Tveir fangar struku frá fangelsinu Kvíabryggju í gærkvöldi. Upp komst um málið þegar þeir skiluðu sér ekki í herbergi sín á réttum tíma kl. 23 og var þá leitað að þeim í nágrenni fangelsisins, en síðan haft samband við lögreglu og gefin út handtökuskipun. Fangarnir eru ekki taldir hættulegir en þeir sitja inni fyrir neyslubrot og auðgunarbrot. DV sagði fyrst frá málinu í morgun.
„Þessir strákar eiga sér sögu um neyslu- og auðgunarbrot,“ segir Páll Winkel, fangelsismálastjóri í samtali við Stundina en strokufangarnir eru á aldrinum 19 og 21 árs. „Við höfum tekið sénsa með svona unga fanga að gefa þeim tækifæri til að vistast í opnu fangelsi á meðan það er einhver möguleiki. Við viljum síður senda menn beint á Litla Hraun. Það gengur oftast mjög vel og það líða margir áratugir á milli stroka úr opnum fangelsum á Íslandi.“ Samkvæmt upplýsingum Stundarinnar hafa fangarnir báðir dvalið mjög stutt á Kvíabryggju. Annar þeirra hóf afplánun fyrir einni viku, hinn fyrir tveimur vikum.
Ekki taldir hættulegir
Páll bendir á að opnum fangelsisrýmum hafi fjölgað gríðarlega á undanförnum árum, sérstaklega eftir að opna fangelsið að Sogni opnaði. Rýmin voru fjórtán árið 2007, en eru í dag 42. „Það er þá eðlileg afleiðing að við erum að senda tæpari fanga í opnu plássin. Hins vegar þá metum við þessa menn að svo stöddu ekki hættulega, nema helst sjálfum sér,“ segir Páll. Af þeirri ástæðu verður ekki lýst eftir þeim með nöfnum og myndum að svo stöddu. „Ég vona bara að þeir skili sér sem fyrst, svo þetta hafi sem minnstar afleiðingar fyrir það sem eftir er afplánunarinnar. Samantekin ráð um strok úr fangelsi er refsiverður verknaður,“ segir Páll að lokum.
Uppfært 12:52: Mennirnir tveir voru handteknir á Þingvöllum um hádegisbil. Þetta kemur fram í frétt á RÚV. Lögreglunni barst tilkynning um grunsamlegar mannaferðir við bústað á Þingvöllum um klukkan hálf tólf í dag. Í kjölfarið voru mennirnir handteknir.
Athugasemdir