Síðasta sunnudag fóru meðlimir úr félaginu Aktívegan að sláturhúsi SS á Selfossi og mótmæltu þar í þriðja sinn í vetur. Sigurbjörg Sæmundsdóttir, varaformaður Aktívegan samtakanna, segir að harkaleg viðbrögð við aðgerðum þeirra byggist á ótta fólks við breytingar og að samtökinn ætli að mótmæla við sláturhúsið á hverjum einasta sunnudegi á næstunni.
Mótmæli hinna íslensku vegana eru að kanadískri fyrirmynd, en í Toronto hafa aðgerðarsinnar tekið upp á því að halda svokölluð „vigil“ eða vökur, til þess að sýna dýrum á leið til slátrunar samstöðu. „Þetta er búið að breiðast út um allan heim, þessi hugmynd frá Toronto. Núna eru til Pig Save, Cow Save og Chicken Save, svo eitthvað sé að nefna,“ segir Sigurbjörg.
„Maður getur rétt ímyndað sér hversu ömurleg upplifun þetta sé fyrir dýrin.“
Upp úr aðgerðunum í Kanada vaknaði svo þessi hugmynd íslensku vegananna að sýna dýrum á Íslandi samstöðu. Segir hún viðbjóðslegt að horfa upp á aðstæður dýranna á leið til slátrunar. „Þessir bílar eru ógeðslegir. Þetta eru yfirleitt 3-5 hæðir af dýrum sem er troðið þarna inn. Svínabílarnir eru mjög lokaðir, ég held það séu bara nokkur loftgöt þarna uppi og það er viðbjóðsleg lykt þarna inni. Maður getur rétt ímyndað sér hversu ömurleg upplifun þetta sé fyrir dýrin.“
Einnig segir hún erfitt að horfa upp á meðferð starfsmannanna sem sjá um flutningana á dýrunum. „Þau eru að vinna vinnu sem er örugglega illa launuð eða eina vinnan sem þau geta fengið. Þau eru ekkert að sýna dýrunum mikla virðingu þegar þau reka þau inn. Þau vilja bara drífa sig og klára sitt dagsverk.“
Vill lágmarks virðingu
Myndband sem hópurinn tók upp hefur vakið hörð viðbrögð á fréttamiðlum. Þar sjást meðlimir úr hópnum í miklu uppnámi yfir þeim atburðum sem þeir verða vitni að. Sigurbjörg segir þessi viðbrögð þó ekki koma sér neitt á óvart. „Við höfum alveg bara inni á okkar eigin síðu orðið fyrir allskonar árásum. Fólk virðist koma þangað inn gagngert til þess að gera lítið úr málstaðnum. Við bjuggumst alveg við þessu, en kannski ekki svona miklu samt.“
Segir hún myndbandið ekki hafa verið klippt neitt og að þau hafi ákveðið að „hleypa því bara hráu út“ og að það geti hugsanlega útskýrt viðbrögð fólks. „Fólk sem er ekki þar sem við erum, að sjá þessi dýr sem einstaklinga, skilur ekki alveg ungar stelpur eins og þær sem voru grátandi. Þær fengu bara áfall og eru enn að jafna sig í dag, mörgum dögum seinna.“
Myndbandið sem meðlimir Aktívegan tóku upp við SS á Selfossi hefur vakið mikla athygli.
Finnst henni að fólk ætti að bera lágmarksvirðingu fyrir þessari upplifun fólks úr hópnum og að persónuárásirnar í kommentakerfum hafi farið algjörlega yfir strikið. „Þetta eru stelpur í menntaskóla sem eru þarna að berjast fyrir því sem þær trúa á. Þær sýna bara þær tilfinningar sem koma.“
„Það eru alltaf einhverjir sem verða hræddir og fara þá í vörn.“
Hún telur einnig að um varnarviðbrögð séu að ræða hjá fólki sem þolir illa gagnrýni á sinn lífsstíl. „Ég held að fólk sé bara almennt rosalega hrætt við breytingar. Hrætt við að það komi einhver með einhverja hugmynd sem stuðar það líf sem fólk hefur lifað. Sem fólk er alið upp við. Maður sér þetta með alla þá sem koma með nýjar hugmyndir, það eru alltaf einhverjir sem verða hræddir og fara þá í vörn.“
Áberandi viðbrögð við aðgerðum þeirra voru gagnrýni á fatnað meðlima Aktívegan, að þau væru með loðfeldi, í dúnúlpum og leðurskóm. Sigurbjörg segir að meirihluti fatnaðarins hafi alls ekki verið út dýraafurðum „og þó fólk verði vegan þá hendir það ekki öllum fötunum sínum. Það er ekki verið að fókusa á aðalatriðin þarna.“
Einnig var reynt að snúa á meðlimi hópsins með því að halda því fram að plönturnar sem þeir borðuðu hefðu líka tilfinningar. Sigurbjörg segir það hinsvegar hafa verið afsannað. „Þær sýna viðbrögð en þar sem þær eru ekki með taugakerfi eða hormónakerfi þá meikar ekki sens að plöntur finni til, þótt þær sýni viðbrögð. En þetta er langlíf mýta og það er oft gripið í þetta hálmstrá.“ Einnig bendir hún á að þar sem dýrin borði gríðarlegt magn af plöntum séu kjötætur með því að skaða plönturnar óbeint. „Þannig ef maður er plöntuvinur þá ætti maður frekar að borða plönturnar heldur en dýrin.“
Viðbrögðin segir Sigurbjörg að hafi þó ekki aðeins verið neikvæð. „Það er það sem skiptir máli, öll þessi komment skipta engu máli í samanburði við það. Þetta fær kannski nokkrar manneskjur til að breyta sínum lífsstíl. Ég veit allavega að það var ein sem kommentaði á Vegan Ísland að hún hafi ákveðið að breyta til eftir að hafa séð þetta vídjó. Og það er tilgangurinn með þessu, að fá fólk til að hugsa.“
Næstu sunnudaga munu svo alltaf verða einhverjir úr hópnum með mótmælastöðu við SS á Selfossi. „Það er það sem þau gera úti í Kanada. En það er reyndar skemmtilegra veður þar,“ segir Sigurbjörg og hlær.
Athugasemdir