Zhujiang heitir fljót eitt í Kína, mikið og stórt. Perlufljót er það kallað á vorri tungu og vatnasvæði þess nær yfir heilmikið flæmi sunnarlega í landinu uns það tæmist út í Suður-Kínahaf. Þar er vogskorið við árósana, misstórar eyjar, hólmar, sker og sund á milli, tangar og höfðar og víkur og vogar. Og þar er eyja nokkur austan megin við árósana, hún er um 80 ferkílómetrar að stærð sem þýðir að hún er örlítið minni en Þingvallavatn, ef menn vilja reyna að sjá hana fyrir sér. Á þessari eyju sem nú heitir Hong Kong hefur verið mannabyggð í að minnsta kosti 6.000 ár og þar og víðar við ströndina bjó lengi fólk sem kallað hefur verið Júe. Fólkið kom líklega innan úr landi og færði með sér hrísgrjónarækt sem upp var fundin norðar í landinu. Það settist að á Hong Kon- eyju og öðrum eyjum þar í grennd, fáeinar allstórar en flestar minni. Og undu menn nú glaðir við sitt um skeið, átu hrísgrjón og lærðu að veiða fisk á öllum þröngu sundunum milli eyja og lands þar um slóðir.
Kínverjar koma niður á strönd
Rétt rúmum tvö hundruð árum fyrir upphaf vors tímatals kom svo önnur þjóð niður að ströndinni að norðan, hún kallaðist Kínverjar og var óskyld Júe-fólkinu en miklu stöndugri. Kínverjar, sem lutu þá stjórn Qin-ættarinnar, ásældust frjósöm strandsvæðin, fiskimið og siglingaleiðir við árósa Perlufljóts og og á tæpum áratug lögðu þeir undir sig alla suðurströndina með miklum hernaði. Sögur ganga um 100.000 og jafnvel 500.000 manna kínverska heri sem möluðu á endanum þau smáríki Júe-kónga sem þarna höfðu fyrir verið.
Æ síðan hefur suðurströndin verið partur af Kína.
Þótt Júe-fólkið rynni saman við Kínverja með tímanum og hyrfi að endingu þá breyttust lítið lifnaðarhættir á Hong Kong-eyju og þar í grennd. Áfram veiddu menn fisk og seldu afurðir sínar ekki síst til borgar sem Kínverjar reistu á bökkum Perlufljóts rúma 100 kílómetra inni í landinu og varð fljótt eitt helsta þéttbýlis- og menningarsvæði suðurhluta Kína. Canton kölluðu Evrópumenn borgina seinna meir en á kínversku heitir hún Guangzhou.
Perlukafarar
Næstu aldir og árþúsund gerðist margt í sögu Kína, fólk lifði og dó, keisaraættir komu og fóru, herir voru kvaddir út og börðust til bana, stundum ríkti friður samt lengi. Á Hong Kong og öðrum nálægum eyjum, sem og á skaganum norður af þeim, hafði fólk það yfirleitt ágætt, virðist okkur. Auk þess að rækta hrísgrjón og veiða fisk var saltvinnsla á skaganum og perlukafarar víða á ferð í sundum.
Svæðið komst sjaldan í fréttirnar í Kína nema rétt í lok 13. aldar. Þá höfðu Mongólar úr norðri gert innrás í Kína og keisarinn Duzong af Song-ætt sá það eitt ráð að drekka sig í hel. Hirðmenn lögðu á flótta með kornunga syni hans suður í land og enduðu á eyjunum austur af Perlufljótsósum, Hong Kong og þeim hinum. Hirðmenn lýstu þá keisara hvern af öðrum en tímar Song-ættar voru bersýnilega liðnir. Einn sonur sagði af sér sex ára, annar dó þar suður frá álíka gamall, Duanzong hét hann.
Keisari gengur í sjóinn
Sá þriðji var þá lýstur keisari á Lantau-eyju við hlið Hong Kong. Hann var sjö ára og hét Zhao Bing. Eftir tæpt ár á meira og minna ímynduðum valdastóli náði floti Mongóla í skottið á flota Song-ættar þar skammt frá og heitir Jamen. Þetta var árið 1279, eða um svipað leyti og Íslendingar höfðu játast undir yfirráð Noregskónga.
Floti Kínverja var líklega tíu sinnum stærri en floti Mongóla og beittu Kínverjar meðal annars eldlogandi skipum sem þeir sendu inn í raðir kínverska flotans. Kínverjar kunnu hins vegar krók á móti því bragði því þeir höfðu málað öll sín skip með leirborinni málningu sem ekki vildi brenna. Mongólar bjuggu líka yfir fallbyssum en þurftu reyndar ekki að grípa til þeirra, því fyrr en varði fóru Kínverjar halloka. Þegar hinn átta ára gamli keisari sá að sjóliðar hans voru hver af öðrum að gefast upp kastaði hann sér í sjóinn og fylgdu honum í dauðann fjölmargir háttsettir embættismenn og kvennabúrskonur.
