Þetta og svo ótal margt fleira er á döfinni næstu tvær vikurnar.
Samstöðu- og styrktarpartí fyrir Elvar
Hvar? Hard Rock Café
Hvenær? 6. desember kl. 19:.00
Aðgangseyrir: 3.500 kr.
Fáir hljóðmenn hafa verið jafn afkastamiklir og Elvar Geir Sævarsson, en auk þess að vera einn helmingur af sveitinni Helvar þá hefur hann verið í hljóðbásnum hjá að minnsta kosti annarri hverri rokksveit landsins. Því ætti ekki að koma á óvart að þegar hann fékk heilablóðfall í haust vildu margir leggja sitt af mörkum til að hjálpa honum, og því var efnt til þessa styrktartónleika. Fram koma stórsveitir eins og HAM, Sólstafir og Skálmöld, auk Morðingjanna, Momentum, Kolrössu krókríðandi, Fleka, Volcanova, Devine Defilement og Dr. Gunna og hljómsveit. DJ Töfri lýkur síðan kvöldinu með stæl. Auk aðgangseyris er tekið við frjálsum framlögum.
Andy Svarthol útgáfutónleikar
Hvar? Hressingarskálinn
Hvenær? 22. nóvember kl. 21.00
Aðgangseyrir: 2.000 kr.
Tilfinningaríka tvíeykið sem myndar kjallarapoppsveitina Andy Svarthol fagnar útkomu fyrstu breiðskífu sinnar Mörur á Hressó. Platan verður flutt í heild sinni, en sama dag verður hún fáanleg í vínylútgáfu. Fleiri atriði koma fram á þessu kvöldi, en skáldið Bragi Páll Sigurðarson les meðal annars úr nýútkominni skáldsögu sinni, Austur.
Unfiled sjónleikar I
Hvar? Mengi
Hvenær? 22. nóvember kl. 21.00
Aðgangseyrir: 2.000 kr.
Þetta eru fyrstu af þremur Unfiled sjónleikakvöldum, en þeir eru eins konar tilraunastofa þar sem mismunandi listamenn spinna ólík verk í hljóð og mynd. Á þessu kvöldi koma fram Atli Bollason og Guðmundur Úlfarsson, en þeir eru báðir reyndir raftónlistarmenn sem eru betur þekktir sem Allenheimar og Good Moon Deer.
The Irishmen
Hvar? Bíó Paradís
Hvenær? 22. nóv.–12. des.
Aðgangseyrir: 1.600 kr.
Martin Scorsese á að baki sér langan og virtan feril sem kvikmyndagerðarmaður, en margir gagnrýnendur segja að nýjasta myndin, The Irishman, sé besta mynd hans í 30 ár. Hún er byggð á sannri sögu um leigumorðingja sem á að hafa drepið verkalýðsforingjann Jimmy Hoffa.
Doomcember 2019
Hvar? Gaukurinn
Hvenær? 22.–23. nóvember
Aðgangseyrir: 5.500 kr.
Doomcember er árlegur fögnuður dúmhljómsveita, en þær einkennast af þungum, hægum og leðjukenndum hljóðfæraleik og eru því hið fullkomna tónlistarform til að hrista af sér skammdegisdepurðina og fagna myrkri vetursins. Í ár teygir hátíðin sig yfir tvö kvöld og koma eftirfarandi hljómsveitir fram: Nornagal, Kvelja, Morpholith, Saturnalia Temple, Plastic Gods, Slor, Dynfari, Katla, Sunnata og Godchilla.
Örlagaþræðir
Hvar? Harpa
Hvenær? 26. nóvember kl. 20.00
Aðgangseyrir: 3.900 kr.
Verkið Örlagaþræðir er samrunaverk þar sem söngur og dans renna saman í túlkun á ljóðum Mariu Stuart og Mathilde Wesendonck. Umfjöllunarefni skáldanna eru ólík og lifðu þær á ólíkum tímum en þær voru báðar fullar af ástríðu og þrótti. Ljóðin verða túlkuð af þeim Auði Gunnarsdóttur sópransöngkonu og Láru Stefánsdóttur dansara.
Jólabíó
Hvar? Bíó Paradís
Hvenær? 23. & 30. nóv. kl. 15.00 & 20.00
Aðgangseyrir: 1.000–1.600 kr.
Bíó Paradís efnir til sérstakra jólasýninga á vel völdum bíómyndum sem henta bæði fyrir fjölskyldur með börn og fullorðna sem varðveita ennþá börnin í sér. Á næstunni eru til sýnis Home Alone 2 þann 23. nóvember og fyrsta Harry Potter myndin 30. nóvember; haldnar eru fjölskyldusýningar klukkan 15.00 og síðan partísýningar kl. 20.00.
Verndarvættir Íslands
Hvar? Hannesarholt
Hvenær? Til 28. nóvember
Aðgangseyrir: Ókeypis!
