Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, brást illa við á Facebook-síðu sinni vegna ræðu Gylfa Arnbjörnssonar 1. maí síðastliðinn. Gylfi, forseti ASÍ, lagði til í ræðu sinni að stéttarfélög Íslands myndu sameina krafta sína fyrir bættum kjörum félagsmanna. Að sögn Gylfa myndi sameining 110 þúsund félagsmanna hámarka þrýsting á atvinnurekendur.
„Bara þannig að launafólk átti sig á því hvað forsetinn er að biðja um þá er það að hann fái að stýra og leiða þessar kjaraviðræður við Samtök atvinnulífsins. Ekki gleyma því að Samtök atvinnulífsins eru búin að vera að kalla eftir því opinberlega að ASÍ sjái um að leiða þessar kjaraviðræður sem nú eru í gangi. Það hefur svo sem ekki komið mér á óvart því að sjálfsögðu vilja menn taka aftur upp þráðinn í samræmdu láglaunastefnunni,“ skrifaði Vilhjálmur á Facebook-síðu sína.
Samræmd láglaunastefna
Vilhjálmur segir enn fremur að Gylfi sé einungis að þvælast fyrir meðan aðrir reyna að landa viðunandi samningi fyrir verkafólk.
„Skildi forseti ASÍ vilja taka aftur upp samræmdu láglaunastefnuna sem hann stýrði bæði í kjarasamningunum 2011 og svo aftur í hinum margfræga 2,8% samningi 2013? Takið eftir samningarnir 2011 og 2013 voru undir einum fána 110 þúsund félagsmanna ASÍ og það gaf alls ekki góða raun. Gylfi nei takk, ekki samræmda láglaunastefnu aftur og ég er bara með eina ósk, ekki vera að þvælast fyrir á meðan við eru að reyna að landa viðunandi samningi fyrir verkafólk,“ skrifar Vilhjálmur.
Athugasemdir