Brynjar Níelsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, hefur þegið gjaldfrjálsa þjónustu hjá líkamsræktarstöðinni Hreyfingu. Frá þessu greinir hann í viðtali við RÚV í dag, en eins og Stundin fjallaði um í gær kemur Brynjar fram í umfjöllun Smartlands þar sem þjónusta fyrirtækisins er kynnt. Umfjöllunin er auglýsingu líkust og textaútgáfa hennar hefst með því að Ágústa Johnson, framkvæmdastjóri Hreyfingar og eiginkona Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra, segir frá kostum svokallaðrar Boditrax–tækni sem fyrirtækið býður upp á.
Stundin sendi Mörtu Maríu Jónasdóttur, ritstjóra Smartlands, tölvupóst um helgina og spurði hvort umfjöllunin væri kostað efni eða hefðbundin umfjöllun. „Þetta er hefðbundið lífsstílsefni, ekki kostað,“ svaraði hún.
Í viðtali við Brynjar á RÚV kemur fram að Ágústa Johnson hafi boðist til að veita honum aðstoð við að koma sér í form. Aðstoðin felist í því að fá leiðbeiningar og mælingar og það sé í boði Hreyfingar. „Ég fæ þarna bara aðstoð og ef menn vilja líta á það sem hlunnindi, þá kemur það bara í ljós. Þetta er ekkert öðruvísi en að einhver bjóði þér í mat. Okkur þingmönnum eru boðnir alls konar hlutir sem öðrum eru ekki boðnir alla jafna. En þetta eru ekki slík gæði að þetta sé orðin spurning um brot á siðareglum,“ er haft eftir Brynjari. „Okkur er stundum boðið í mat. Eitthvert eitt skipti skiptir ekki öllu máli. En það eru auðvitað mörk á þessu.“
Hann telur sig ekki hafa farið á svig við siðareglur þingmanna, en þar er meðal annars kveðið á um að þingmenn skuli forðast hagsmunaárekstra í starfi sínu og ekki taka við óviðeigandi greiðslu eða gjöf. Jafnframt skuli þingmenn ekki nota aðstöðu sína til þess að vinna að eigin hagsmunum eða hagsmunum annars aðila þannig að ekki samrýmist siðareglunum.
Athugasemdir