Elín Sigrún Jónsdóttir lögfræðingur hætti sem framkvæmdastjóri dómstólaráðs árið 2011 eftir að hafa kvartað undan yfirgangi og meintu einelti ráðsmanna en ekki talið sig fá sanngjarna málsmeðferð. Hafði hún þá starfað sem framkvæmdastjóri dómstólaráðs í rúman áratug við góðan orðstír. Stundin náði tali af öðrum hinna meintu gerenda sem vísar ásökunum Elínar á bug og segir þær tilhæfulausar með öllu.
Þetta er á meðal þess sem fjallað er um í ítarlegri fréttaskýringu Stundarinnar um stjórnsýslu og innra eftirlit dómstólanna í nýjasta tölublaði.
Sjá einnig:
Undirmaður og kollegar dómstjóra
rannsökuðu vinnubrögð hans
Staða kvenna í dómstólakerfinu áfram veik
Maður með fjölskyldutengsl við dómstjóra ráðinn í launalaust starf hjá Héraðsdómi
„Eitt er að ganga í gegnum andlegt ofbeldi. En það sem reyndist mér jafnvel erfiðara var að upplifa algjört úrræðaleysi stjórnsýslunnar,“ segir Elín í samtali við Stundina. Beiðni hennar um að fram færi óháð rannsókn á eineltismálinu velktist um í kerfinu, var kastað á milli ráðuneyta og stofnana, í rúm tvö ár eftir að hún lauk störfum fyrir dómstólana. Að lokum komst innanríkisráðuneytið að þeirri niðurstöðu að málið yrði ekki rannsakað, meðal annars á þeim grundvelli að ekki ríkti lengur óviðunandi ástand á vinnustaðnum.
Norðmenn buðu fram aðstoð
Samskiptavandinn tók sig upp eftir að Elín starfaði um tíma hjá yfirstjórn norsku dómstólanna í Þrándheimi haustið 2009 til að kynna sér rekstur norsku dómstólanna og stjórnsýslu þeirra. „Í Noregi kynntist ég stórkostlegri stjórnsýslu þar sem fagleg vinnubrögð eru í fyrrirrúmi. Á þessum tíma höfðu Norðmenn miklar áhyggjur af íslensku dómstólakerfi og hvernig tekist yrði á við hrunmálin. Þeir áttu ekki til orð þegar ég sagði þeim hvernig dómstjórar og dómarar væru valdir á Íslandi og hvernig stjórnsýsla dómstólanna hérlendis virkar, þeim féllust hreinlega hendur og buðust til að veita Íslendingum alla þá aðstoð og ráðgjöf sem við þyrftum á að halda. Ég gerði mér grein fyrir því að tilboð norsku dómstólanna var gríðarlega mikils virði fyrir þá íslensku,“ segir Elín.
Ráðsmenn í dómstólaráði lýstu sig andstæða tilboði Norðmanna og voru ósammála Elínu um að Íslendingar þyrftu utanaðkomandi aðstoð til að bæta stjórnsýslu dómstólanna.
Athugasemdir