Þjóðverjar óttast frekari hryðjuverkaárásir hægri öfgamanna og nýnasista í kjölfar mannskæðra árása í borginni Hanau á miðvikudagskvöld. Innanríkisráðherra Þýskalands, Horst Seehofer, hefur heitið því að auka sýnilega löggæslu við viðkvæmar stofnanir í landinu. Þá verður fylgst sérstaklega með moskum og synagógum, samkomuhúsum múslima og gyðinga, sem eru talin ein helstu skotmörk hægri öfgamanna. Níu manns voru skotin til bana og enn fleiri særð í tveimur skotárásum á vatnspípustaði í Hanau á miðvikudagskvöld. Öll fórnarlömbin voru innflytjendur eða af innflytjendaættum þó sum hver hafi verið með þýskan ríkisborgararétt. Hinn 43. ára gamli Tobias R. liggur undir grun, en hann fannst látinn á heimili sínu nokkrum klukkustundum eftir atvikið. Talið er að hann hafi myrt aldraða móður sína á ður en hann tók eigið líf, en lík hennar fannst einnig á heimilinu.
Maðurinn skildi eftir sig bréf og myndband þar sem hann lýsti yfir ábyrgð á árásinni. Hann mun hafa dreift hatursáróðri gegn innflytjendum og ýmsum samsæriskenningum á internetinu mánuðina á undan. Rannsókn málsins beinist meðal annars að því hvort hann hafi verið í sambandi við aðra hægri öfgamenn. Peter Beuth, innanríkisráðherra sambandsríkisins Hesse, hefur gefið það út að hann hafi ekki verið undir eftirliti yfirvalda. Þúsundir komu saman í Hanau í gær, fimmtudag, til þess að minnast fórnarlamba árásanna. Þá voru einnig fjölmennar minningarathafnir í Frankfurt og við Brandenburgar-hliðið í Berlín. Frank-Walter Steinmeier, forseti landsins, flutti ræðu þar sem hann sagði íbúa Þýskalands margsinnis hafa sýnt að þeir vildu lifa saman í sátt og samlyndi. Þetta samkomulag íbúanna væri einmitt sterkasta vopnið í baráttunni gegn vaxandi hatri. „Út með nasistana,“ hrópuðu sumir fundargestanna.
Athugasemdir