Lagt var kapp á að halda því leyndu að ellilífeyrisþegar hefðu samkvæmt lagabókstaf öðlast réttindi upp á 2,5 milljarða í upphafi ársins vegna mistaka sem urðu við breytingar á almannatryggingalögum síðasta haust. Tölvupóstssamskipti milli starfsmanna velferðarráðuneytisins og Tryggingastofnunar sýna að eftir að mistökin urðu ljós var lögð talsverð áhersla á að tryggja að upplýsingar um þau umframréttindi sem virtust óvart hafa orðið til lægju í þagnargildi.
Fréttatíminn fjallaði um málið á dögunum og vitnaði í tölvupóst þar sem velferðarráðuneytið biður framkvæmdastjóra réttarsviðs Tryggingastofnunar um að ræða einungis um mistökin við forstjóra Tryggingastofnunar en ekki aðra innan stofnunarinnar. „Bara slb [Sigríður Lillý Baldursdóttir, forstjóri TR, innsk. blaðam.] og biðja hana um að tala ekki um þetta út á við,“ segir í tölvupósti frá ráðuneytisstarfsmanninum sem Stundin hefur undir höndum. Taldi hann brýnt að „hamra á því“ að um „villu“ í lögunum væri að ræða og óskaði eftir aðstoð við að tína til gögn því til stuðnings. „Ef þið munið eftir einhverju eða finnið eitthvað sem við getum notað í rökstuðning varðandi slíkar villur (þarf ekki að vera fyrir mánudaginn) þá endilega sendið mér. Mikið í húfi!“ skrifaði hann.
Eins og Stundin hefur áður greint frá ollu umrædd mistök því að samkvæmt lagabókstafnum hefðu tekjur úr lífeyrissjóðum ekki átt að gilda til skerðingar á ellilífeyri. Ætlunin var hins vegar að þetta ætti einungis við um útreikning örorkulífeyris. Í janúar og febrúar greiddi Tryggingastofnun ekki eftir lögunum heldur eftir túlkun sinni og velferðarráðuneytisins á vilja löggjafans. Rétt framkvæmd laganna hefði kostað hið opinbera samtals um 5 milljarða króna þessa tvo mánuði. Að því er fram kemur í umfjöllun Fréttatímans fékk Tryggingarstofnun sérstök fyrirmæli frá ráðuneytinu um að gera ráð fyrir að greiða út lífeyri marsmánaðar „með sama hætti“ og áður.
„Við ætlum að hamra á því að þetta sé hreinlega villa í lögunum,“ segir í tölvupósti frá staðgengli skrifstofustjóra til framkvæmdastjóra réttarsviðs Tryggingastofnunar. Þessari yfirlýsingu var svo fylgt eftir af þingmönnum stjórnarmeirihlutans sem „hömruðu“ á því í þingsal að um mistök og villu væri að ræða.
Athugasemdir