Það gleymist stundum hversu öflugir bandamenn Rússar reyndust Bretum, Frökkum og Bandaríkjamönnum gegn Þjóðverjum í báðum heimsstyrjöldum, einkum hinni síðari. Varnarstríð og síðan framsókn Rússa gegn Þjóðverjum á austurvígstöðvum síðari styrjaldarinnar skiptu sköpum. Enda misstu Rússar, eða réttar sagt Sovétríkin, 27 milljónir manna í stríðinu borið saman við miklu minna mannfall á vesturvígstöðvunum þar sem Bandaríkjamenn, Bretar og Frakkar misstu samtals eina og hálfa milljón manna. Þjóðverjar misstu fimm til sjö milljónir manns, Pólverjar misstu sex milljónir, Japanar misstu tvær til þrjár milljónir líkt og Indverjar, og Kínverjar misstu 15-20 milljónir.
Að loknum þessum hildarleik sem kostaði samtals um 40-50 milljónir mannslífa, sumir segja 60 milljónir eða meira, slettist fljótlega upp á vinskapinn meðal bandamanna. Upphófst þá kalt stríð milli Bandaríkjamanna og Rússa og stóðu Bretar, Frakkar og aðrir bandamenn í Vestur-Evrópu auk Þjóðverja og Ítala með Bandaríkjamönnum. Rússar drógu járntjald niður eftir endilangri Evrópu og gerðu Austur-Evrópulöndin þannig að varnarbelti milli sín og vesturveldanna. Rússar höfðu orðið fyrir of mörgum innrásum úr vestri frá herför Napóleóns 1812 og áfram. Þegar Rússar hrintu Napóleóni af höndum sér 1812 eltu þeir hann alla leið til Parísar og héldu þar til um skeið, nógu lengi til að ýmis rússnesk orð festust í frönsku, t.d. bistró, sem er rússneska og þýðir fljótt, en það var orðið sem rússneskir hermenn í tímahraki hrópuðu að þernum og þjónum á veitingahúsunum í París eins og Guðmundur Ólafsson hagfræðingur lýsti nýlega í fróðlegu spjalli við Álfheiði Eymarsdóttur varaþingmann Pírata.
Jafnræði framan af
Í kalda stríðinu 1945-1989 virtist ríkja jafnræði milli helztu stríðsaðilanna tveggja, a.m.k. á yfirborðinu. Bandaríkin og Sovétríkin voru nokkurn veginn jafnfjölmenn ríki, bæði vopnuð frá hvirfli til ilja og gátu hvort um sig sprengt heiminn í tætlur með kjarnavopnum sínum. Og svo léku þau bæði listir sínar úti í geimnum. Rússar skutu fyrsta gervihnettinum Spútnik á braut umhverfis jörðu 1957 og þannig eignaðist heimsbyggðin annað tökuorð úr rússnesku.
Hagtölur virtust sýna að Sovétmenn væru nokkurn veginn hálfdrættingar á við Bandaríkjamenn og þó varla það í efnahagslegu tilliti, en það var áður en tjaldið féll um 1990 og í ljós kom að lítið mark var takandi á sovézkum hagtölum. Hinu hefðu menn mátt gefa gaum að Sovétmenn lifðu að jafnaði næstum því jafnlengi og Bandaríkjamenn. Það skipti máli þar eð heilbrigðistölum var og er jafnan betur treystandi en hagtölum. Meðalævi Bandaríkjamanna 1960 var 68 ár á móti 66 árum í Sovétríkjunum með öll sín suðurríki aftan úr öldum. Það var nú allur munurinn: tvö ár.
Þegar Sovétríkin leystust upp 1989-1991 kom á daginn að efnahagur þeirra hafði veikzt til muna. Þjóðhagsreikningar Sovétríkjanna reyndust marklausir. Lífskjör almennings voru mun lakari en áður hafði verið talið. Nokkrir heimsfrægir bandarískir og evrópskir prófessorar í hagfræði höfðu lýst þeirri skoðun fram undir 1990 að þess væri varla langt að bíða að Sovétríkin sigldu fram úr Bandaríkjunum á efnahagssviðinu. Svo fór þó ekki. Bandaríkjamenn og vinir þeirra stóðu uppi sem sigurvegarar í lok kalda stríðsins 1991, Varsjárbandalagið var leyst upp, gamlir bandamenn Rússa í Austur-Evrópu gengu í Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið, og suðurríki Sovétríkjanna sálugu tóku sér sjálfstæði.
