Fyrir tveimur árum gaf ég manninum mínum jákvætt óléttupróf í jólagjöf. Sem þýðir að meirihluta þessa árs varði ég í fæðingar„orlof“.
Þótt orlof sé fullkomið rangnefni er þessi 7 daga, 24 stunda kleppsvinna, eitt af því besta sem til er. Ég leyfi mér að fullyrða að pínulitla, fullkomlega ósjálfbjarga mannveran, sem grætur endalaust og sefur ekki á nóttunni, er það stórkostlegasta sem hægt er að upplifa. Hún tæmir allar rafhlöður okkar, en fyllir þær um leið, bara með því að vera til.
Ég gæti eiginlega sett punktinn við pistilinn hér, því svona var árið mitt. Ég var gegnsýrð af svefnleysi, með bauga niður á höku og handónýtt bak, en fullkomlega hamingjusöm akkúrat hér og nú. Og þar finnst mér stóri lærdómurinn liggja. Að hamingjan er í þessu hversdagslega; knúsi frá syni, kúri með dóttur, brosi frá maka, hláturskasti með vinum, samveru með fjölskyldu. Þótt dansskórnir séu komnir aftar í fataskápinn og Kardemommubærinn vermi toppsæti árslistans á Spotify hjá mér, þá hefur lífið aldrei verið betra.
Þegar ég byrjaði að hugsa til baka fannst mér fátt hafa gerst þetta ár. Fannst það hafa runnið saman í eitt, horfið í svokallaða brjóstaþoku, sem á mannamáli kallast svefnleysi. En viti menn; ég eignaðist þriðja bróðursoninn, besta vinkonan gifti sig, ég ferðaðist með fjölskyldunni bæði innanlands og utan. Ég horfði á þriggja ára dóttur læra stafina og soninn breytast úr ósjálfbjarga ungbarni í gangandi mannveru með húmor og skoðanir. Og ást, endalausa ást.
Ég missti líka vinkonu sem var harkaleg áminning um það sem við vitum öll. Að við verðum ekki alltaf hér og lífið fer aldrei á pásu.
„Það má reyna, prófa og jafnvel mistakast“
Jörðin fer heldur ekki á pásu og árið 2019 tók ég umhverfismálin meira inn á mig. Gerðist frekara flokkunarskrímsli við fjölskylduna, fór að líta plastpoka alvarlegu hornauga og hendi nú helst engu. Götóttir sokkar eru þvegnir og svo fara þeir í Rauða krossinn.
En talandi um götótta sokka. Lærdómur ársins var ekki allur jafn hátíðlegur. Ekki alltaf andleg og líkamleg heilsa eða framtíð jarðar undir. Þannig lærði ég til dæmis að lax getur verið góður á bragðið og að það er ekki góð hugmynd fyrir konu sem er nýbúin að fæða barn númer tvö, að hoppa á trampólíni. Svo sigraðist ég á djúpstæðum ótta mínum við fastar fléttur og lærði að gera svoleiðis. Eða, ég get varla sagt að ég hafi lært það. Ég bara ákvað að fyrst aðrir gætu þetta hlyti ég að geta það líka, stillti dóttur minni upp og fléttaði þar til hárið var komið í einhvers konar skipulagða bendu sem mætti kalla fasta fléttu. Þetta var engin instagram-flétta, en þetta hafðist. Og þarna er kannski kominn fínasti lærdómur. Maður á ekki að hræðast nýja hluti eða láta stoppa sig að maður sé ekki bestur. Það má reyna, prófa og jafnvel mistakast. Upplifa, læra og stundum sigra. Þannig höldum við toppstykkinu gangandi og brosinu á sínum stað. Sem skiptir öllu máli.
Gleðilegt ár!
Athugasemdir