Fyrir um fjórum mánuðum síðan var Mohammed bin Salman, 29 ára gamall prins í Sádi-Arabíu, bara einn af fjölmörgum prinsum konungsríkisins. Rétt eins og aðrir karlkyns meðlimir konungsfjölskyldunnar var hann helst þekktur fyrir djörf verðbréfa- og fasteignaviðskipti í Mið-Austurlöndum.
Prins Mohammed á þrjá eldri hálfbræður sem allir eru með ríkustu einstaklingum Sádi-Arabíu en þeirra á meðal er ráðherra olíumála ríkisins. En þetta var áður en faðir þeirra, Salman bin Abulaziz sem er 79 ára, varð konungur Sádi-Arabíu. Nú er prins Mohammed, sem er elsti sonur þriðju og yngstu eiginkonu kóngsins, rísandi stjarna innan stjórn- og herafla konungsríkisins.
Gríðarlega mikil völd á einungis fjórum mánuðum
Á einungis fjórum mánuðum hefur hinn ungi prins sölsað undir sig meira valdi en nokkur annar prins Sádi Arabíu hefur nokkurn tíman haft. Erfðahefð konungsfjölskyldunnar hefur hingað til byggst á ákveðnu kerfi valddreifingar sem á að stuðla að einingu innan konungsfjölskyldunnar. Mohammed prins hefur nýtt þetta nýtilkomna vald sitt til að taka sér nokkurs konar leiðtogasæti innan stjórnkerfis ríkisins, þar sem Sádi Arabía er orðin leiðandi – og ógnandi – afl í Mið-Austurlöndum. Hernaðarátökin í Jemen eru einmitt gott dæmi um það.
Á þeim fjórum mánuðum síðan Salman tók við embætti konungs Sádi-Arabíu hefur hann sett Mohammed prins yfir ríkisrekin olíufyrirtæki landsins sem og allar fjárfestingar hins opinbera. Einnig hefur hann skipað son sinn sem yfirmann nýrrar nefndar sem hann kallar hagstjórn Sádi Arabíu og síðast en ekki síst er Mohammed orðinn ráðherra varnarmála.
Athugasemdir