Lögmaðurinn Vilhjámur H. Vilhjálmsson sendi í dag út kröfubréf fyrir hönd tveggja manna, sem kenndir hafa verið við Hlíðarmálið svokallaða. Bréfin sendi hann meðal annars á fólk sem tjáði sig á samfélagsmiðlum í kjölfar fréttaflutnings á forsíðu Fréttablaðsins, þar sem því var haldið fram að íbúð í Hlíðunum hefði verið sérstaklega útbúin til nauðgana. Tvær konur kærðu mennina tvo fyrir nauðganir í téðri íbúð. Málunum var báðum vísað frá dómi.
Hlíðarmálið vakti mikla athygli og jafnframt reiði í samfélaginu. Efnt var til mótmæla fyrir utan lögreglustöðina við Hlemm auk þess sem almenningur fór mikinn á samskiptamiðlum undir myllumerkinu #almannahagsmunir. Þá voru birtar myndir af mönnunum opinberlega og þeir nafngreindir.
Vilhjálmur staðfestir í netspjalli við blaðamann að hafa sent út kröfubréfin en vill ekki tjá sig að öðru leiti við Stundina.
Kröfurnar sem Stundin hefur undir höndum hljóða allar uppá opinbera afsökunabeiðni, að ummæli verði dregin tilbaka auk greiðslu skaðabóta. Skaðabótakrafan hljómar allt frá einni milljón króna á hvorn skjólstæðing Vilhjálms, auk lögfræðikostnaðar, til þriggja milljóna á hvorn skjólstæðing Vilhjálms, auk lögfræðikostnaðar. Þá er viðtakendum bréfanna gefin frestur til mánudagsins 2. maí ellegar gætu þeir átt von á að vera sóttir til saka.
Blaðamaður ræddi við fjóra einstaklinga sem fengu slíka kröfu frá Vilhjálmi og öllum var mjög brugðið. Ein lýsti því sem hálfgerðu áfalli. Hún hafði fengið bréfið í almennum pósti í dag.
Áður hafði Vilhjálmur kært tvær konur sem kærðu mennina fyrir kynferðisbrot á móti fyrir rangar sakargiftir. Auk þess sem hann kærði aðra þeirra fyrir kynferðisbrot. Öllum málunum var vísað frá.
Athugasemdir