Starfandi forstjóri Samherja, Björgólfur Jóhannsson, gerir ráð fyrir því að Þorsteinn Már Baldvinsson snúi aftur í stól forstjóra eftir að rannsókn norskrar lögmannsstofu á Samherja lýkur í lok næsta mánaðar eða byrjun apríl.
Þetta kemur fram í samtali Björgólfs við Ríkisútvarpið.
Samherji réði norsku lögmannsstofuna Wikborg Rein til þess að rannasaka starfsemi sína tengda stórfelldum greiðslum félagsins til embættis- og stjórnmálamanna í Namibíu á liðnum árum, sem Stundin, Kveikur og Al Jazeera greindu frá í nóvember og desember í fyrra.
Spurður af fréttastofu RÚV hvort hann muni hætta störfum segist Björgólfur ekki vera framtíðarforstjóri félagsins, en að stjórn þess þurfi að svara hvort Þorsteinn Már snúi aftur.
„En ég myndi reikna með því já,“ segir Björgólfur við RÚV.
Björgólfur vék sæti sem stjórnarformaður Íslandsstofu eftir að hann tók við stöðu forstjóra Samherja. Hann vék einnig úr stjórn tryggingarfélagsins Sjóvár, en hefur verið tilnefndur í stjórnina á ný.
Athugasemdir