Tekjur Theodóru S. Þorsteinsdóttur, þingmanns Bjartrar framtíðar og formanns bæjarráðs í Kópavogi, hækka um 186 þúsund krónur á mánuði með ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs um 26 prósent launahækkun bæjarfulltrúa í dag.
Stundin greindi frá því í lok janúar að Theodóra, sem hefur ákveðið að gegna bæði þingmennsku og sitja í bæjarstjórn Kópavogs á sama tíma, þrátt fyrir að þingmennska sé álitin fullt starf, var með um 2,3 milljónir króna á mánuði í laun sem kjörinn fulltrúi. Eftir launahækkunina er hún því með 2,5 milljónir króna í mánaðarlaun, þar til breytingar verða gerðar á stöðu hennar eða öðrum greiðslum til hennar.
Tilkynnt var um launahækkun bæjarstjórnar í tölvupósti frá Kópavogsbæ í kvöld. Ekki kemur fram að nein breyting verði á högum Theodóru með öðrum hætti. Hún hefur nú sömu tekjur og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, að meðtöldum öllum greiðslum sem hún á rétt á.
Guðni hafnaði launahækkun sinni
Sú breyting verður á kjörum bæjarfulltrúa í Kópavogi að launaþróun tekur framvegis mið af hækkun launavísitölu, frekar en þingfararkaupi. Ef launakjörin hefðu áfram verið bundin við þingfararkaup hefði launahækkunin orðið 44,3 prósent.
Laun þingmanna voru hækkuð langt umfram hækkun almennrar launavísitölu á kjördag, 29. október síðastliðinn. Hækkunin hefur verið rökstudd með því að þingmenn hafi orðið eftir á í kjaraþróun. Hins vegar sýnir samanburður þingfararkaups við þróun launavísitölu að þingmenn hafa hækkað 28 prósentustigum meira í launum en almenningur síðustu tíu árin. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, ákvað að gefa launahækkunina til góðgerðarmála og skoraði á þingmenn að „vinda ofan af“ hækkuninni. „Ég bað ekki um þessa kauphækkun. Ég vissi ekki af þessari kauphækkun. Ég þarf ekki þessa kauphækkun. Margir þingmenn hafa lýst andúð sinni á þessari ákvörðun kjararáðs. Ég vænti þess að þingið vindi þá ofan af þessari ákvörðun,“ sagði hann.
Þingmenn urðu ekki við þeirri áskorun, en forsætisnefnd Alþingis ákvað að endurskoða verulegar endurgreiðslur á kostnaði til þingmanna þess í stað.
Forsætisnefnd Alþingis ákvað í lok janúar að leggja til að endurgreiðslur til þingmanna verði skertar vegna verulegra launahækkana þeirra. Þannig verði skattfrjálsar endurgreiðslur ferðakostnaðar lækkaðar um 54 þúsund krónur á mánuði og endurgreiðsla starfskostnaðar skert um 50 þúsund krónur. Ferðakostnaður þingmanna verður því endugreiddur um 30 þúsund krónur á mánuði frekar en 84 þúsund krónur og fastar greiðslur vegna starfskostnaðar færðar niður í 40 þúsund krónur á mánuði úr 90 þúsund krónum.
Greindi frá fyrirætlun um að sinna báðum stöðum
Theodóra, sem sinnir nú um 200 prósent starfi, og þiggur laun upp á 2,5 milljónir króna sem kjörinn fulltrúi bæði á landsvísu og sveitastjórnarstigi, segist hafa greint frá fyrirtælunum sínum fyrir kosningar og að fordæmi séu fyrir stöðunni. Hún segir að þingmennirnir Gunnar Birgisson, Ármann Kr. Ólafsson og Birkir Jón Jónsson hafi einnig setið í bæjarstjórn samhliða þingmennsku. „Ég kynnti mér þetta sérstaklega fyrir kosningar og fór yfir söguna hér í Kópavogi. Það eru fjölmargir bæjarfulltrúar hér í gegnum tíðina sem hafa verið þingmenn og bæjarfulltrúar. Og jafnvel formenn bæjarráðs. Þetta voru, held ég, allt karlmenn. Mér fannst það sama eiga að gilda um konur. Mig langar til þess að vera hér áfram bæjarfulltrúi. Það er bara eins og allir aðrir. Mér finnst það bara út frá jafnræði. Þegar einhver getur verið læknir eða skólastjóri eða hvað sem er, í 100 prósent starfi, finnst mér það alveg eiga við það að vera þingmaður. Það er auðvitað þannig að ráðherrar eru í 100 prósent starfi sem ráðherrar og líka þingmenn. Og ég talaði alveg skýrt um þetta fyrir kosningar. Ég var margspurð að þessu,“ sagði hún í samtali við Stundina.
Verði af skerðingu á endurgreiðslum til þingmanna munu laun Theodóru enda í um 2,4 milljónum króna, en hún hefur boðað að hún endurskoði hluta af störfum sínum og sitji ekki áfram í stjórn Isavia eftir aðalfund félagsins í vor.
Athugasemdir