Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, ákvað að slíta stjórnarmyndunarviðræðunum eftir að Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, tjáði henni að hann hefði ekki sannfæringu um að stjórnarmyndun tækist.
Aðspurð staðfestir Katrín þetta í samtali við Stundina.
Aðrir viðmælendur blaðsins fullyrða að Benedikt Jóhannesson hafi sýnt litla samningaviðleitni undanfarna daga, þagað á fundum og haft fátt til málanna að leggja. Stundin hefur ekki náð sambandi við Benedikt í kvöld en hann verður gestur Kastljóss á eftir.
Birgitta Jónsdóttir, þingkona Pírata sem tók þátt í viðræðunum fyrir hönd flokksins, sendir Benedikt tóninn á Facebook: „Verð að viðurkenna að það kom mér verulega á óvart að upp úr þessum viðræðum hafi slitnað svona snögglega. Við vorum búin að leggja mikið á okkur við að koma með tillögur að málamiðlunum og byggja brýr. Því miður tókst ekki að ná fram nákvæmlega hvað það var sem Viðreisn treysti sér ekki til að málamiðla um, vegna þess að það komu ekki fram neinar tillögur frá þeim til hinna fjögurra flokkanna.“
Viðmælendur Stundarinnar innan fleiri flokka hafa sömu sögu að segja. Fullyrt er að meginástæða þess að ekki tókst að mynda fimm flokka ríkisstjórn hafi verið tregða Viðreisnar til að samþykkja að ráðist yrði í auknar tekjuöflunaraðgerðir til að hægt væri að standa undir útgjaldaaukningu til heilbrigðismála og innviðafjárfestinga strax á næsta ári.
Eins og Stundin fjallaði um í morgun véku ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins frá samþykktri fjármálaáætlun sinni í tveimur veigamiklum atriðum í lok síðasta kjörtímabils, annars vegar með viðbótarfjárfestingum í samgönguáætlun og hins vegar með auknu fjármagni til almannatrygginga. Báðar aðgerðirnar eru í raun ófjármagnaðar, en um er að ræða tugi milljarða sem munu valda því að ríkissjóður verður rekinn með halla á næsta ári ef aukinna tekna verður ekki aflað. Samkvæmt heimildum Stundarinnar breyttist staðan í viðræðunum eftir að þetta rann upp fyrir fulltrúum Viðreisnar sem vildu síður að aflað yrði aukinna skatttekna til að bæði standa undir þessum útgjöldum og ráðast í aukna uppbyggingu heilbrigðiskerfisins og innviða.
Samkvæmt heimildum Stundarinnar hafði náðst breið samstaða um það meðal flokkanna að farið yrði í innköllun og uppboð á aflaheimildum, að minnsta kosti í tilraunaskyni, þótt ekki hafi verið búið að greiða úr öllum álitamálum um útfærslu og framkvæmd slíkrar leiðar. „Þarna var a.m.k. kominn góður grundvöllur að sátt, það er alveg á hreinu að þetta strandaði ekki á sjávarútveginum,“ segir einn af viðmælendum blaðsins.
Smári McCarthy, þingmaður Pírata, tekur undir þetta í Facebook-færslu. „Það er rangt að þetta hafi strandað á sjávarútvegsmálum (það var komin töluverð sátt) eða landbúnaði (sem var varla byrjað að ræða). Þetta strandaði á óbilgirni. Það er vinna stjórnmálamanna að miðla málum og ná sáttum, jafnvel þegar það er sárt. Það var það sem brást,“ skrifar hann.
Athugasemdir