„Það er ánægjulegt að RÚV hafi áttað sig á mistökunum og viðurkennt að flutt hafi verið frétt með fullyrðingum sem eiga ekki við nein rök að styðjast,“ segir í yfirlýsingu útgerðarfélagsins Samherja vegna ákvörðunar fréttastofu RÚV um að biðja félagið velvirðingar og leiðrétta frétt þar sem sagt var að Samherja hefði tekist að „afla sér kvóta í [Namibíu] með því að múta embættismönnum“.
Fjallað var um stórfelldar greiðslur Samherja til embættis- og stjórnmálamanna í Stundinni, Kveik, The Namibian og Al Jazeera í nóvember, en umfjöllunin byggðist á gögnum um millifærslur, tölvupóstsamskiptum og frásögn fyrrverandi framkvæmdastjóra Samherja í Namibíu. Tíu manns hafa verið handteknir eða ákærðir í Namibíu vegna málsins, þar á meðal tveir fyrrverandi ráðherrar. Seinast var fyrrverandi framkvæmdastjóri ríkisfyrirtækisins Fishcor, sem gefur út kvóta í Namibíu, handtekinn í gær.
Málið er til skoðunar hjá Héraðssaksóknara hérlendis, en ekki hafa fengist frekari upplýsingar um stöðu þess.
„Samherji vonar að fréttastofan dragi lærdóm af þessu máli“
„Samherji vonar að fréttastofan dragi lærdóm af þessu máli til að fyrirbyggja að slík mistök endurtaki sig í framtíðinni,“ segir Samherji í yfirlýsingu sinni.
Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri RÚV, sagði í leiðréttingu sem lesin var upp í tíufréttum í gærkvöldi, að fréttastofan stæði enn við aðrar fréttir af málinu, sem og umfjöllun fréttaskýringaþáttarins Kveiks í nóvember, þar sem sýnt var fram á fjármagnsflutninga Samherja til einstaklinga í stjórnkerfi og stjórnmálum í Namibíu, sem leitt hafa til ákæra og handtaka í landinu.
Meðal þess sem lögfræðingur Samherja fullyrti í bréfi sínu til 12 stjórnarmanna og annarra forsvarsmanna Ríkisútvarpsins, var að félagið hefði ekki fengið tækifæri til að svara ásökunum um mútugreiðslur og því hefði fréttamaður RÚV brotið siðareglur þess efnis. Þorsteinn Már Baldvinsson, fyrrverandi forstjóri Samherja, fékk hins vegar tækifæri til að svara skriflega og í viðtali við fréttamann Kveiks í nóvember. Í bréfinu sagði lögfræðingur Samherja að brot Ríkisútvarpsins gegn hegningarlögum gætu varðað allt að tveggja ára fangelsi.
Athugasemdir