Útvarpsmennirnir Gunnlaugur Helgason, Heimir Karlsson og Þráinn Gestsson sem stýra þættinum Í bítinu á Bylgjunni, vöktu máls á því í þættinum í morgun hvort Hildur Lilliendahl ætti að vera látin líða fyrir það, sem starfsmaður Reykjavíkurborgar, að hafa kallað Sindra Sindrason sjónvarpsmann „epalhomma“ vegna yfirlýsinga hans í umræðu um fordóma um að hann væri sjálfur í mörgum minnihlutahópum.
„Getur þetta haft einhverjar afleiðingar fyrir hana sem starfsmann borgarinnar?“ spurði Heimir Karlsson meðal annars, um orð Hildar.
Aðdragandinn er að Sindri, sem er fréttaþulur á Stöð 2, hjá 365, sama fjölmiðlafyrirtæki og útvarpsmennirnir tveir, lét umdeild orð falla í viðtali við Töru Margréti Vilhjálmsdóttur, formann Samtaka um líkamsvirðingu, í fréttatíma Stöðvar 2. Hann spurði hvort fordómar væru „within“ eða inni í okkur sjálfum. Tara Margrét svaraði að þetta væri í rauninni talað úr munni einhvers sem hefði forréttindastöðu og að hann þyrfti að hafa upplifað fordómana í raun og veru til að skilja þetta. Sindri brást hvass við. „Veistu hvað ég er í mörgum minnihlutahópum? Ég er hommi, ég á litað barn, það er ættleitt, ég er fyrsti samkynhneigði maðurinn til að ættleiða á Ísland, ég er giftur útlendingi, eða hálfum útlendingi, þannig að við skulum ekki fara þangað.“
„Veistu hvað ég er í mörgum minnihlutahópum?“
Ummælin vöktu athygli og sendu Samtökin 78 meðal annars frá sér yfirlýsingu þar sem þau lýstu yfir vonbrigðum með það skilningsleysi sem þau segja Sindra hafa sýnt reynslu og lífsskilyrðum jaðarsettra einstaklinga. Hildur var á sama máli. „Jaðarssetningin á Sindra Sindrasyni ætlar bara ekki að stoppa. Allar fiðlurnar og öll kertin fyrir hann. Mér er skapi næst að kveikja í hárinu á mér fyrir aumingja kúgaða hvíta ófatlaða epalhomman með alla sjónvarpsþættina,“ skrifaði hún meðal annars á Facebook um málið.
Efast um tjáningarfrelsi Hildar
Þeir Heimir, Gunnlaugur og Þráinn tóku upp hanskann fyrir Sindra, samstarfsfélaga sinn hjá 365, og gagnrýndu Hildi Lilliendal harðlega. „Það er svona eins og skítafýlan sé farin að kenna rassgatinu hvernig á að hegða sér,“ sagði Þráinn Steinsson meðal annars.
Heimir svarar: „Það er annað hvort eitthvað að þarna, eða hún sest við tölvuna og hugsar með sér, „jæja best að henda inn einni sprengju núna“ og skrifar eitthvað og svo situr hún heima og les þetta og hlær að viðbrögðunum. En þarna er verið að tala við fólk sem er á móti fordómum en hljómar eins og það sé sjálft með fordóma.“
Loks spyr Heimir: „Hvað með opinbera stafsmenn, sem stíga svona fram með svona virkilega ljótum orðum um eina persónu, hvort það megi og hvort það gjaldi fyrir það?“
Sindri Sindrason neitaði Stundinni um viðtal um málið. Hann kveðst eingöngu ætla að tjá sig um málið á Bylgjunni, í þættinum Reykjavík síðdegis í dag.
Vegna misskilnings voru ummæli leiðrétt þar sem orð Þráinns höfð eftir Gunnlaugi.
Athugasemdir