Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, óttaðist að Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi fjármálaráðherra, sæi skýrsluna um endurreisn íslenska bankakerfisins áður en hún yrði birt opinberlega. Þetta kemur fram í tölvupósti sem Vigdís virðist hafa sent fyrir mistök.
Í skýrslunni, sem unnin var af Vigdísi og Guðlaugi Þór Þórðarsyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, og kennd er við meirihluta fjárlaganefndar, eru settar fram alvarlegar ásakanir gegn Steingrími, embættismönnum og sérfræðingum sem tóku þátt í vinnu við endurreisn íslenska bankakerfisins á síðasta kjörtímabili.
Steingrímur er sakaður um að hafa tekið hagsmuni kröfuhafa bankanna fram yfir hagsmuni íslensku þjóðarinnar. Hann fékk ekki tækifæri til að verja sig gegn ásökunum skýrsluhöfunda eða greina frá sínum sjónarmiðum áður en skýrslan var kynnt á blaðamannafundi í fyrradag.
„Statement“ Vigdísar og Guðlaugs
Stundinni barst tölvupóstur frá Vigdísi Hauksdóttur í gær sem virðist hafa verið sendur fyrir mistök. Stundin birtir póstinn vegna þess að hann varpar ljósi á einbeittan ásetning formanns fjárlaganefndar um að koma í veg fyrir að þeir sem eru ásakaðir í skýrslu, sem kennd er við Alþingi, fái tækifæri til að verja hendur sínar eða færa fram skýringar, eins og hefðbundið verklag við gerð rannsóknarskýrslna felur í sér.
Tölvupóstur Vigdísar var sendur á blaðamann Stundarinnar, Jóhann Pál Jóhannsson, en virðist hafa verið ætlaður Páli Jóhanni Pálssyni, fulltrúa Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd.
Í tölvupóstinum segist Vigdís hafa verið „skíthrædd“ um að Steingrímur J. fengi skýrsluna í hendur, en til allrar hamingju hafi „þingið“ haldið trúnaði.
Vigdís segir jafnframt að það hafi verið „statement“ hjá henni og Guðlaugi Þór Þórðarsyni, varaformanni fjárlaganefndar, að leggja sjálf út fyrir kostnaðinum vegna skýrslunnar.
Þá segir Vigdís að Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, hafi hlaupið á sig þegar hún „dissaði íslenskunni [sic] í skýrslunni“.
Þetta er í annað sinn í vikunni sem Vigdís notar sögnina að „dissa“, en í viðtali við Harmageddon á þriðjudag sagði hún að Steingrímur J. Sigfússon væri að „dissa eftirlitshlutverk þingsins“.
„Ég var skíthrædd“
Forsagan er sú að Stundin sendi Vigdísi og Guðlaugi Þór Þórðarsyni, varaformanni nefndarinnar, fyrirspurn um tilurð skýrslunnar á mánudagskvöld. Þar var eftirfarandi spurninga spurt:
1. Hvers vegna hefur skýrslan ykkar ekki birst á vef Alþingis?
2. Af hverju greidduð þið kostnaðinn sjálf?
3. Er skýrslan unnin á vegum fjárlaganefndar?
4. Hvers vegna eru ekki nöfn meirihluta nefndarmanna við hana?
5. Samþykkti meirihluti nefndarinnar skýrsluna?
6. Hvaða utanaðkomandi sérfræðingar komu að gerð hennar?
7. Var skýrslan prófarkalesin í samræmi við það sem tíðkast þegar þingnefndir skila af sér skýrslum?
Svar Vigdísar barst í gærkvöldi en þar ávarpar hún viðtakanda sem Palla og gerir ráð fyrir því að hann sitji með henni í fjárlaganefnd:
Palli minn – ég er að fara í gegnum póstinn minn og sá þá þennan póst frá þér – fyrirgefðu hvað ég svara þér seint
Sko – ég sendi ykkur skýrluna og fylgiskjölin á sunnudaginn
Við tökum málið út á morgun – og gerum hana að þingskjali með nöfnunum okkar í meirihlutanum á
Við vorum með ”statement” með því að greiða kostnaðinn sjálf – rannsóknarskýrslur Alþingis hafa hingað til kostað 500-700 milljónir
Þú varst búinn að greiða atkvæði með að vera með á henni
Því miður hljóp Oddný á sig í kvöld og dissaði íslenskunni í skýrslunni – en s.s. hún kom úr íslensku og innsláttarvillulestri s.l. mánudag (ég var skíthrædd við að SJS myndi fá hana) – en þingið hélt trúnaði
Annars hlakka ég til að hitta þig á morgun J
Kv.
