Undanfarnar vikur hefur verið rætt nokkuð um gildi þess að meta menntun til launa. Umræðan skapaðist í kringum kjaradeilu Reykjavíkurborgar og Eflingar þar sem í aðra röndina hefur verið varað við miklum hækkunum lægstu launa enda dragi það úr námshvata ef munurinn á launum menntaðra og ómenntaðra verður of lítill en í hina röndina hafa ýmsir hafnað því að menntun skili sjálfkrafa kjarabótum.
Hvers vegna að meta menntun til launa?
Í grundvallaratriðum gengur hugmyndin um að meta menntun til launa út á að það þurfi að vera hvatar fyrir fólk til að mennta sig enda sé samband á milli menntunarstigs og þjóðarhags. Á meðan fólk er í námi verður það af tekjum, safnar skuldum og hefur einhvern kostnað af náminu. Ef ævitekjur fyrir störfin sem menntunin skilar eru ekki að minnsta kosti jafn há og fólk fengi í störfum sem ekki kalla á menntun dregur það úr hvata fólks til að mennta sig.
„Vinnan er meira en bara tekjuöflun“
Ég held að það sé full ástæða til að taka þessa hugmynd alvarlega. Þetta er samt ekki alveg svona einfalt. Vinnan er meira en bara tekjuöflun. Flest okkar verja stórum hluta vökustunda okkar í vinnu og fyrir vikið skiptir okkur máli hvort það sem við höfumst að í vinnunni sé áhugavert eða ekki, hvort aðbúnaður á vinnustað sé góður eða ekki, hvort við höfum stjórn á vinnuhraða, sjálfstæði í starfi, hvort andinn á vinnustaðnum sé góður, áhrif vinnunnar á heilsu, atvinnuöryggi og svo mætti lengi telja. Í stuttu máli: Ólík störf eru misgóð. Við erum heldur ekki öll sammála um hvað geri starf gott enda höfum við áhuga á mismunandi hlutum og metum mismunandi kosti starfa ólíkt. Það þýðir að í samfélagi þar sem laun væru jöfn væri eftir sem áður hvatar til menntunar og líklegt að námsval fólks væri nokkuð fjölbreytt. Það er hins vegar hætt við að námsval fólks yrði að umtalsverðu leyti ólíkt því sem nú er ef engir fjárhagslegir hvatar væru til staðar til að velja sum fög.
Við búum hins vegar ekki í samfélagi þar sem öll laun eru jöfn og það er tilhneiging til að betur launuð störf séu frá flestum sjónarhornum einnig betri að öðru leyti.
Á menntun alltaf að leiða til kjarabóta?
Það er ekkert sjálfgefið við að menntun leiði til kjarabóta. Til að breyta menntun í tekjur þarf menntun fyrst að skila einhverri færni. Það eru hins vegar engin óhjákvæmileg tengsl á milli námsgráðu og færni. Tveir einstaklingar sem hafa lokið sömu formlegu menntun geta verið mjög misfærir í sama starfi og bara almennt, til dæmis ef annar einstaklingurinn er latur eða kærulaus. Sömu námsgráður frá mismunandi skólum eða frá sama skóla á mismunandi tímum geta einnig skilað mismikilli færni.
„Tveir einstaklingar sem hafa lokið sömu formlegu menntun geta verið mjög misfærir í sama starfi“
Ef menntun skilar færni þarf enn að finna atvinnurekanda sem hefur þörf fyrir þá færni sem menntunin skilaði og er tilbúinn til að borga meira fyrir hana. Ef það tekst ekki er engin augljós ástæða fyrir atvinnurekendur til að borga okkur fyrir menntun sem nýtist ekki í því starfi sem við vinnum. Framboð og eftirspurn skipta því nokkru máli á vinnumörkuðum þótt slíkir markaðir séu óralangt frá því að vera „fullkomnir markaðir“ í hagfræðilegum skilningi.
Af ofangreindu má líka ráða að það er ekki námsgráða sem skiptir máli heldur færnin sem menntun getur skilað. Það eru hins vegar fleiri leiðir til að öðlast færni í tilteknum störfum en að setjast á skólabekk. Ein slík er í formi starfsreynslu. Ef við einblínum á námsgráður leiðir það til þess að nýútskifaður einstaklingur með doktorspróf getur verið með hærri laun en annar sem sinnir sama starfi sem hefur aðeins lokið bakkalárprófi í háskóla en hefur sömu eða jafnvel meiri færni eftir 20 ára starfsreynslu. Það slær að minnsta kosti sum okkar illa.
Við þurfum sumsé víðara sjónarhorn á færni en námsvottorð. Það er líka ágætt að hafa í huga að tengsl menntunar og hagsældar snúast ekki um fjölda einstaklinga með uppáskrifaða pappíra frá menntastofnunum heldur færni. Fljótlegasta leiðin til að hækka formlegt menntunarstig landa er að slá verulega af námskröfum. Slík aðgerð myndi líklega ekki gera mjög mikið, hvorki fyrir lífskjör einstaklinganna sem útskrifuðust úr slíku námi né hagsæld þjóðfélagsins sem þau tilheyra.
Háskólamenntun eða ekki
Umræða um að meta menntun til launa snýst gjarnan um samanburð á milli háskólamenntaðra og annarra. Stundum almennt og stundum í samhengi tiltekinna starfsstétta. Einn vinkillinn á kjaradeilu Eflingar og Reykjavíkurborgar er til dæmis að ef laun ófaglærðs starfsfólks leikskóla borgarinnar hækki of mikið miðað við leikskólakennara verði það síður fýsilegt fyrir fólk að fara í leikskólakennaranám.
