Framsóknarflokkurinn er sá stjórnmálaflokkur sem hefur mesta fjárhagslega hagsmuni af því að kosið verði á næsta ári frekar en í haust. Ríkisstyrkir til stjórnmálaflokka miðast við þingstyrk hverju sinni og eru greiddir út í byrjun febrúar. Skemmst er að minnast þess að Framsóknarflokkurinn vann sögulegan kosningasigur árið 2013 og fékk 19 þingsæti. Skoðanakannanir undanfarinna vikna benda hins vegar til þess að Framsóknarflokkurinn muni glata meirihluta þingsæta sinna í næstu kosningum. Fari svo mun flokkurinn tapa tugum milljóna á næsta ári vegna þeirrar ákvörðunar að flýta kosningum. Á þetta hefur Kvennablaðið bent í umfjöllun um málið en samkvæmt ársreikningi skuldar Framsóknarflokkurinn rúmar 257 milljónir. Þegar á heildina er litið er því ekki um háar upphæðir að ræða fyrir fjárhag flokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og fleiri þingmenn flokksins, telja að ekki þurfi að standa við fyrirheitin um haustkosningar sem gefin voru eftir að Sigmundur Davíð lét af embætti forsætisráðherra. Í kjölfar umfjöllunar um aflandsfélög Íslendinga í apríl mótmæltu tugir þúsunda Íslendinga á Austurvelli og kröfðust afsagnar ríkisstjórnarinnar. Til að bregðast við þessu lofuðu Sigurður Ingi Jóhannsson, nýr forsætisráðherra, og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, að kosið yrði í haust. Enn virðast vera skiptar skoðanir um þessa lendingu innan þingflokks Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð sagði nýlega í viðtali við RÚV að í raun og veru hefði ríkisstjórnin ekki lofað því að flýta kosningum; orðalagið „stefnt sé að“ væri lykilatriði í þessum efnum. Höskuldur Þórhallsson, þingmaður flokksins, gagnrýndi Sigmund í kjölfarið og sagði hann útspil formannsins til þess eins fallið að setja „allt í upplausn“. Þingmenn stjórnarandstöðunnar krefjast þess að gefin verði út dagsetning fyrir kosningar, en Sigmundur Davíð telur að það væri „fráleitt“ enda eigi enn eftir að ljúka mikilvægum verkefnum og óljóst sé hvort það takist fyrir kosningar í haust.
Athugasemdir