Nató færði mörk sín upp að landamærum Rússlands þar eð Bandaríkin og Vestur-Evrópuríkin töldu sér skylt að verða við óskum Austur-Evrópuþjóðanna um inntöku. Nú var engu varnarbelti lengur til að dreifa enda virtist engin þörf á því úr því að kommúnisminn var lagztur í gröfina. En gamla Rússland gekk aftur. Nýir menn náðu völdum. Einn maður virðist ráða því sem hann vill ráða, og það er Vladímir Pútín forseti, þótt hann barmi sér oft yfir því opinberlega að ekki nema fimmta hver tilskipun hans nái fram að ganga. Sjarmi hans og sannfæringarkraftur ná þó ekki langt út fyrir landið. Rússland á nú bara einn viljugan bandamann á sínu gamla yfirráðasvæði, Hvíta-Rússland, eina einræðisríkið sem eftir er í Evrópu vestan Rússlands. Rússar hafa átt og eiga enn í vopnuðum átökum við nokkra aðra nágranna sína, einkum í Úkraínu. Bandaríkin eiga til samanburðar um 60 bandalagsþjóðir um allan heim.
Af sem áður var ...
Jafnræði risanna tveggja, hafi því yfirhöfuð verið til að dreifa á tímum kalda stríðsins, er liðin tíð. Skoðum efnahaginn fyrst. Landsframleiðsla Rússa á kaupmáttarkvarða var 7% af framleiðslu heimsins alls 1990 og 3% 2018 skv. tölum Alþjóðabankans. Á sama tíma minnkaði hlutdeild Bandaríkjanna í heimsframleiðslu úr 20% í 15%. Í þessu felst að landsframleiðsla Rússa nam um þriðjungi af landsframleiðslu Bandaríkjanna 1990 og nemur nú um fimmtungi. Minnkandi hlutdeild beggja landa í heimsframleiðslu stafar einkum af því að risarnir tveir í Asíu eru vaknaðir. Landsframleiðsla Rússlands dróst saman eftir 1990 og náði ekki fyrra umfangi fyrr en 2006. Venjulega tekur það átta til níu ár fyrir lönd að rífa sig upp úr fjármálakreppum, en það tók Rússa 16 ár að ná sér aftur á strik eftir gjaldþrot kommúnismans. Frá 2006 hefur landsframleiðsla Rússlands vaxið hægar en í Indlandi og Kína en þó nokkru hraðar en í Bandaríkjunum. Þessar tölur um framleiðslu eru áreiðanlegri en tölur Sovétstjórnarinnar voru á fyrri tíð.
Svo er annað. Rússland var bara helmingur Sovétríkjanna eða þar um bil sé miðað við fólksfjölda og er því nú innan við helmingi fámennara land en Bandaríkin. Átta lönd eru nú mannfleiri en Rússland: Kína, Indland, Bandaríkin, Indónesía, Pakistan, Brasilía, Nígería og Bangladess. Rússar eru nú færri en þeir voru 1986. Kaupmáttur þjóðartekna á mann í Rússlandi nam nálægt fjórðungi tekna á mann í Bandaríkjunum 1998 og nemur nú innan við helmingi, eða 44%, líkt og talið var á tímum kalda stríðsins.
Hagtölur segja samt ekki alla söguna nema þær séu skoðaðar í samhengi við ýmsa félagsvísa. Tökum langlífi. Bandaríkjamenn lifðu að jafnaði fjórum árum lengur en Rússar 1960. Munurinn á langlífi í löndunum tveim varð mestur 12 ár 2005 og er nú kominn niður í sjö ár Bandaríkjamönnum í vil. Tölur um langlífi lýsa hnignun Sovétríkjanna og síðan Rússlands að sumu leyti betur en hagtölur þjóðhagsreikninga. Rússar lifðu að jafnaði jafnlengi 1991 og 1971, eða rösklega 68 ár. Þannig fóru 20 ár í súginn. Síðan hrapaði meðalævin niður í rösk 64 ár 1994 og þokaðist síðan aftur upp á við með rykkjum og skrykkjum en náði þó ekki fyrra marki frá 1971 fyrr en 2009. Sem sagt: ekki bara 20 heldur næstum 40 ár fóru í súginn.
„Á mælikvarða langlífis standa Rússar nú þar sem Íslendingar stóðu 1971–1975“
Nú er meðalævi Rússa 72 ár eins og í heiminum í heild borið saman við 69 ár á Indlandi, 77 ár í Kína og 79 ár í Bandaríkjunum (tölurnar eru frá 2017). Á mælikvarða langlífis standa Rússar nú þar sem Íslendingar stóðu 1971-1975. Kaninn hefur vinninginn og stendur þó frammi fyrir nýlegri styttingu meðalævi landsmanna þrjú ár í röð, 2015-2017, í fyrsta sinn í meira en hundrað ár. Þá var það ekki fyrri heimsstyrjöldin sem stytti ævir fólksins þrjú ár í röð heldur Spænska veikin. Og nú eru það ótímabær dauðsföll fólks í örvæntingu af völdum of stórra lyfjaskammta, drykkjuskapar og sjálfsvíga sem stytta ævirnar.