Þessi sýning er sprottin upp úr vinnu Sigrúnar Úlfarsdóttur þar sem hún kynnti sér indverska heimspeki og orkustöðvar ayurveda-fræðanna í tengslum við hönnun skartgripa. Hún vildi gera myndverk í kringum viðfangsefnið, þar sem skartgripalína virkaði eins og eitt atriði í risastóru myndrænu hugverki þar sem myndlist og hönnun kallast á eins og tveir andstæðir pólar, úr tveimur ólíkum heimsmyndum.
Jólaforleikur Teits Magnússonar og Árna Vil
Hvar? Hard Rock Café
Hvenær? 28. nóvember kl. 21.00
Aðgangseyrir: 2.500 kr.
Vinirnir Teitur og Árni eru báðir vel þekktir í tónlistarheiminum; Teitur fyrir að vera skeggprúður þjóðlagatöframaður sem heldur messur tileinkaðar draumum og góða lífinu á hverjum tónleikum, og Árni fyrir að vera óheflaður stuðbolti. Á þessum jólaforleik verður auk tónleika lesin jólasaga og fluttur þakkargjörningur.
Drag-Súgur fjáröflun fyrir Báru
Hvar? Gaukurinn
Hvenær? 28. nóvember kl. 21.30
Aðgangseyrir: 2.940 kr.
Uppljóstrarinn Bára Halldórsdóttir hefur staðið í ströngu frá því að hún leysti frá skjóðunni um fund nokkurra þingmanna Miðflokksins og úr Flokki fólksins á Klausturbar í fyrra þar sem þeir afhjúpuðu meðal annars fordóma sína gagnvart fötluðum, konum og fleirum. Nú stendur hún frammi fyrir miklum lögfræðikostnaði og því hafa dragdrottningarnar (og konungarnir) í hinsegin kabaretthópnum Drag-Súgur ákveðið að efla til fjáröflunarviðburðar henni til stuðnings.
Jólafjör Stórsveitar Reykjavíkur
Hvar? Harpa
Hvenær? 1. desember kl. 17.00
Aðgangseyrir: 4.250 kr.
Stórsveit Reykjavíkur stendur fyrir árlegum barna- og fjölskyldutónleikum. Tónleikarnir hafa vakið mikla lukku í gegnum árin, sérstaklega hjá yngri hlustendum, sem fá tækifæri til að skyggnast inn í töfraheim djass- og stórsveitartónlistar. Á þessum viðburði flytur rithöfundurinn og teiknarinn Bergrún Íris Sævarsdóttir einnig nýja jólasögu sem hún hefur samið fyrir þetta tilefni undir tónspili Stórsveitarinnar.
Jólaævintýri Þorra og Þuru
Hvar? Tjarnarbíó
Hvenær? 1., 8., 15. & 22. des kl. 13.00
Aðgangseyrir: 3.100 kr.
Álfarnir Þorri og Þura sýna nýtt jólaleikrit, en þeir hafa heimsótt þúsundir leikskólabarna með farandssýningum sínum síðan árið 2008, komið fram á ýmsum hátíðum og slógu í gegn með jólaþáttunum Týndu jólin sem sýndir voru á RÚV síðustu jól. Þorri og Þura eru bestu vinir og miklir fjörkálfar, en sýningar þeirra einkennast af gleði, vináttu og dillandi skemmtilegri tónlist.
Aðventutónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands
Hvar? Harpa
Hvenær? 5. desember kl. 19.30
Aðgangseyrir: frá 2.600 kr.
Á aðventutónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands hljóma perlur eftir meistara barokktónlistar frá 17. og 18. öld. Flutt verða verk eftir frönsku tónskáldin Jean-Baptiste Lully og Jean-Philippe Rameau, og þýsku tónskáldin Georg Philipp Telemann og Johann Sebastian Bach. Hljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands þetta kvöld verður hinn rússneski Maxim Emelyanychev.
Skúraleiðingar #3
Hvar? Hard Rock Café
Hvenær? 5. desember kl. 21.00
Aðgangseyrir: 1.000 kr.
Það verður líf og fjör þegar nokkrar bílskúrshljómsveitir koma úr skúrnum í haust og stinga í samband. Á þremur fimmtudagskvöldum munu þrjár hljómsveitir troða upp í hvert skipti og flytja frumsamið efni og ábreiður í bland. Búast má við rokki, pönki, blús og öðru slíku. Á þessu þriðja og síðasta kvöldi stíga á svið Sverrisson Hotel, Blúsband Þorkels Jóelssonar og félagar og Gunk.
Japanskir kvikmyndadagar 2019
Hvar? Bíó Paradís
Hvenær? 5.–10. desember
Aðgangseyrir: 1.600 kr. hver mynd
Japanskir kvikmyndadagar eru haldnir enn og aftur í ár, en í þetta skiptið verða sjö myndir til sýnis. Meðal þeirra eru rómantíska fantasíumyndin Your Name sem sló öll fyrri met japanskra teiknimynda þegar hún kom út 2016, ástkæra Studio Ghibli ævintýramyndin Howl’s Moving Castle og sálfræðitryllirinn Perfect Blue sem var ein af fyrstu myndum til að vekja máls á hættum sem frægu fólki stafar af rafrænu aðgengi aðdáenda að því.
Athugasemdir