Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að sér finnist orð Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra á fundi læknaráðs Landspítalans í gær mjög alvarleg. „„Við erum bara einu rútuslysi frá algjörri katastrófu“ var sagt í mín eyru af starfsmanni spítalans í morgun,“ skrifar Helga Vala á Facebook í dag. „Ég trúi þeim, enda hef ég orðið vitni að þessu af eigin raun.“
Á fundinum, sem Stundin hefur birt myndbandsupptöku af, sagði Svandís að læknar hefðu verið að „tala spítalann niður“ og gefa út ályktanir á færibandi um ástandi á bráðamóttöku Landspítalans. „Orð eru til alls fyrst og þess vegna hef ég sagt að ég mundi vilja eiga fleiri hauka í horni þar sem eru læknar,“ sagði Svandís.
Helga Vala segist trúa starfsmönnum þegar þeir lýsi ástandinu. „Mér finnst mjög alvarlegt mál að heilbrigðisráðherra segi það „áskorun að standa með Landspítala“ þegar starfsfólk spítalans, læknar, hjúkrunarfræðingar og aðrir lýsa raunveruleikanum innan spítalans,“ skrifar Helga Vala á Facebook í dag. „Mér finnst mjög alvarlegt að heilbrigðisráðherra með þessum orðum sínum láti eins og þjóðarsjúkrahúsið sé eitthvað gæluverkefni lækna? Ástandinu hefur verið lýst sem hættuástandi og starfsfólkið sinnir störfum sínum langt umfram bestu getu að mínu mati. Það að hún leyfi sér að hóta starfsfólkinu með þessum hætti veldur mér gríðarlegum vonbrigðum og ég óttast það að ríkisstjórnin ætli sér ekki að bregðast við því neyðarástandi sem er þarna.“
Athugasemdir