Tveir sérsveitarmenn, vopnaðir skammbyssum, sáust meðal gesta á skemmtistaðnum Hressingarskálanum við Austurstræti þegar þeir veittu lögreglunni liðsinni við handtöku. Ölvaður karlmaður var handtekinn, klukkan hálf tvö aðfaranótt síðastliðins sunnudags, grunaður um líkamsárás. Sérsveitarmenn báru manninnn í lögreglubíl.
Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, upplýsingafulltrúi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir manninn, grunaðan um líkamsárásina, ekki hafa verið vopnaðan. Um ofurölvaðan einstakling var að ræða samkvæmt starfsmanni Hressingarskálans.
Mikill erill er almennt í miðbæ Reykjavíkur um helgar vegna óláta og slagsmála og eru fangageymslur lögreglunnar oft og tíðum þéttsetnar. Stundin hefur ítrekað krafið ríkislögreglustjóra svara um hvort stefnubreyting hafi orðið á löggæslu með skemmtanahaldi um helgar og hvort sérsveit ríkislögreglustjóra muni komi til með að sinna slíkri löggæslu meira en áður hefur verið. Engin svör hafa borist. Þá hefur ríkislögreglustjóri ekki svarað fyrirspurnum um atvikið.
Vopnaburður lögreglumanna hefur verið mjög sýnilegur upp á síðkastið. Í samtali við Stundina fyrr í þessari viku sagði Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri aukinn fjölda erlendra borgara á Íslandi og mannskæðar árásir í Evrópu að undanförnu á meðal þess sem hafi kallað á aukinn vopnaburð lögreglu. Þá segir Haraldur að gera megi ráð fyrir vopnuðum lögreglumönnum á hátíðum þar sem tugþúsundir manna koma saman.
Ákveður vopnaburðinn einhliða
Haraldur segir sig geta einhliða ákveðið að auka vopnaburð lögreglunnar. Ekki þurfi að koma til samþykki hjá dómsmálaráðherra eða þjóðaröryggisráði, svo eitthvað sé nefnt.
„Sérsveitin er á ábyrgð ríkislögreglustjóra. Þetta er eina vopnaða lögreglan í landinu og hún heyrir undir ríkislögreglustjóra. Og það er hans að vega og meta og taka ákvarðanir um það með hvaða hætti sérsveitin starfar,“ segir hann.
Að sögn Haraldar er ekki verið að auka vopnaburð. „Við erum ekki að auka vopnaburð. Það sem við erum að gera er að við erum að gera hina vopnuðu lögreglu í landinu, sérsveit ríkislögreglustjóra, sem dagsdaglega er undir vopnum, meira sýnilega á stórum samkomum. Samkomum þar sem tugir þúsunda koma saman á einhverri útihátíðinni.“
Breyttur veruleiki íslensks almennings
Haraldur segir íslenskan almenning þurfa að búa við breyttan veruleika, þar sem vopnaðir sérsveitarmenn verða sýnilegir á útihátíðum, en í því sé „engin stefnubreyting fólgin“.
„Já. Við þurfum að átta okkur á því að sérsveitarmenn eru vopnaðir. Og þeir eru orðnir mjög sýnilegir í íslensku samfélagi. Þannig að almenningur er farinn að sjá vopnaða lögreglumenn mjög mikið hér á höfuðborgarsvæðinu. Þannig að það er engin nýlunda, það er engin stefnubreyting hvað það varðar. En almenningur á von á að sjá vopnaða sérsveitarmenn á þessum stóru útihátíðum,“ segir Haraldur í samtali við Rúv.
Þá fundaði nýstofnað þjóðaröryggisráð Íslands á „öruggum stað“ vegna meintrar hryðjuverkaógnar á Íslandi, í kjölfar þess að stefnubreyting hefur orðið í viðbúnaði lögreglu án þess að umræða hafi átt sér stað. Aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra, Svanhildur Hólm Valsdóttir, segir valið á fundarstaðnum hafa ráðist af því að „dagskrá fundarins kallaði á að fundarstaðurinn uppfyllti nauðsynlegar öryggiskröfur,“ samkvæmt fréttum Rúv.
Mikil umræða varð eftir að sérsveitarmenn ríkislögreglustjóra gengu um vopnaðir skotvopnum í miðbæ Reykjavíkur á meðan fjölskylduhátíðin Color Run fór fram um í byrjun mánaðarins.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri Grænna og einn meðlima þjóðaröryggisráðsins, gagnrýndi harðlega viðveru vopnaðara sérsveitarmanna á hátíðinni og sagði þörf á opinberri umræðu um málið. „Mál síðustu viku var tvímælalaust umræða um vopnaburð sérsveitarmanna á mannamótum hér á landi. Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis fundaði á föstudaginn um málefni lögreglunnar og aukinn vopnaburð hennar. Fundarmenn voru sammála um að þörf væri á auknu upplýsingaflæði og opinberri umræðu um þá ákvörðun ríkislögreglustjóra að vopnaðir sérsveitarmenn skyldu vera sýnilegir á fjölskylduhátíðum í sumar,“ sagði Katrín í færslu á Facebook.
Athugasemdir