Skýrsla um endurreisn íslenska bankakerfisins á síðasta kjörtímabili sem kynnt var í gær og kennd er við „meirihluta fjárlaganefndar Alþingis“ var aldrei rædd í fjárlaganefnd.
Þetta staðfesta tveir nefndarmenn, þau Haraldur Benediktsson úr Sjálfstæðisflokknum og Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar og annar varaformaður nefndarinnar, í samtali við Stundina.
Umrædd skýrsla virðist vera óprófarkalesin og byggir að miklu leyti á úrklippum, eða skjáskotum, af gögnum sem þegar eru komin fram. Þá er orðalag skjalsins afar frábrugðið því sem tíðkast í þingskjölum.
„Þetta er ekki þingskjal, þetta er óyfirlesið, þarna eru stafsetningarvillur, engin nöfn undir en samt er þetta kennt við meirihluta fjárlaganefndar án þess að gefið sé upp hvaða meirihluti það er. Ég vil ekki láta bendla mig við þetta. Við kvörtum auðvitað til forseta Alþingis því þarna er verið að misnota nafn nefndarinnar,“ segir Oddný í samtali við Stundina.
Stundin sendi fulltrúum stjórnarflokkanna í fjárlaganefnd fyrirspurn seint í gærkvöldi og spurði hvort þeir stæðu að skýrslunni ásamt Vigdísi Hauksdóttur og Guðlaugi Þór Þórðarsyni, formanni og varaformanni nefndarinnar. Enginn svaraði.
Stundin hringdi því í Harald Benediktsson og Pál Jóhann Pálsson, sem sitja í nefndinni fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.
Þegar Haraldur er spurður hvort hann og meirihluti fjárlaganefndar standi að skýrslunni ásamt formanni og varaformanni segir hann: „Þau unnu þessa skýrslu og við erum í meirihlutanum.“ En eru þau öll sammála niðurstöðum skýrslunnar? „Já, já,“ svarar Haraldur.
Aðspurður hvort skýrslan hafi verið afgreidd út úr fjárlaganefnd segir Haraldur: „Nei, nei, hún hefur ekki komið til umræðu í nefndinni, það er á morgun.“
Páll Jóhann Pálsson úr Framsóknarflokknum segir að meirihluti nefndarinnar hafi falið Vigdísi Hauksdóttur að ljúka málinu enda styttist í að kjörtímabilinu ljúki.
„Það er margt óhefðbundið á þinginu, en meirihlutinn fól Vigdísi að halda áfram með verkið. Svo þurfti að leggja lokahönd á þetta núna,“ segir Páll. „Langmest er þetta samantekt á gögnum sem verið er að safna saman á einn stað til að fólk átti sig á samhenginu.“
Í frásögn Kjarnans af blaðamannafundinum sem Vigdís Hauksdóttir og Guðlaugur Þór héldu í gær kemur fram að „nefndarmennirnir sem hafi staðið að gerð skýrslunnar hafi sjálfir unnið hana að hluta ásamt starfsmönnum nefndarinnar. Auk þess hafi utanaðkomandi sérfræðingar komið að gerð skýrslunnar en ekki var greint frá því hverjir þeir væru. Heildarkostnaður við gerð hennar er 90 þúsund krónur og greiddu Vigdís og Guðlaugur Þór þann kostnað úr eigin vasa.“
Stundin sendi Vigdísi og Guðlaugi fyrirspurn í gær þar sem eftirfarandi spurninga er spurt:
1. Hvers vegna hefur skýrslan ykkar ekki birst á vef Alþingis?
2. Af hverju greidduði kostnaðinn sjálf?
3. Er skýrslan unnin á vegum fjárlaganefndar?
4. Hvers vegna eru ekki nöfn meirihluta nefndarmanna við hana?
5. Samþykkti meirihluti nefndarinnar skýrsluna?
6. Hvaða utanaðkomandi sérfræðingar komu að gerð hennar?
7. Var skýrslan prófarkalesin í samræmi við það sem tíðkast þegar þingnefndir skila af sér skýrslum?
Engin svör hafa borist frá Vigdísi og Guðlaugi.
Páll Jóhann Pálsson segir að verklagið hafi verið óformlegt. Alþingi hafi ekki greitt kostnaðinn vegna þess að ekki hafi verið heimild til þess. Hins vegar hafi formaður og varaformaður nefndarinnar verið tilbúin að leggja út fyrir kostnaðinum sjálf. Hið óformlega verklag skýrist meðal annars af því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sé þegar búin að skoða málið. „En þetta er tekið saman til að átta sig betur á þessu. Hjálpa fólki að ná utan um hvað í rauninni gerðist og hvað má læra af þessu,“ segir Páll.
Að sögn Oddnýjar Harðardóttur hafði Vigdís hvatt til þess að umrætt mál yrði tekið upp fyrir nokkru síðan. „Hún talaði um „einkavæðinguna hina síðari“. Við bentum á að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefði þegar afgreitt málið með skýrslu, rannsakað það og skoðað, og þess vegna fannst okkur óeðlilegt að fjárlaganefnd tæki það einnig upp. Síðan heyrum við ekkert meira af þessu, nema bara að Vigdís segir í fjölmiðlum að von sé á bombum en okkur fannst það ekki koma okkur við. Svo birtist þetta skyndilega í nafni meirihluta fjárlaganefndar,“ segir Oddný í samtali við Stundina.
Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, furðar sig á vinnubrögðum þeirra löggiltu skjalaþýðenda sem sagðir eru hafa komið að skýrslunni. Hann skrifar á Facebook:
Margrét Tryggvadóttir, fyrrverandi þingkona Hreyfingarinnar, furðar sig einnig á vinnubrögðum þýðenda en jafnframt á umbroti skýrslunnar:
Athugasemdir