Kröfur Eflingar gagnvart Reykjavíkurborg njóta víðtæks stuðnings sé miðað við skoðanakönnun Maskínu. Tæplega 60 prósent aðspurðra lýstu yfir fullum eða miklum stuðningi við stéttarfélagið. Þá njóta verkfallsaðgerðir Eflingar einnig stuðnings yfir helmings aðspurðra.
Efling fékk rannsóknafyrirtækið Maskínu til að kanna stuðning við aðgerðir félagsins í borginni og fór könnunin fram dagana 14. til 21. febrúar. Svarendur voru 871, af öllu landinu. Ótímabundið verkfall Eflingar hófst 17. febrúar en áður höfðu tímabundin verkföll verið vikurnar á undan.
Spurt var um stuðning við Eflingu í launadeilu stéttarfélagsins við Reykjavíkurborg og kom í ljós að 59 prósent þeirra sem svöruðu sögðust styðja kröfurnar að öllu eða miklu leyti. Fimmtungur svarenda sagðist vera styðja kröfurnar í meðallagi en 21 prósent studdi kröfur Eflingar að litlu eða engu leyti.
Þá var einnig spurt um stuðning við verkfallsaðgerðir Eflingar og svöruðu 56 prósent svarenda því til að þeir væru þeim mjög eða fremur hlynntir. 19 prósent sögðust vera í meðallagi hlynntir verkfallsaðgerðunum en fjórðungur svarenda var fremur eða mjög andvígur verkfallsaðgerðunum.
Athugasemdir