Móðir 16 ára stúlku sem var afklædd í fangaklefa af lögreglunni á Akranesi segir í skriflegu svari til Stundarinnar að lögreglan hafi verið margsaga um ástæður þess að dóttir hennar var handtekin. Fyrst hafi henni verið tjáð af lögreglumanni að stúlkan hefði verið farþegi í bíl sem var stöðvaður vegna þess að farþegar væru of margir. Hún segir einnig að drengirnir sem voru með stúlkunni í bílnum hafi hvorki verið afklæddir né leitað á líkama þeirra. Stúlkan var á leið frá Ólafsvík til Reykjavíkur ásamt öðrum farþegum á svipuðu reiki, þegar farþegarnir voru allir handteknir og færðir á lögreglustöðina á Akranesi.
Móðir stúlkunnar segir frá sinni hlið málsins í tölvupósti til Stundarinnar. Þar segir að dóttir hennar hafi hringt í hana stuttu eftir að hún var færð á lögreglustöðina á Akranesi. „Dóttir mín hringdi í mig frá lögreglustöðinnien sagði ekkert um hvað hefði gerst, bara að hún væri alveg að fara að gráta, en vildi ekki segja neitt því hún væri inni á lögreglustöðinni, nema að þau hefðu verið stoppuð vegna þess að bíllinn sem þau voru á, sem var í eigu vinar hennar (sem var líka með í ferðinni) væri ekki rétt skráður. Það var ástæðan sem lögreglan gaf krökkunum.
Ég stóð í þeirri trú að hún og vinkona hennar væru bara að bíða eftir strákunum því það væri verið að afgreiða þetta og sagði henni að vera róleg og tala við mig þegar þau kæmu í bæinn. Ég var alveg róleg yfir þessu og hélt að hún hefði bara verið smeyk vegna þess að það getur hrætt hvern sem er að vera stöðvaður af lögreglu,“ segir móðir stúlkunnar.
Of margir farþegar
Vísir greindi fyrst frá málinu í gær en Oddgeir Einarsson, lögmaður stúlkunnar, hefur stefnt íslenska ríkinu fyrir hennar hönd vegna handtökunnar.
Í frétt Vísis kom fram að stúlkan sagðist hafa verið lokuð inni í fangaklefa ásamt annarri stúlku. Þar hafi kvenkyns lögregluþjónn framkvæmt líkamsleit á henni að hinni stúlkunni viðstaddri. Stúlkunni var jafnframt skipað að afklæðast og hlýddi hún því. Hún hafi svo verið beðin um að beygja sig svo að lögregluþjónninn gæti skoðað kynfæri hennar og rass. Á þeirri stundu höfðu lögreglumenn hvorki haft samband við foreldra stúlkunnar né barnavernd.
Athugasemdir