Skýrsluhöfundar hafa verið gagnrýndir fyrir að gefa þeim sem skýrslan fjallar um, svo sem embættismönnum og fyrrverandi ráðherrum á borð við Steingrím J. Sigfússon, ekki færi á að tjá sig um ávirðingarnar sem þar eru settar fram á hendur þeim.
Tölvupóstur Vigdísar staðfestir að ekki aðeins voru sjónarmið um andmælarétt höfð að engu við gerð skýrslunnar heldur leitaðist formaður fjárlaganefndar við að halda efnisatriðum og ásökunum sem fram koma í skýrslunni leyndum fyrir Steingrími.
Eins og Stundin greindi frá í gær var skýrslan aldrei tekin á dagskrá í fjárlaganefnd þrátt fyrir að hún sé sérstaklega kennd við „meirihluta fjárlaganefndar“. Þetta hafa nefndarmenn staðfest og stjórnarandstöðuþingmenn gagnrýnt. Jafnframt hafa efnistök og umbrot skýrslunnar verið höfð að háði og spotti á samfélagsmiðlum eftir að hún birtist.
Skjalið ber þess merki að vera óprófarkalesið og byggir að miklu leyti á úrklippum eða skjáskotum af gögnum sem þegar eru komin fram. Þá er orðalag skýrslunnar afar frábrugðið því sem tíðkast í þingskjölum. Samkvæmt tölvupósti Vigdísar var skjalið samt lesið yfir af starfsmönnum þingsins.
Fjármálaráðherra ekki lesið skýrsluna
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, gaf lítið fyrir vinnu Vigdísar og Guðlaugs Þórs í viðtali við fréttastofu RÚV í dag. Haft var eftir honum að hann hefði ekki lesið skýrsluna. Þá segir í fréttinni:
„Bjarni vill ekki tjá sig um hvort að tilurð skýrslunnar sé óvenjuleg. Meirihluti fjárlaganefndar sé ábyrgur fyrir skýrslunni, en það ráðist af framhaldinu hversu óvenjuleg skýrslan sé, eins og frekari umræðum um hana í fjárlaganefnd og því hvort hún verði að þingskjali“.
Meginefni skýrslunnar er að stjórnvöld á tímum vinstri stjórnarinnar hafi tekið hagsmuni kröfuhafa fram yfir hagsmuni þjóðarinnar með því að afhenda kröfuhöfum bankana. Bent hefur verið á að meðal þeirra sem studdu sömu leið eru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. Í samtali við Fréttablaðið í febrúar 2009 sagði Sigmundur, þá eigandi félagsins Wintris á Bresku jómfrúareyjunum, sem gerði kröfu upp um á 523 milljónir króna í þrotabú íslensku bankana, að besta leiðin til að skapa traust væri að afhenda erlendum kröfuhöfum hlut í bönkunum.
„Að mínu mati er langbesta leiðin að erlendir kröfuhafar eignist hlut í bönkunum. Fyrir því eru nokkrar ástæður, helst þær að með því öðlast bankakerfið aukið traust - því miður er traust á íslenskum stjórnvöldum og bankakerfi ákaflega lítið. Þá dregur það úr þeirri hættu að þau mistök sem voru gerð endurtaki sig. Ef bankarnir fara í eigu erlendu kröfuhafanna þá hafa þeir ríka ástæðu til að bönkunum gangi vel og halda þeim gangandi. En til að þetta megi verða þarf að tryggja stöðu þeirra sem skulda bönkunum að því leyti að ekki verði gengið að þeim og íslenskt efnahagslíf lagt í rúst. Sé það tryggt þá er þetta besta leiðin.“
Vildi ekki gefa upp hverjir komu að gerð skýrslunnar
Á kynningarfundi vegna skýrslunnar neitaði Vigdís að greina frá því hverjir hefðu komið að gerð skýrslunnar, aðrir en hún og Guðlaugur Þór, ásamt meðlimum og starfsmönnum fjárlaganefndar, en í kynningu á henni kom fram að meirihluti fjárlaganefndar hefði „látið vinna skýrslu“ um einkavæðingu bankanna hina síðari.
Vigdís og Guðlaugur greiddu sjálf 90 þúsund krónur fyrir gerð skýrslunnar, en Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, sagðist í samtali við Kjarnann ekki muna eftir fordæmi fyrir því að þingmenn greiddu sjálfir kostnaðinn við gerð skýrslna.
Ásakanir, sambærilegar þeim sem birtast í skýrslunni, hafa ítrekað verið bornar til baka, meðal annars af Brynjari Níelssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, í skýrslu hans fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. Vigdís Hauksdóttir hefur ekki enn svarað spurningum Stundarinnar með öðrum hætti en hún gerir í bréfinu sem ætlað var Páli Jóhanni Pálssyni.
Athugasemdir