Starfsmönnum Morgunblaðsins hefur borist tölvupóstur þar sem þeim er bent á að í móttöku Morgunblaðshússins liggi undirskriftalisti vegna forsetaframboðs Davíðs Oddssonar. Þetta hefur Stundin eftir öruggum heimildum innan af blaðinu, en Vísir greinir jafnframt frá því í dag að Laufey Rún Ketilsdóttir, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna og blaðamaður á Morgunblaðinu, hafi gengið á milli fólks í Hádegismóum og safnað undirskriftum fyrir Davíð.
Davíð er ritstjóri Morgunblaðsins og því yfirmaður blaðamanna sem fengu póstinn. Guðjón Idir, framkvæmdastjóri International Modern Media Institute, telur að blaðamenn á Morgunblaðinu séu settir í óeðlilega stöðu með því að undirskriftalistum sé otað að þeim. Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, hefur ekki áhyggjur af því. Illugi Jökulsson, gamalreyndur fjölmiðlamaður, fer hins vegar hörðum orðum um vinnubrögðin á Facebook. „Þetta er svo ruddalegt ofbeldi að ég myndi aðeins trúa einum manni á Íslandi til að standa fyrir því,“ skrifar hann.
Davíð Oddsson er í sumarleyfi frá Morgunblaðinu og hefur lýst því yfir að ef hann nái ekki kjöri sem forseti muni hann snúa umsvifalaust aftur til fyrri starfa í Hádegismóum.
Athugasemdir