Norski DNB bankinn hefur sagt upp viðskiptasambandi sínu við Samherja í kjölfar Namibíumálsins. Þetta herma heimildir Stundarinnar.
Í svari frá DNB, upplýsingafulltrúanum Even Westerveld, kemur fram að ekki sé hægt að ræða um einstaka viðskiptavini bankans.
Eins og fjallað var um í Stundinni og Kveik, í samstarfi við Wikileaks, í nóvember sagði DNB upp viðskiptum við félag sem notað hafði verið til að greiða laun sjómanna Samherja í Namibíu um vorið 2018, Cape Cod FS. Ástæðan var skortur bankans á vitneskju um eignarhald félagsins og þar af leiðandi vegna aukinnar hættu á peningaþvætti í gegnum bankann.
,,Ef niðurstaðan verður að félag hafi notað bankakerfi DNB til að fremja glæpi þá mun það að sjálfsögðu hafa áhrif á viðskiptasamband þess við bankann.“
Í nóvember, eftir umfjöllunina, var Samherji áfram viðskiptavinur DNB og þrátt fyrir að norska efnhagsbrotadeildin Ökokrim hefði tekið mál Cape Cod til skoðunar.
Upplýsingafulltrúi bankans, Even Westerveld, sagði þá að þetta gæti breyst ef bankinn teldi ljóst að kerfi bankans hefðu verið notuð í glæpsamlegum tilgangi. „DNB rannsakar þetta til að komast að staðreyndum. Svo er það lögreglan sem verður að segja til um hvort þetta tiltekna félag hafi brotið lög eða ekki. Ef niðurstaðan verður að félag hafi notað bankakerfi DNB til að fremja glæpi þá mun það að sjálfsögðu hafa áhrif á viðskiptasamband þess við bankann.“
Nú hefur þetta breyst og viðskiptasambandi Samherja við DNB, sem nær aftur til 2008, er lokið. Ástæðurnar fyrir þessari ákvörðun DNB liggja ekki fyrir þar sem bankinn veitir ekki upplýsingar um málið.
Þó Westerveld hafi sagt þetta í nóvember um að fullvissa bankans um ,,glæpsamlegan tilgang" myndi leiða till þess að Samherja yrði úthýst þá er ekki hægt að fullyrða að það sé þetta sem hafi gerst núna.
Í svari frá talskonu Samherja, Margréti Ólafsdóttur sem er ritari forstjóra, kemur fram að félagið hafi öll þau bankaviðskipti sem félagið þarf. Stundin spurði sérstaklega hvort DNB hefði sagt upp viðskiptasambandi við Samherja en þessu var ekki svarað: ,,Við svörum ekki um viðskipti við einstaka viðskiptavini en getum staðfest að Samherji hefur öll þau bankaviðskipti sem þarf í rekstri félagsins."
Hvert Samherji flutti bankaviðskipti sín erlendis eftir að DNB lokaði á útgerðina liggur ekki fyrir.
Athugasemdir