Fjögurra ára gamall bað hann um bleikan pollagalla. Átta ára mætti hann sem Lísa í Undralandi á búningaball. Alla hans æsku fékk hann að heyra að hann væri hommi. En Jón Ágúst Þórunnarson er ekki hommi. Hann er hinsegin.
Jón Ágúst er rétt að verða tvítugur en hefur tekið þátt í ungliðastarfi Samtakanna '78 undanfarin ár og sinnt jafningafræðslu á þeirra vegum. Sumarið eftir 10. bekk kynntist hann tvíkynhneigðri stelpu sem dró hann með sér á fund. Þar leið honum svo vel að hann ákvað að fara aftur og hálfu ári síðar var hann kominn í stjórn.
„Ég hef alltaf vitað að ef ég verð ástfanginn þá verð ég bara ástfanginn óháð kyni viðkomandi. Það tengist körlum ekkert sérstaklega. Sumir kalla það pan en ég vil ekki skilgreina mig þannig. Ég vissi allavega alltaf að það væri ekki svo einfalt að það væru allir eins, og allir gagnkynhneigðir.“
Árás eftir fræðslu
Á fundum ungliðahópsins kynntist Jón Ágúst góðum krökkum. „Ég lenti mikið í einelti þegar ég var yngri og passaði aldrei neins staðar inn. Þetta var mjög góður staður fyrir svona strák eins og mig því þarna var ekkert einelti og engir fordómar. Hvernig sem ég var þá var ég alltaf velkominn, ég þurfti ekkert að skilgreina það þegar ég mætti. Ég gat bara komið inn, fengið að læra af krökkunum og kynnast sjálfum mér um leið.“
Það er þó ekki allt tekið út með sældinni. Þegar Jón Ágúst var eitt sinn með hinsegin fræðslu fyrir menntaskólanemendur mætti hann fordómum. Það var hvorki í fyrsta né síðasta skipti sem Jón Ágúst mætti fordómum. Þarna var það þó sérlega átakalegt, þar sem hann hafði heimsótt skólann með það að marki að reyna að fræða nemendur og auka umburðarlyndi. Eftir fræðsluna stóð hann á bílaplaninu fyrir utan skólann þegar strákahópur kom keyrandi. „Þeir keyrðu hægt fram hjá mér og kölluðu allskonar illum nöfnum að mér. Þeir sögðu mér að drepa mig því ég væri hommaógeð. Ég væri ógeðslegur og ætti að láta mig hverfa. Það væri best ef ég lægi dauður einhvers staðar, ég ætti ekki að troða mér í skólann þeirra.
Athugasemdir