Er það hlutverk Reykjavíkur að fara svona með opinbert fé á meðan ekki er hægt að sinna grunnþjónustu á ýmsum sviðum borgarinnar. Hér er auglýst eftir aðila sem vill sækja um styrk til að halda ráðstefnu um káfkarlana á vinstri væng stjórnmálanna og verður spennandi að sjá hvort verkefnið fái sama greiða aðganginn að útsvarstekjum borgarinnar í gegnum skyndistyrki mannréttindaráðs.“
„Það að kjörnir fulltrúar [...] vegi ómaklega að minnihlutahópum í samfélaginu með smekklausum athugasemdum hlýtur að teljast alvarlegur atburður“
Meirihlutinn í borgarráði benti á að nú væri að störfum starfshópur um aukið gagnsæi styrkjaúthlutana Reykjavíkurborgar. „Skyndistyrkir hafa verið veittir á vegum mannréttindaráðs og nú mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs til þess að styðja við frumkvæði grasrótarsamtaka sem vinna að málaflokki fagráðsins, sér í lagi til að koma til móts við viljann til að skipuleggja viðburði sem koma upp vegna atburða og aðstæðna í samfélaginu sem erfitt er að sjá fyrir,“ segir í bókun meirihlutans. „Dæmi um slíka atburði eru myllumerkisbyltingarnar #MeToo, #FreeTheNipple og nú #Klausturgate. Það að kjörnir fulltrúar á Alþingi Íslendinga sem fara með löggjafarvald vegi ómaklega að minnihlutahópum í samfélaginu með smekklausum athugasemdum hlýtur að teljast alvarlegur atburður sem hefur sig yfir almenna flokkspólitík sem almenningur og fulltrúar þvert á flokka geti sameinast um að standa gegn.“
Athugasemdir