Tónlistarmaðurinn Megas lenti í háska á heimili sínu við Bergstaðastræti þegar hann sofnaði ölvaður út frá sígarettu. Slökkviliðið var kallað út og bjargaði það tónlistarmanninum, sem var í fastasvefni í reykfyllltu herbergi sínu. Frá þessu atviki segir í nýrri bók um Megas, Viðrini veit ég mig vera, sem kom út fyrir nokkrum dögum.
Þegar þetta gerðist var Megas í mikilli óreglu. Hann hafði fengið húsnæðið þegar hann og Spilverk þjóðanna unnu að upptökum á plötunni Á bleikum náttkjólum.
„Á þessum árum var mjög farið að halla undan fæti hjá Megasi og hann var á stöðugum hrakhólum með húsnæði, enda vildu fáir hýsa þetta drykkfellda skáld. Meðan hann og Spilverksmenn voru að taka upp náttkjólana höfðu þeir stundað æfingar í húsnæði Gunnlaugs Þórðarsonar, tengdaföður Egils Ólafssonar. Í framhaldi af því bauð Gunnlaugur Megasi að búa í kjallara hússins. Í aprílmánuði 1978 birtust fréttir af því að eldur hefði komið upp í húsinu að Bergstaðarstræti 74a sem áfast er Ásgrímsafni. Mikinn reyk lagði frá herberginu og reyndist leigjandinn sofandi þegar slökkviliðsmenn brutu sér leið í kjallarann ...," segir í bókinni.
Athugasemdir