„Vændi er starfsgrein sem ég óska engum að leiðast út í,“ skrifar kona sem var í vændi í bréfi þar sem hún biðlar til Íslandsdeildar Amnesty International að styðja ekki afglæpavæðingu vændis. „Mig hryllir við þeirri tilhugsun að vændi verði gefið frjálst og kúnninn komist aftur í ríkari valdastöðu eins og áður.“
Alþjóðahreyfing Amnesty fundar í Dyflinni nú um helgina. Á fundinum liggur fyrir tillaga um að Amnesty líti svo á að vændi eigi að gefa frjálst, að kaup, sala, milliganga um vændi og rekstur vændishúsa verði látið óátalið. Í tillögu Amnesty er áhersla lögð á að mannréttindi fólks sem starfar í kynlífsþjónustu séu varin, að barátta gegn mansali og kynbundnu ofbeldi verði efld. Er því haldið fram að vísbendingar séu um það að glæpavæðing vændis sé líklegri til að skaða þann sem starfar í kynlífsþjónustu. Viðkomandi sé í meiri hættu á að verða fyrir áreiti og ofbeldi auk þess sem réttindi þeirra á borð við trygginga- og lífeyrismál eru óviðunandi.
„Mér mjög svo nákominn aðili er starfsmaður í ykkar röðum.“
Skömm og kvíði
Árlega leita á milli 35-50 einstaklingar til Stígamóta vegna afleiðinga klámiðnaðarins, samkvæmt yfirlýsingu kvennasamtaka sem sent var út fyrr í vikunni. Þar kemur fram að afleiðingar þeirra sem hafa verið í vændi séu sambærilegar afleiðingum kynferðisofbeldis: „Skömm, kvíði, þunglyndi, léleg sjálfsmynd og sjálfsvígshugsanir, en á ýmsan hátt ýktari.“
Kvennasamtökin sendu því út ákall til Íslandsdeildarinnar um að beita sér af alefli gegn tillögu alþjóðahreyfingarinnar. Að baki ákallinu stóðu Stígamót, Kvennaathvarfið, Kvennaráðgjöf, Samtök kvenna af erlendum uppruna, Kvennfélagasamband Íslands, Kvenréttindafélagið og Femínistafélag Íslands. Var þeirra meining sú að ef tillagan yrði að veruleika þá yrði dólgum og vændiskaupendum gefin friðhelgi en mannréttindi kvenna í vændi fótum troðum. Það gengi þvert á þá mannréttindabaráttu sem Amnesty International hefur háð. „Frjáls sala á fólki samræmist ekki okkar skilgreiningu á mannréttindum. Þar að auki er nær ógjörningur að skilja á milli vændis og mansals. Kaupendur hafa ekki hugmynd um hvort þær konur sem þeir kaupa, eru að selja sig af fúsum og frjálsum vilja eða þær eru gerðar út af manseljendum. Ef Amnesty vill uppræta mansal, er mikilvægt að samtökin geri sér grein fyrir að það verður ekki gert nema með því að minnka eftirspurn eftir vændi,“ segir í yfirlýsingu frá samtökunum.
Nýttu sér valdastöðu
Konan sem biðlar nú til Amnesty International var í vændi á þeim tíma sem það var ólöglegt að selja vændi en ekki að kaupa það og segir að kúnnarnir hafi nýtt sér valdastöðuna til að svína á henni. „Þá helst í formi ógnanna og einhverskonar ofbeldis. Nýttu sér valdastöðu sína til að svína á mér. Blessunarlega slapp ég við líkamlegt ofbeldi en ég þarf ekkert að tíunda það kynferðislega ofbeldi sem átti sér stað með þessari iðju minni.“
Hún segist geta tekið undir þá skilgreiningu að vændi sé nútímaþrælahald. „Þegar manneskja stundar vændi er hún að leyfa fólki að kaupa sér aðgang að sjálfri sér til eigin afnota. Eins er manneskja sem stundar vændi og hefur stundað vændi, því þetta eltir fólk, þræll fortíðarinnar; þræll tilfinninga sem verða aldrei afmáðar.“
Bréfið allt
Bréfið má lesa í heild sinni hér að neðan:
„Kæra Amnesty International á Íslandi,
eina ástæðan fyrir því að ég kem þessu bréfi ekki á ykkur undir eigin nafni er aðeins og eingöngu vegna þess að mér mjög svo nákominn aðili er starfsmaður í ykkar röðum. Meðan ég hef ekki opnað á þetta við mína nánustu finnst mér ósanngjarnt að starfsmaðurinn ykkar fái að frétta af þessu í gegnum vinnuna sína og er ég sannfærð um að starfsmaðurinn ykkar kunni að meta það við mig.
Athugasemdir