Portúgalar mæta til leiks
Ekki er vitað til að aðrir Kínakeisarar hafi heimsótt Hong Kong en þessir ógæfusömu bræður, Duanzong og Zhao Bing. Gerðist nú fátt til tíðinda í rúmar tvær aldir. Í blábyrjun 16. aldar sáust hins vegar nýstárleg segl á sjóndeildarhring á hinni vogskornu suðurströnd Kína og þar voru komin skip alla leið frá Portúgal. Ásældust Portúgalir ýmsan varning sem framleiddur var í Kína, silki ekki síst, en margt annað líka. Í Kína höfðu Mongólakeisarar ekki haldið völdum nema í tæpa öld og nú ríkti Ming-ættin yfir öllu Kína. Hún kunni illa við útlendinga og vildi helst banna alla verslun við þá svo skærur stóðu milli Portúgala og Kínverja í nokkurn tíma. Að lokum fengu Portúgalir þó að koma sér upp föstum verslunarstað vestan megin við ósa Perlufljóts þar sem heitir Maká. Eru þaðan 30 kílómetrar á sjó til Lantau en 60 til Hong Kong, þar sem þá bjuggu um 16.000 manns að talið er.
Andúð á verslun
Það er til marks um andúð Ming-keisaranna á verslun og samskiptum við útlendinga að embættismenn þeirra skipuðu nú meirihluta íbúa á Hong Kong að flytjast burt og setjast að á meginlandinu. Þeir vildu ekki að íbúarnir hefðu of mikil samskipti við Portúgala og heldur ekki að þar gæti orðið gróðrarstía fyrir stjórnarandstöðu sem aldrei hefur verið litin hýru auga í Kína.
Í byrjun 17. aldar, þegar Qing-ættin hafði leyst Ming-ættina af hólmi, þá skipuðu yfirvöld aftur fólki í stórum stíl að flytjast frá strandhéruðum og eyjum. Qing-ættin hélt uppteknum hætti að vilja lítil samskipti við umheiminn og fór hennar smátt og smátt hnignandi eftir því sem einangrunin jókst. Mótspyrnumenn keisaranna héldu þá til á Taívan og höfðu margvísleg samskipti við íbúa við strendurnar, útlendinga og sjóræningja, sem alltaf herjuðu mjög á þessum slóðum. Af ræningjunum spunnust miklar hetjusögur en íbúabyggð í Hong Kong og Lantau lét mjög á sjá, þótt eitthvað flyttist líka þangað af fólki ofan af meginlandi.
Bretar vilja kaupa kínverskt te
Þegar Bretar fóru að hnusa af svæðinu undir lok 18. aldar bjuggu ekki nema 3.000 manns á Hong Kong og áttu heldur auma vist við saltvinnslu aðallega og nokkra fiskveiði.
Bretar voru þá orðnir mesta sjó- og verslunarveldi heimsins og fannst eðlilegt að þeir fengju að kaupa það sem þeim sýndist í Kína. Þar var te alveg sér á báti en einnig silki, postulín og sitthvað fleira. Þeir komu sér upp verslunarstað á smáeyju við Hong Kong og það var reyndar um þetta leyti sem nafnið Hong Kong virðist fyrst koma til sögunnar. Þótt menn séu ekki alveg á eitt sáttir um uppruna þess telja flestir að það hafi upphaflega þýtt „ilm-höfn“. Nafnið hafi annaðhvort stafað af hressandi andblæ sem borist hafi niður með Perlufljóti eða vísað til reykelsis sem framleitt var á Kowloon-skaga fyrir norðan Hong Kong. Reykelsið var geymt í skemmum á verslunarstað Breta.
Breska krúnan gerist dópsali
Fyrir Breta var gallinn á verslun við Kínverja sá að þeir voru harðsóttir í viðskiptum. Þeir höfðu lítinn áhuga á breskum varningi í skiptum fyrir te og silki og tóku helst ekki við neinu nema gulli og silfri. Bretar brugðu þá á það kaldrifjaða ráð að fara að flytja mikið af magn af ópíumi frá Indlandi til Kína og gengu markvisst fram í því að ánetja Kínverja því fíkniefni. Varð nú breska krúnan mesti dópsali sögunnar fyrr og síðar og fékk te í staðinn fyrir dópið sem steypt var yfir Kínaveldi.
Qing-keisararnir streittust á móti þessu og vildu banna ópíum þegar þeir sáu hve illa fíknin lék þúsundir og jafnvel milljónir Kínverja. Árið 1839 kom til stríðsátaka milli Kínverja og Breta út af þessu og þá var svo illa komið fyrir Kína Qing-ættarinnar að dátar hennar og floti réðu engan veginn við útkjálkasmáríkið í Evrópu þótt mannfjöldi í Kína væri 100 sinnum meiri en á Bretlandi og menningin öll miklu eldri.
Fjárfestar koma til sögunnar!
Ópíumstríðin urðu raunar tvö en Bretar unnu í bæði skiptin og höfðu ráð Kínverja í hendi sér. Þeir komu sér vel fyrir á Hong Kong, keyptu fleiri eyjar og loks part af Kowloon-skaga og til þeirra streymdi fólk sem flúði borgarastríð og ýmsa vesöld í Kína. Hong Kong varð meiri háttar umskipunarhöfn bæði fyrir verslun við Kína og alla Suðaustur-Asíu. Fjárfestar frá Evrópu og Ameríku sáu sér hag í að byggja þar upp margvíslega starfsemi og kínverskir afhafnamenn fluttust þangað til að stunda kaupsýslu, verslun og framleiðslu alls konar. Árið 1898 leigðu Bretar allt Hong Kong svæðið af Kínverjum til 99 ára og eftir fleiri borgarastríð og valdatöku kommúnista 1949 hélt fólki áfram að fjölga.
Árið 1997 rann samningur Breta og Kínverja út og Hong Kong komst aftur undir kínversk yfirráð, flestöllum íbúum til skelfingar, en samið var um heilmikið sjálfstæði og mun meira tjáningar- og athafnafrelsi en tíðkast í Kína. Og um það stendur styrinn núna.
Athugasemdir