Viðreisn gagnrýnir umræðuna um skýrslur tveggja sérfræðingahópa um skattsvik sem lagðar voru fram í dag. Á Facebook-síðu flokksins er fullyrt að margir hafi „staðnæmst við algert aukaatriði í skýrslunum, en ekki kynnt sér þær til sem skyldi.“ Í annarri skýrslunni er lagt til að 10 þúsund króna seðilinn verði tekinn úr umferð og því næst 5 þúsund króna seðillinn.
Fram kom í viðtali við Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra og formann Viðreisnar, á vef RÚV um hádegisleytið í dag að hann ætlaði að beita sér fyrir því að dregið yrði úr notkun reiðufjár. „Það eru ekki margir sem eru með 10 þúsund króna seðla í vasanum. Engu að síður þá eru það helmingurinn af reiðufé í umferð samkvæmt tölum seðlabankans. Þannig að þá spyr maður, hverjir eru það sem eru með alla þessa tíu þúsund kalla,“ sagði hann og bætti við: „Með því að minnka seðlanna sem eru í umferð þá verður óþægilegra að nota þá
Í kjölfarið sætti Benedikt harðri gagnrýni í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Egill Helgason sagði að hugmyndin væri „einhver fávitalegasta efnahagsaðgerð sem maður hefur heyrt um“ og Teitur Björn Einarsson, þingmaður samstarfsflokks Benedikts í ríkisstjórn sagði að tillagan væri „kolröng nálgun og hreinlega galin hugmynd“.
Nú hefur Benedikt fjarlægt sig þeim tillögum sem kynntar voru í skýrslunum. „Ég kom ekkert nálægt skýrsluvinnunni sjálfur og gaf engar skipanir um um niðurstöður,“ skrifar hann í pistli sem birtist á vef Viðreisnar í kvöld.
„Ég kom ekkert nálægt skýrsluvinnunni sjálfur og gaf engar skipanir um um niðurstöður“
Þá viðurkennir hann, að því er varðar tillöguna um að taka 10 þúsund kallinn úr umferð, að „miðað við fyrstu viðbrögð er samfélagið ekki tilbúið í svo róttæka hugmynd.“
Benedikt telur að fæstir þeirra sem hafa tjáð sig um tillögurnar hafi lesið sér nægilega til. „Líklega hafa fæstir þeirra sem hafa tjáð sig um allar þessar tillögur í dag kynnt sér skýrslurnar enda báðar um 40 blaðsíður á lengd. Ég hvet alla til þess að kynna sér tillögurnar og móta sér svo skoðun,“ skrifar fjármálaráðherra.
Þá bendir hann á að starfshópurinn leggi ekki til að reiðufé verði bannað. „Meðaltalsútreikningar sýna að meðal-Íslendingurinn á tæplega 200 þúsund krónur í reiðufé þar af helminginn í tíuþúsundköllum. Vegna þess að fæstir kannast við að eiga slíkar fjárhæðir í seðlum vaknar grunur um að reiðufé sé súrefni svarta hagkerfisins.“
Með því að minnka notkun reiðufjár megi þannig þrengja að svarta hagkerfinu, en ætlunin sé ekki að vega að heiðarlegu fólki.„Tillögur nefndarinnar eru heldur ekki settar fram til þess að hygla greiðslukortafyrirtækjum heldur leggur hún þvert á móti fram tillögur um gjaldfrjálsa reikninga almennings í Seðlabankanum, reikninga sem ekki bæru viðskiptagjöld,“ skrifar Benedikt.
Athugasemdir