Margir kennarar Háskóla Íslands eru ósáttir við skólann vegna fyrirlestursins „Saga bólusetningar“ sem haldinn var á Háskólatorgi í gær. Þrátt fyrir hlutlaust nafn var um að ræða fyrirlestur á vegum „Heilsufrelsis“ sem berst meðal annars gegn bólusetningu barna. Fyrirlesarinn, Suzanne Humphries, hefur vakið mikla athygli fyrir að tala gegn bólusetningu. Tilefni fyrirlestursins var útgáfa á íslenskri þýðingu bókar Humphries, Saga bólusetninga - sjúkdómar, blekkingar og tálsýnir.
Heitar umræður spruttu upp á innri vef starfsmanna, HI-starf, vegna málsins en fimm kennarar vöktu þar fyrst athygli á málinu. „Háskóli Íslands var svo örlátur að lána Suzanne Humphries nafnið sitt með því að leigja henni stofu til að flytja fyrirlestur og auglýsa og selja bókina sína. Hefur Háskóli Íslands markað sér stefnu/vinnulag um útleigu á húsnæði háskólans til utanaðkomandi aðila? Okkur finnst að Háskóli Íslands eigi ekki að setja nafn sitt við skottulækningar, bull og hræðsluáróður með þessum hætti,“ segir í pósti kennaranna.
Athugasemdir