... eða hvað?
Ætla mætti að Bandaríkjamenn teldu sig standa með pálmann í höndunum eftir að hafa gengið með sigur af hólmi í kalda stríðinu gegn Rússum. Svo er þó ekki, heldur ber Kaninn sig nú heldur aumlega í samskiptum sínum við Rússa þrátt fyrir alla sína yfirburði. Fyrir liggur að Rússar skiptu sér af forsetakosningunum vestra 2016 til að hjálpa Donald Trump sem hafði verið í slagtogi við rússnesku mafíuna áratugum saman, en þeir gerðu það með bandarískri tækni, Facebook og öllu því. Rússar kunna lítið fyrir sér í hátæknimálum nema til hernaðar. Og hvar skyldu rússneskir auðkýfingar, fávaldarnir sem sölsuðu undir sig auðlindir og annað, geyma þýfið sitt? Þeir geyma það einkum í bandarískum og evrópskum bönkum og skattaskjólum enda hvarflar ekki að þeim frekar en öðrum að treysta rússneskum bönkum fyrir fénu. Þarna birtist einn helzti veikleiki rússnesks efnahagslífs. Rússar framleiða næstum ekkert sem aðrar þjóðir kæra sig um að kaupa nema olíu og önnur hráefni, hergögn og vodka svo sem ráða má m.a. af því að rússneskir bílar eru því sem næst horfnir af íslenzkum vegum. Einn helzti veikleiki rússnesks stjórnmálalífs er með líku lagi einsleitni stjórnmálanna þar sem Pútín forseti hefur frá aldamótum haft alla þræði í hendi sér og virðist nú með boðaðri breytingu á stjórnarskrá Rússlands búast til að halda áfram að stjórna landinu eftir að hann hverfur úr forsetaembættinu 2024. Fábreytt efnahagslíf og einhæf stjórnmál haldast iðulega í hendur og eru afleit blanda.
Fjögur einkenni
Lýðræðishallinn í Rússlandi ber höfuðeinkenni nýrrar tegundar fáræðis sem hefur rutt sér til rúms frá aldamótum og heft framsókn lýðræðis víða um heim, jafnvel í Evrópu.
Stephen Kotkin, sagnfræðiprófessor í Princeton-háskóla og ævisöguritari Stalíns, lýsir þessari nýju tegund fáræðis svo að skipulagið snúist um fámennisstjórn í nafni fjöldans en þó bara að nafninu til og beri fjögur höfuðeinkenni.
Í fyrsta lagi reiðir nýskipulagið sig á undirokun sem má þó ekki vera of skilvirk því þá geta kúgaranir sjálfir orðið fyrir barðinu á henni. Þessi undirokun birtist í veikum valdmörkum og veiku mótvægi (e. checks and balances) og þá um leið í auðsveipu dómskerfi og í stjórn ríkisins og handgenginna einkafyrirtækja á helztu sjónvarpsstöðvum og einnig í flótta menntafólks frá Rússlandi einkum til Vestur-Evrópu í milljónatali.
Í annan stað þarf fámennisstjórnin reiðufé til að halda sér og sínum gangandi, reiðufé sem hún skammtar sér sjálf m.a. með því að sölsa undir sig auðlindir almennings og aðrar eignir. Lífskjarabætur til langs tíma litið skipta yfirvöldin minna máli.
Í þriðja lagi þarf fámennisstjórnin að hafa tangarhald á afkomu fólksins með því að geta neitað því um vinnu eða börnum þess um aðgang að háskólum o.s.frv. Í þessu skyni þarf hlutur ríkisins í efnahagslífinu ekki endilega að vera mjög stór ef auðsveipt einkaframtakið er stjórnvöldum innan handar um ofríkið svo sem þekkist sums staðar.
Í fjórða lagi þarf fámennisstjórnin að hafa sögur á reiðum höndum til að ala á ótta og tortryggni, t.d. sögur um óvinveitt öfl, erlend eða innlend – gyðinga, innflytjendur, ESB o.s.frv. – öfl sem sögð eru ógna fólkinu og framtíð þess.
Öll þessi einkenni blasa nú við í Rússlandi og sum einnig í Póllandi, Ungverjalandi og Tyrklandi – og jafnvel í Bretlandi og Bandaríkjunum, einkum fjórða einkennið. Kotkin lýsir þessu rækilega í bókum sínum, greinum og fyrirlestrum, en hann varar samt við ýktum samlíkingum. Skríðandi fasismi nútímans er enn sem komið bara barnaleikur hjá fasisma fyrri tíðar þegar alls er gætt, en hann er hættulegur engu að síður.
Athugasemdir