„Það er sérstakt að þetta [viðskiptasambandið í gegnum Cape Cod FS] hafi getað haldið áfram svo lengi þrátt fyrir aukna áhættu af því. Ólögleg viðskipti með kvóta í gegnum spillingu hafa áhrif á stöðu fiskistofnanna í landinu sem og möguleikann til efnahagslegrarar framþróunar. […] Þetta er sorglegt,“ segir einn þekktasti sérfræðingur Svíþjóðar í peningaþvætti, Louise Brown, í viðtali við norska viðskiptablaðið Dagens Næringsliv í dag aðspurð um Samherjamálið í Namibíu sem fjallað hefur verið um í Stundinni, Kveik, Al Jazeera og norska ríkisútvarpinu á grundvelli gagna frá Wikileaks.
Louise Brown, sem er endurskoðandi að mennt, hefur meðal annars unnið náið með starfsmönnum sænska fréttaskýringarþáttarins Uppdrag Granskning að fréttaumfjöllunum um peningaþvætti í Svíþjóð, meðal annars í sænska bankanum SEB sem sagt var frá í vikunni.
„Það virðist vera sem bankarnir á Norðurlöndunum séu of barnalegir“
„Mögulega glæpsamlegt“
Eins og komið hefur fram notaði Samherji bankareikninga í DNB bankanum í Noregi, banka sem er að 1/3 leyti í eigu norska ríkisins, til að flytja milljarða króna í félagið Cape Cod FS í skattaskjólinu Marshall-eyjum á árunum 2011 til 2018 auk þess sem félagið greiddi mútur til spilltra namibískra embættismanna inn á bankareikninga í Dubaí og Namibíu í gegnum DNB.
Skattskjólsfélaginu á Marshall-eyjum var slitið í byrjun þessa mánaðar, eftir að Kveikur og Al Jazeera höfðu ítrekað krafið Samherja svara um mútumálið í Namibíu fyrir hönd þeirra fjölmiðla sem unnu umfjallanir um málið.
Louise Brown segir að almennt séð séu bankar á Norðurlöndunum of bláeygir þegar kemur að því að vinna gegn peningaþvætti. „Í DNB er vandamálið einnig það að traustir bankar með gott orðspor, og sem staðsettir eru í mörkuðum sem eru með þeim opnustu í heimi, eru notaðir til að gera eitthvað sem mögulega er glæpsamlegt. Fáir halda sjálfsagt að þetta geti gerst í þessum heimshluta og þess vegna er gott að fela slíkar gjörðir í þessum bönkum […] Það virðist vera sem bankarnir á Norðurlöndunum séu of barnalegir í vinnu sinni við að sporna gegn peningaþvætti og það eiga sér ekki stað nægilega miklar rannsóknir innan þeirra og eftirlitskerfin innan bankanna eru ekki nægilega góð,“ segir Brown í viðtalinu við Dagens Næringsliv.
Horfði í gegnum fingur sér
Eitt af því sem Louise Brown bendir á að sér alvarlegt er að DNB bankinn hafi valið að horfa í gegnum fingur sér gagnvart Cape Cod FS þrátt fyrir að bankinn hafi lengi vitað að félagið væri varasamt sökum þess að eigendaupplýsingar um það skorti.
Líkt og greint hefur verið frá gerði bankinn athugun á því hver væri eigandi Cape Cod FS sumarið 2017, fékk enga skýra niðurstöðu, en ákvað samt að gera ekkert í viðskiptasambandinu þrátt fyrir að eignarhaldið væri óþekkt. „Það er alvarlegt sökum þess að í gögnunum sjáum við dæmigerð „rauð flögg“ með óvanalega augljósa tengingu við peninga sem byggja á spilltum viðskiptum en bankinn valdi samt að gera ekki neitt,“ segir hún í viðtalinu.
Eins og Stundin greindi frá í gær vill upplýsingafulltrúi DNB, Even Westerveld, ekki svara því af hverju bankinn gerði ekki neitt í viðskiptasambandi sínu við Cape Cod FS um sumarið 2017 jafnvel þó niðurstaða bankans væri sú að hann vissi ekki hver ætti félagið.
Í grein Dagens Næringsliv er haft eftir Even Westerveld að DNB bankinn hafi lagt mikið á sig á síðustu árum til að bæta eftirlitskerfi sitt í baráttunni við peningaþvætti en að aldrei sé hægt að útiloka alla misnotkun á bankanum. „Á síðustu árum höfum við fjárfest mikið í því að gera það erfiðara að misnota þjónustu bankans til að fremja efnahagsbrot. Vid höfum komið í veg fyrir alls konar svik upp á hundruð milljóna norskra króna og við höfum tilkynnt um þúsundir grunsamlegra millifærslna til lögreglunnar,“ segir Westerveld.
Athugasemdir