Síðustu daga hafa hundruð flóttamanna drukknað í Miðjarðarhafi. Öll þeirra eru að reyna að komast framhjá sífellt harðnandi landamæragæslu Evrópu, mörg til að flýja stríð og örbirgð. Í gær birti listamaðurinn Khaled Barakeh ljósmyndir af dánum börnum sem hafði skolað á land eftir að bát þeirra hvolfdi á Miðjarðarhafinu. „Frá gærnótt hafa meira en 80 Sýrlendingar og Palestínumenn drukknað í Miðjarðarhafinu nálægt Líbýuströndum við að reyna að ná til Evrópu,“ segir hann í lýsingu með myndunum. Talið er að í heild hafi um 200 manns drukknað.
Evrópsk yfirvöld hafa reynt að ásaka smyglara um dauðsföllin. Með því er átt við fólkið sem selur flóttamönnum far í bátunum. Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, hefur meira að segja hvatt til þess að bátarnir verði eyðilagðir svo enginn geti lagt af stað í hættuförina yfir Miðjarðarhafið. Navid Nouri, flóttamaður frá Íran sem býr nú á Íslandi, er ósammála þessari nálgun. Hann fór frá Tyrklandi til Grikklands í bát árið 2008, en flestir flóttamenn fara þá leið inn í Evrópu. Hann segir fólk fara sjálfviljugt með smyglurunum því það eigi ekki annan kost. Í raun sé mesta hættan á ferðinni af evrópskum landamæravörðum.
Segir stafa hættu af strandgæslunni
„Ef gríska strandgæslan finnur þig í sjófærum bát þá þvinga þeir þig til að fara aftur til Tyrklands,“ segir Navid. „Smyglararnir kenna einum flóttamanninum að sigla í skiptum fyrir ódýrara far. Honum er sagt að stinga gat á bátinn þegar komið er á áfangastað, svo það sé ekki hægt að senda bátinn til baka.“ Þetta sé þó bara áreiðanlegt þegar fjölskyldur eru í bátunum. Viðhorf til einstæðra karla séu miskunnarlaus.
„Starfsmenn landamæragæslunnar reyna sjaldnast að eiga samskipti við fólkið til að athuga mögulega þörf þeirra á vernd“
„Vinur minn hefur reynt þrisvar eða fjórum sinnum að komast til Grikklands, en alltaf mistekist. Eitt skiptið var hann í gúmmíbát við fjórða mann og mætti strandgæslunni. Hún tók þá upp í skipið, rændi þá öllu sem þeir höfðu og setti þá aftur í bátinn – og stungu gat á hann. Einn þeirra þurfti að halda fyrir gatið meðan hinir réru aftur til Tyrklands. Það tók átta tíma.“
Human Rights Watch lýsti sambærilegum árásum strandgæslunnar í skýrslunni „Stuck in a revolving door“ árið 2008, og bætti þar við að „starfsmenn landamæragæslunnar reyna sjaldnast að eiga samskipti við fólkið til að athuga mögulega þörf þeirra á vernd“.
Hátt í þrjú þúsund drukknaðir
Navid segist hafa valið sjóleiðina því landleiðin er jafnvel verri. „Ef þeir grípa þig á landleiðinni taka þeir þig og fleygja þér strax til baka, án tillits til laga.“
Þetta ár hafa hátt í þrjúþúsund manns drukknað í „síki Evrópu“, eins og erlendir fjölmiðlar eru farnir að kalla Miðjarðarhafið. Líkurnar á að deyja í flóttamannabát eru hundraðþúsundfalt hærri en að deyja í flugslysi. Þrátt fyrir það fljúga aðeins örfáir flóttamenn til Evrópu, því þeir fá ekki vegabréfsáritanir og er því ekki hleypt um borð. En jafnvel ef þeim tekst að fá falsaða pappíra er leiðin ekki greið.
Sendur aftur frá Íslandi
Gazabúinn Ramez Rassas fékk til dæmis falsaða vegabréfsáritun árið 2009. Þegar hann komst úr herkvínni í Gaza og til Evrópu sótti hann um hæli í Noregi. Þar fékk hann þó ekki vernd heldur brottvísunarskipun, enda var stefna norskra yfirvalda gagnvart Palestínumönnum að veita þeim ekki hæli. Í stað þess að bíða brottvísunar fór Ramez til Íslands. Ísland sendi hann aftur til Noregs í fyrravor á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Nokkrum vikum síðar var hann aftur kominn til Gaza. Svo byrjaði stríð. Hann reynir nú að komast aftur til Evrópu – í þetta skipti með bát.
„Ísland leit ekki á mig sem manneskju“
„Ef ég kemst yfir hafið hef ég tækifæri til að hefja nýtt og öruggt líf,“ segir hann mér í netspjalli. „Auðvitað er ég hræddur. En ef þú lifir á stað eins og þessum er valið milli dauða og flótta.“ Málsmeðferð Ramez á Íslandi og í Noregi veldur honum mikilli biturð. „Yfirvöldum á Íslandi var alveg sama um söguna mína. Ég var bara Dyflinnar-tilfelli og átti að fara til Noregs. Það skipti engu máli fyrir þau hvernig ég slapp frá Gaza, hvaða hættur ég lagði á mig til að komast til Evrópu. Ísland leit ekki á mig sem manneskju, lét sig engu varða hvað Noregur gerði við mig.“
„Þau drukknuðu öll“
Þegar Ramez kemst frá Gaza tekur við ógnvænlegt ferðalag. Navid segir að óttinn og ímyndunin um sjóferðina á Miðjarðarhafi komist ekki nærri upplifuninni. „Ég vissi alltaf að það er hættulegt að fara yfir. En það er eitt að heyra það, annað að prófa það. Hópurinn sem fór á undan okkur fór í góðu veðri. Þess vegna ákváðu þau að senda fjölskyldurnar, en við einhleypingarnir urðum eftir. Þau drukknuðu öll. Þau héldu að það væri í lagi en þau drukknuðu öll. Við hefðum átt að fara með þeim báti, einhleypu strákarnir.“
Þrátt fyrir hætturnar er Ramez samt ákveðinn að fara um leið og færi gefst. „Gaza er fangelsi. Jafnvel þótt nú sé ekki stríð, þá höfum við ekkert líf, engan frið, ekkert frelsi, ekkert. Sýrlenskt fólk getur flúið sitt stríð. Við erum föst.“
Viðbrögð Evrópu við komu flóttamanna hafa verið að reyna að hægja á henni. Það hefur ekki virkað. Örvænting og ákveðni fólksins sem kemur er of mikil. Sama hve hættuleg leiðin hefur verið gerð, þá hafa flóttamenn samt áfram reynt við hana, fleiri og fleiri með hverju árinu. Þar til stefnubreyting á sér stað verður ferðin til Evrópu áfram háskaför. Þangað til mun líkum barna áfram skola á strendur Miðjarðarhafsins.
Ísland taki á móti 50 flóttamönnum
Íslensk yfirvöld lýstu því yfir gagnvart ráðherraráði Evrópusambandsins í Brussel í júlí að þau hyggðust taka á móti 50 flóttamönnum á þessu og næsta ári, að gefnu samþykki Alþingis. Í yfirlýsingu stjórnvalda var vitnað í Eygló Harðardóttur félagsmálaráðherra: „Þær þjóðir sem geta verða að axla ábyrgð og gera sitt til að létta á vandanum.“
Stofnaður hefur verið hópur á Facebook þar sem krafist er þess að Ísland taki við fimm þúsund flóttamönnum. Rúmlega þrjú þúsund hafa gengið í hópinn.
Athugasemdir