Eitt af því sem hefur einkennt þetta ár í mínu lífi er stórbætt líkamleg heilsa. Ég hóf þann skipulagða leiðangur 2018, hélt honum áfram allt þetta ár og hef náð frábærum árangri. Eiginlega miklu betri en ég þorði að vonast eftir í upphafi. Ég hef losnað við mikla aukaþyngd, getað hreinsað úr lyfjaskúffunni og stóraukið lífsgæði mín að svo mörgu leyti.
En þetta hefur aldeilis ekki verið átakalaust ferðalag og stundum þurfti ég að safna saman miklu hugrekki til að stíga sum skrefin. Eins og þegar ég ákvað að það væri kominn tími til að kaupa mér alvöru gallabuxur, sem mörgum finnst væntanlega ekkert merkilegt. En fyrir mig var þetta talsverður áfangi. Ég hafði ekki keypt mér venjulegar gallabuxur síðan ég var 22 ára gömul. Oft vegna þess að ég hafði svo litla peninga á milli handanna að það kom ekki til greina að kaupa svo dýra flík. En í langan tíma var það líka vegna þess að ég passaði ekki í neinar gallabuxur. Ég hafði jú keypt mér buxur sem reyndu að líta út eins og gallabuxur en voru það samt ekki í mínum huga. Svona buxur sem voru með teygju í mittið og plat rennilás. Mér fannst ég aldrei vera í „alvöru“ gallabuxum.
En þetta var eitt af markmiðunum sem ég hafði sett mér og það kom mér svolítið á óvart hversu skíthrædd ég var við þetta. Óttaðist að ég myndi gera mig að erkifífli að ætla að fara að troða mér í einhverjar unglingabuxur. Í verstu ímynduninni sá ég fyrir mér að ég myndi festast í buxunum og það þyrfti að kalla út aðstoð til að tosa flíkina af mér. En ég fór samt og var í vel úthugsuðum klæðnaði. Skóm sem var auðvelt að fara í og úr, víðum léttum sumarbuxum sem voru sömuleiðis auðveldar og svo þunnum bol, tilbúin í smá átök. Ég kaus að fara ein til að fækka þeim sem yrðu vitni að vandræðunum.
„Í verstu ímynduninni sá ég fyrir mér að ég myndi festast í buxunum og það þyrfti að kalla út aðstoð til að tosa flíkina af mér.“
Ég eyddi nokkrum klukkustundum uppi í Kringlu, staðráðin í að ég færi ekki heim fyrr en ég hefði lokið ásetningi mínum. Ég valdi búð sem ég vissi að hafði stóra og góða mátunarklefa og fór að skoða. Fann fljótlega flottar buxur og ákvað að kyngja óttanum og fá að máta. Vinaleg starfskona var komin til mín og ég spurði hvort hún ætti þessar í stærð 32 eða 33. Hún spurði kurteislega hvort ég væri að hugsa fyrir mig og ég kinkaði kolli, hrædd um að ég væri að spyrja um of litlar stærðir. Langaði ekki að vera konan sem ætlar að troða sér í alltof litla flík. Hún varð skrýtin á svipinn og fór svo að gramsa í buxnahrúgunni.
Skömmu seinna rétti hún mér buxur til að máta. Ég hélt þeim uppi á milli fingranna. Þær voru pínulitlar. Ætlaðist konan í alvöru til þess að ég mátaði þessar? Þær voru í stærð 30! Hjartað fór að slá hraðar og ég fékk skilaboð frá úrinu mínu að það væri góð hugmynd að taka andartak í núvitund og anda djúpt í alla vega eina mínútu. Ég vissi ekki hvað ég átti að segja og fór bara hlýðin inn í mátunarklefann sem konan benti mér á. Reyndi að láta ekki sjást hvað ég var hrædd. Konan kallaði á eftir mér að ég skyldi láta sig vita ef ég þyrfti minna. Var hún að gera grín að mér? Ég hef samt sjálf unnið í fataverslunum og veit að maður gerir ekki svoleiðis.
En það ótrúlega gerðist. Buxurnar runnu upp um mig, ég þurfti ekki einu sinni að taka á því og ekkert mál að loka rennilásnum og hneppa. Ég trúði þessu ekki og opnaði þær aftur, bara til þess að sjá að ég gæti í alvörunni hneppt þeim án vandræða. Buxurnar hlutu að vera vitlaust merktar. Það gat ekki verið að ég passaði í gallabuxur í stærð 30!
Ég endaði á því að kaupa mér tvennar æðislegar gallabuxur, sem ég er alsæl með. Aðrar í stærð 29 og hinar í 28. Það þurfti ekki að kalla út reynda öryggisverði til þess að losa miðaldra konuna úr klípunni og mér leið svolítið eins og sigurvegara. Ég hafði náð enn einu markmiði mínu.
Ég hef lært að það skiptir miklu máli hvernig ég hugsa um þann árangur sem ég vil ná mér í. Ég þarf að sjá fyrir mér markmiðin mín til þess að þau geti orðið að veruleika. Að efast í hjartanu er eins og að kasta grófum hindrunum í sinn eigin veg. Ég hafði verið að burðast með fordóma gagnvart eigin líkama, svo sterka að ég hafði litla tilfinningu fyrir eigin fatastærð, var ekki einu sinni nálægt því. Vegna þess að hluti af mér trúði ekki enn að ég hefði í raun gert þessar breytingar. Ég lærði það þennan dag uppi í Kringlu.
Það er nefnilega jafn mikilvægt að þjálfa nýjar hugsanir eins og að þjálfa vöðvana. Það er ekki nóg að vita bara að ég vilji hugsa öðruvísi, það þarf að æfa það. Hausinn skiptir ekki út gömlum viðhorfum fyrir ný nema það sé unnið að því. Og stundum er það þjálfunin í huganum sem er best að byrja á.
Þá er hægt að gera magnaða hluti.
Athugasemdir