Ríkjum ber að veita blaðamönnum aðgang að móttökumiðstöðvum hælisleitenda og flóttafólks. Bann við slíkum heimsóknum brýtur í bága við 10. grein Mannréttindasáttmála Evrópu, sem kveður á um að sérhver maður eigi rétt til tjáningarfrelsis án afskipta stjórnvalda. Þetta er niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu samkvæmt dómi sem féll nýverið í máli sem ungverski blaðamaðurinn Illés Szurovecz höfðaði gegn ungverska ríkinu. Dómurinn leggur áherslu á að fjölmiðlafrelsið hvíli á rétti blaðamanna til þess að kanna aðstæður frá fyrstu hendi. Það sé ekki síst mikilvægt þegar fjallað sé um aðbúnað og aðstæður undirsettra og berskjaldaðra hópa. Viðvera fjölmiðla á vettvangi tryggi að hægt sé að láta yfirvöld svara fyrir þær aðstæður sem þau skapa fólki í bágri stöðu. Allir dómarar dómsins voru á einu máli.

Athugasemdir