Dómur féll í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur um meiðyrðamál fyrirtækisins Menn í vinnu gegn Maríu Lóu Friðjónsdóttur, sérfræðingi Alþýðusambands Íslands í vinnustaðaeftirliti. Tilefni meiðyrðamálsins var ummæli sem féllu í fréttum Stöðvar 2 þann 7. febrúar síðastliðinn. Þrenn ummæli Maríu Lóu voru kærð; tvenn þeirra um greiðslur fyrirtækisins til starfsfólks síns voru dæmd dauð og ómerk.
Héraðsdómur taldi hins vegar að Maríu Lóu hafi verið frjálst að segja eftirfarandi ummæli: „Að mínu mati er þetta nauðungarvinna og þrælahald. Þetta er mjög slæm aðstaða.“
Starfsmaður nýtur fulls trausts
ASÍ sendi tilkynningu frá sér í dag um málið þar sem það sagði heildarniðurstöðu dómsins vera „umdeilanlega“, en fagnaði því að starfsmaður hefði mátt lýsa raunverulegum aðstæðum starfsfólks Menn í vinnu. Drífa Snædal, forseti ASÍ, lýsir þar að auki yfir fullu trausti á Maríu Lóu og alls starfsfólks síns sem „enduróma veruleika“ fólks á vinnumarkaðinum.
„Félagar í ASÍ mega vera afskaplega stoltir af eftirlitsfólki hreyfingarinnar“
„Félagar í ASÍ mega vera afskaplega stoltir af eftirlitsfólki hreyfingarinnar sem sinna erfiðum störfum í baráttunni fyrir betri vinnumarkaði,“ segir Drífa Snædal í fréttatilkynningunni. „Starfsmenn í vinnustaðaeftirliti ASÍ hafa unnið þrekvirki við að gæta hagsmuna vinnandi fólks og nýtur órofa stuðnings og fulls trausts í sínum störfum. Alþýðusambandið leitar stöðugt leiða til að efla eftirlit enda er full ástæða til að hafa sérstakar áhyggjur af fólki af erlendum uppruna sem kemur í gegnum starfsmannaleigur á íslenskan vinnumarkað, nauðungarvinna og þrælahald verður aldrei liðið á íslenskum vinnumarkaði.“
Fyrirtækið Menn í vinnu rataði í fréttir í febrúar eftir að ASÍ kallaði saman fulltrúa Vinnueftirlitsins, Vinnumálastofnunar, Ríkisskattstjóra og lögreglu vegna aðstæðna launþega. Hópur af rúmenskum ríkisborgurum kom til landsins á vegum fyrirtækisins, en þeir sögðu að fyrirtæki hefði boðið þeim vinnu á fölskum forsendum þar sem vanþekking þeirra á íslenskum lögum hefði verið notuð gegn þeim til að borga þeim ólöglega lág laun og draga þar að auki leigu af þeim.
Menn í vinnu var tekið til gjaldþrotaskipta í september síðastliðnum. ASÍ hefur ekki ákveðið hvort dómnum verði áfrýjað, en tekur fram í fréttatilkynningunni að til standi að „efla vinnustaðaeftirlit verkalýðshreyfingarinnar enn frekar á næstu mánuðum“.
Athugasemdir