Innanríkisáðuneytið telur ekki að nýlegar heimsóknarreglur Útlendingastofnunar takmarki aðgengi flóttafólks að fjölmiðlum eða til samskipta við samfélagið almennt. Þvert á móti telur ráðuneytið að með því að meina fjölmiðlafólki og sjálfboðaliðum að heimsækja hælisleitendur sé verið að stuðla að því að koma mannúðlega fram við skjólstæðinga stofnunarinnar. Þetta kemur fram í svari Þorleifs Óskarssonar, sérfræðings hjá innanríkisráðuneytinu, við skriflegri fyrirspurn Stundarinnar.
Reglurnar kveða meðal annars á um blátt bann við heimsóknum sjálfboðaliða og fjölmiðlafólks á heimili hælisleitenda. Útlendingastofnun hefur gefið það út að þetta sé gert til þess „að vernda friðhelgi einkalífs“ flóttafólks. Innanríkisráðuneytið gerir engar athugasemdir við þennan rökstuðning Útlendingstofnunar en viðurkennir að hafa hvorki yfirfarið starfsreglur né verklag stofnunarinnar í málinu.
Talar um mikilvæg mannúðarsjónarmið
Líkt og Stundin greindi frá hér, leggur Útlendingastofnun blátt bann við því að hælisleitendur, sem hýstir eru í húsnæði undir forræði stofnunarinnar, veiti fjölmiðlafólki viðtöl á heimilum sínum. Þá hefur sjálfboðaliðum einnig verið meinaður aðgangur að þeim heimilum hælisleitenda sem eru undir forræði Útlendingastofnunar. Þessar reglur voru settar til þess „að vernda friðhelgi einkalífs“ hælisleitenda, að því er fram kom í svari Þórhildar Óskar Hagalín, upplýsingafulltrúa Útlendingastofnunar, við fyrirspurn Stundarinnar, sem birt hefur verið á vef Útlendingastofnunar.
Athugasemdir