Ég get ímyndað mér aðstæður þar sem slíkar áhyggjur ættu við. Ég sé bara ekki að þetta sé sérstakt áhyggjuefni hér og nú. Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru leikskólakennarar 28,1% starfsfólks leikskóla á Íslandi árið 2018, það er af þeim sem sinna kennslu, umönnun og uppeldi barna. Aðrir með uppeldismenntun voru 18,7%. Ófaglært starfsfólk 53,2%. Samkvæmt lögum nr. 95 frá 2019 um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla eiga tveir þriðju hlutar stöðugilda við kennslu, umönnun og uppeldi barna í hverjum leikskóla að teljast til stöðugilda kennara. Það er að vísu heimilt að ráða fólk sem ekki hefur lokið leikskólakennaranámi ef enginn leikskólakennari fæst til starfsins en viðkomandi starfsmenn mega þó ekki kalla sig „leikskólakennara“ enda lögverndað starfsheiti.
Löggjafinn telur því leikskólakennaramenntun það nauðsynlega að tveir þriðju starfsmanna sem sinna börnum verði að hafi lokið slíku námi en í vissum aðstæðum megi þó víkja frá þeirri reglu. Þær aðstæður eru hins vegar reglan fremur en undantekning í íslensku þjóðfélagi. Það er því ljóst að það er umtalsvert meiri eftirspurn en framboð eftir leikskólakennurum. Getur verið að það sé vegna þess að laun ófaglærðs starfsfólks leikskólanna séu of góð í samanburði við laun leikskólakennara?
Varla. Í fyrsta lagi er mönnun leikskóla töluvert vandamál enda heildarlaun ófaglærðra leikskólastarfsmanna þau lægstu á íslenskum vinnumarkaði. Í annan stað, hlutfall leikskólakennara hefur lækkað nokkuð stöðugt eftir 2013, var þá 36,8% en var komið niður í 28,1% árið 2018. Samkvæmt launarannsókn Hagstofunnar hefur munurinn á grunn- og heildarlaunum leikskólakennara og ófaglærðs starfsfólks leikskólanna haldist nokkuð stöðugur á milli 2014 og 2018. Það er líklega einhver annar samanburður sem skiptir máli í þessu samhengi.
Ekki öll menntun
Það er önnur leið til að horfa á hvort menntun sé metin til launa en að bera saman fólk með og án háskólaprófs. Ef við hugsum okkur ungan mann sem er að velta fyrir sér háskólanámi og dálítið spenntur fyrir því að verða leikskólakennari. Hann spáir og spekúlerar í lífskjörum og gæðum starfsins. Niðurstaðan er að leikskólakennaranámið sé ekki fýsilegt. Skemmtilegt starf en tekjurnar of lágar. Það er samt ósennilegt að valkosturinn sem varð ofan á sé að sleppa háskólanámi yfirhöfuð. Sennilega velur hann eitthvert annað nám, hugsanlega eitthvað sem leiðir hann í starf sem er ekki alveg jafn skemmtilegt en mun betur borgað. Kannski freistast hann samt til að fara í leikskólakennarann en líkurnar á því að hann færi sig í annað starf vegna launa eða álags eru umtalsverðar. Það er ekki nóg að fá fólk til að fara í leikskólakennaranám, það verður að fá fólk með leikskólakennaramenntun til að vinna við fagið.
„Öllu heldur, sum menntun er metin mjög ríflega til launa.“
Staðreyndin er sú að menntun er metin til launa á Íslandi. Öllu heldur, sum menntun er metin mjög ríflega til launa. Leikskólakennaranámið er það ekki. Þegar við skoðum svokölluð sérfræðistörf í launarannsókn Hagstofu Íslands, sem eru þau störf sem gjarnan krefjast háskólamenntunar, sést að grunnlaun leikskólakennara eru þau næstlægstu á meðal sérfræðistétta og heildarlaunin þau lægstu. Munurinn á grunnlaunum og heildarlaunum skýrist af mörgum þáttum, svo sem fjölda vinnustunda og vaktavinnuálagi. Þegar heildarlaun leikskólakennara hafa verið reiknuð niður á greiddar vinnustundir eru þau enn lægri en í öðrum sérfræðistörfum. Ég er með tilgátu: Ófullnægjandi hlutfall leikskólakennara við kennslu, umönnun og uppeldi barna í leikskólum landsins hefur ekkert með muninn á launum leikskólakennara og ófaglærðs starfsfólks að gera, en allt að gera með það að menntun leikskólakennara er lítils metin í samanburði við ýmsa aðra menntun sem skilar fólki í sérfræðistörf.
Þetta á svo sem ekki bara við um leikskólakennara heldur flest sérfræðistörf á sviðum kennslu og umönnunar. En leikskólakennarar eru bæði gott og nærtækt dæmi. Nærtækt út af yfirstandandi kjarasamningum, gott af því okkur vantar fleiri leikskólakennara á leikskólana. Eftirspurnin er mun meiri en framboðið. Það þarf að hækka laun leikskólakennara og bæta starfsumhverfið, ekki af því að laun leikskólakennara þurfi að vera svo og svo mikið hærri en laun ófaglærðs samstarfsfólks þeirra, heldur vegna þess að leikskólakennsla þarf að vera samkeppnishæf við önnur sérfræðistörf.
Leikskólakennarar eru aðeins eitt dæmi um hvernig almenn krafa um að menntun skuli metin til launa er of einföld og hvernig áherslan á samanburðinn á milli háskólamenntaðra og annarra er misvísandi. Það væri skynsamlegri krafa að menntun á sviði kennslu og umönnunar væri ekki vanmetin til launa í samanburði við ýmsa aðra menntun.
Athugasemdir