Sigríður Björk Guðjónsdóttir, fyrrverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum skráði ekki í málaskrá lögreglunnar á Suðurnesjum að hún hefði miðlað skýrsludrögum um málefni Tony Omos til Gísla Freys Valdórssonar, fyrrverandi aðstoðarmanns innanríkisráðherra. Þá lét hún undir höfuð leggjast að uppfylla aðrar öryggiskröfur sam kveðið er á um í lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
Í yfirlýsingu sem Sigríður sendi frá sér rétt í þessu, fyrir hönd embættis lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, segir hún: „Í niðurstöðu Persónuverndar kemur ekki fram að ég hafi gerst brotleg við lög þegar ég varð við ósk aðstoðarmanns Innanríkisráðherra um að senda honum skýrsludrög um málefni hælisleitanda þann 20. nóvember 2013.”
Þetta er villandi fullyrðing, því samkvæmt niðurstöðu Persónuverndar braut lögreglan á Suðurnesjum 11. og 12. grein persónuverndarlaga. „Framangreindan skort á skráningu hjá Lögreglunni á Suðurnesjum og innanríkisráðuneytinu telur Persónuvernd hafa farið í bága við 1. og 2. mgr. 11. gr. og 12. gr. laga nr. 77/2000,“ segir orðrétt í úrskurðinum. Er þetta ítrekað tvívegis auk þess sem fram kemur að aðrar öryggiskröfurnar sem kveðið er á um í lagaákvæðunum hafi ekki verið uppfylltar.
Þetta er villandi fullyrðing, því samkvæmt niðurstöðu Persónuverndar braut lögreglan á Suðurnesjum 11. og 12. grein persónuverndarlaga. „Framangreindan skort á skráningu hjá Lögreglunni á Suðurnesjum og innanríkisráðuneytinu telur Persónuvernd hafa farið í bága við 1. og 2. mgr. 11. gr. og 12. gr. laga nr. 77/2000,“ segir orðrétt í úrskurðinum. Er þetta ítrekað tvívegis auk þess sem fram kemur að aðrar öryggiskröfurnar sem kveðið er á um í lagaákvæðunum hafi ekki verið uppfylltar.
Sigríður Björk segir einnig í yfirlýsingu sinni að Persónuvernd hafi komist að þeirri „niðurstöðu að miðlun skýrsludraganna hafi ekki stuðst við viðhlítandi heimild þar sem hún var ekki á meðal gagna í því máli hælisleitandans sem til meðferðar var í ráðuneytinu. Það gat ég sem sendandi hvorki vitað né tryggt.” Samkvæmt þessu telur Sigríður Björk það ekki hafa verið á sinni ábyrgð sem lögreglustjóri að meta hvort viðhlítandi lagaheimild væru fyrir hendi áður en persónuupplýsingar voru sendar frá lögregluembættinu. Í úrskurðinum kemur þó fram að Lögreglan á Suðurnesjum hafi verið ábyrgðaraðili og átt að sjá til þess að skilyrði persónuverndarlaga væru uppfyllt.
Samkvæmt heimildum Stundarinnar upplýsti Sigríður Björk aldrei lögregluna á höfuðborgarsvæðinu um samskipti sín við Gísla þá mánuði sem rannsókn lekamálsins stóð yfir. Sigríður gegnir nú stöðu lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, en hún var skipuð í starfið án auglýsingar eftir að Stefán Eiríksson hætti sem lögreglustjóri í kjölfar ítrekaðra afskipta fyrrverandi innanríkisráðherra af rannsókn lekamálsins. Athugun Persónuverndar á samskiptum Sigríðar Bjarkar og Gísla Freys má rekja til fréttar sem DV birti þann 18. nóvember síðastliðinn. Þremur dögum eftir að sú frétt birtist sagði Hanna Birna af sér ráðherraembætti.
Athugasemdir