Sölu á eignarhlut ríkissjóðs í Sjóvá-Almennum tryggingum hf. lauk í gær og var sölugengi í útboðinu ákveðið 12,91 kr. á hlut. Að því er fram kemur á vef Landsbankans, sem hafði umsjón með útboðinu, var heildarsöluverðmæti samþykktra tilboða eftir skerðingu rúmlega 2,8 milljarðar króna og ganga kaupin í gegn á morgun, miðvikudag.
Tilboðsfresturinn í útboðinu var stuttur; allur eignarhlutur ríkisins var boðinn til sölu á föstudaginn síðastliðinn kl. 16:09 og tilboðsfresturinn rann út á mánudag kl. 8:30.
„Á grundvelli reglna Lindarhvols ehf. um umsýslu, fullnustu og sölu eigna, þar sem segir að sala og ráðstöfun skuli eiga sér stað að undangengnu opnu tilboðsferli, þar sem gætt sé gagnsæis og jafnræðis bjóðenda, fór salan fram í útboði sem auglýst var opinberlega eftir lokun markaða þann 23. september 2016,“ segir á vef Lindarhvols, einkahlutafélag sem heyrir undir Bjarna Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra og annast umsýslu, fullnustu og sölu ríkiseigna.
Hluturinn í tryggingafélaginu Sjóvá er ein af þeim eignum sem runnu ríkissjóði í skaut eftir að kröfuhafar fallinna viðskiptabanka og sparisjóða reiddu fram svonefnd stöðugleikaframlög. Fjármála- og efnahagsráðherra tengdist sjálfur þeim viðskiptagjörningum fyrir hrun sem leiddu til þess að tryggingafélagið fór á hliðina. Nú, átta árum seinna, bar hann sem fjármálaráðherra pólitíska ábyrgð á sölu eignarhluts ríkisins í félaginu. Því verki er nú lokið.
Athugasemdir