Skattar álfyrirtækja lækka um 1,6 milljarða króna, ef miðað er við árið í fyrra, vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að afnema raforkuskatt.
Raforkuskatturinn var lagður tímabundið á árið 2009 vegna efnahagskreppunnar, en var framlengdur. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði á fundi Samálssamtaka álfyrirtækja, í vikunni, að afnám skattsins væri „forgangsmál“.
227 milljarða króna útflutningur
Fjölmiðlamaðurinn Kristinn Hrafnsson, talsmaður Wikileaks, er einn þeirra sem gagnrýnir aðgerðina harðlega. Hann opinberaði á sínum tíma raunverð á raforku til stóriðju. Í ljós kom að Norðurál greiddi 2 krónur á kílóvattsstund, á meðan íslenskur almenningur greiddi 10 krónur á kílóvattstund.
„Á dögunum var tilkynnt á hátíðarsamkomu álfyrirtækjanna (Samáls) að útflutningsverðmæti áls á liðnu ári hefði numið 227 milljörðum króna. Sé miðað við arðsemishlutfallið hjá Norðuráli eru 80-90 milljarðar eftir þegar búið er að borga allan rekstrarkostnað; launin, súrálið, raforkuna og annað. Kastljós hefur svo sýnt hvernig stór hluti hagnaðar fer úr landi vegna skuldsetningar skúffufyrirtækja í aflandsskjólum sem bera öll merki sýndargjörninga. Það er auðvitað galið að þessi tugmilljarða verðmæti verði ekki að stórum hluta eftir innanlands.,“ segir Kristinn á Facebook-síðu sinni. Hann líkir Íslandi við nýlenduríkið Kongó, sem á sínum tíma var undir harðri stjórn Leópolds Belgíukonungs.
Athugasemdir