„Það sem fer á milli mín og þingmanna eða ráðherra Sjálfstæðisflokksins er ég ekki að fara ræða við þig eða aðra. Ég hef auðvitað veitt Ólöfu Nordal og mörgum öðrum félögum mínum ráð eins og ég hef getað.“
Þetta segir Óli Björn Kárason, varaþingmaður og áhrifamaður í Sjálfstæðisflokknum, aðspurður hvort hann hafi skrifað eða hjálpað til við að skrifa yfirlýsingu Ólafar Nordal innanríkisráðherra um aflandsfélag sem hún og eiginmaður hennar tengjast.
Lýsigögn PDF-skjalsins sem Ólöf sendi fjölmiðlum þegar fjallað var um félagið Dooley Securities sýna að skjalið var búið til úr Word-skjali skráðu á Óla Björn. Á þetta bendir pistlahöfundur Stundarinnar, Gunnar Jörgen Viggósson, í grein sem hann birti í dag. Þegar Stundin sló á þráðinn til Óla Björns furðaði hann sig á erindinu og vildi ekki tjá sig um málið.
Athugasemdir